Félaga- og stjórnmálasamtök í Namibíu sem heita Affirmative Repositioning (AR) hafa boðað að þau ætli sér, í samstarfi við breskt fyrirtæki sem beitir sér gegn spillingu, að reyna að sækja til baka fé sem hafi verið haft af namibísku þjóðinni vegna spillingarmála á borð við Samherjamálsins.
Job Shipuolo Amupanda, leiðtogi AR, sem einnig er fyrrverandi borgarstjóri og núverandi borgarfulltrúi í höfuðborginni Windhoek, sagði á blaðamannafundi á miðvikudag að ýmsir möguleikar yrðu skoðaðir, en á meðal þess sem standi til sé að ráðast lögsókn á hendur Samherja, sem breska fyrirtækið Restitution myndi styðja við.
„Við þurfum að fara á eftir eigum þessa fyrirtækis, hvar sem þær eru,“ sagði Amupanda og átti þar við Samherja. „Ef eignirnar eru í London munum við fara í mál í London. Ef eignirnar eru á Íslandi munum við höfða mál þar. Það verður að endurgreiða Namibíumönnum peningana,“ er haft eftir Amupanda í frétt namibíska blaðsins Namibian frá því í gær, en einnig hefur verið fjallað um málið í sjávarútvegsmiðlinum Undercurrent News.
Á vef Namibian er haft eftir Amupanda að sú ákvörðun að reyna að höfða mál gegn Samherja hvar sem fyrirtækið geymi eignir sínar stafi af trega namibískra yfirvalda við að sækja mál á hendur alþjóðlegum fyrirtækjum sem hagnast hafi vegna Fishrot-skandalsins, eins og málið er oftast kallað í Namibíu.
Amupanda lýsti því á blaðamannafundinum að hann myndi leita liðsinnis namibískra yfirvalda við fyrirhugaðan málarekstur. Ríkissaksóknarinn í Namibíu, Martha Imalwa, kaus að tjá sig ekki um málið þegar Namibian leitaði eftir því og sagðist ekki vita um hvað það snérist.
Jóhannes Stefánsson fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Samherja í Namibíu og uppljóstrari fagnaði hins vegar framtaki Amupanda og félaga í AR og kallaði þetta „stórt og mikilvægt skref“ í átt að réttlæti fyrir namibísku þjóðina.
Breska fyrirtækið Restitution, sem kallast gæti Endurgreiðsla upp á íslenska tungu, heldur úti vefsíðu þar sem fram kemur að það helgi sig því að hjálpa stjórnvöldum að berjast gegn spillingu með því að leggja til fé og stuðning er verið er að reyna að endurheimta einhverjar eigur.