Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallaði á fundi sínum í morgun um skipun embættismanna í störf án þess að þau væru auglýst laus til umsóknar. Umfjöllunin var á almennum nótum, en ekki sértækt vegna ákveðinnar skipunar en skipun nýs þjóðminjavarðar í síðasta mánuði hefur vakið hörð viðbrögð.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, segir í samtali við Kjarnann að ákveðið hafi verið að hefja frekari gagnaöflun og ræða svo næstu skref á fundi nefndarinnar eftir viku. Á meðal þess sem liggur fyrir að hægt sé að gera sé að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefji frumkvæðisathugun á skipunum sem átt hafa sér stað án þess að störf eða embætti hafi verið auglýst laus til umsóknar. Þórunn segir að ákvörðun um næstu formlegu skref gæti verið tekin á næsta fundi nefndarinnar.
Til þess að hefja frumkvæðisathugun þurfa þrír nefndarmenn að vera sammála um að gera það, en níu þingmenn sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru fleiri en þrír nefndarmenn tilbúnir í að ráðast í slíka athugun, verði það lagt til.
Skipan Hörpu vakti hörð viðbrögð
Sú atburðarás sem ýtti þessum bolta af stað var ákvörðun Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, að skipa Hörpu Þórsdóttur í embætti þjóðminjavarðar án þess að það væri auglýst laust til umsóknar.
Félag fornleifafræðinga og stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) sendu nær samstundis frá sér harðorðar yfirlýsingar vegna ákvörðunar Lilju um að skipa Hörpu í embættið.
Síðar sendi Starfsmannafélag Þjóðminjasafnsins frá sér yfirlýsingu þar sem það tók undir gagnrýnina á verklagið og sagði það lýsa „ metnaðarleysi ráðuneytisins í garð Þjóðminjasafns Íslands, ber vott um ógagnsæja stjórnsýslu og kastar rýrð á málaflokkinn í heild.“
Þá sagði Friðrik Jónsson, formaður BHM, við RÚV í samhengi við þessa skipun að tryggja þyrfti heilindi og traust til stjórnsýslunnar og ræða heimild ráðamanna til að færa embættismenn til í starfi.
„Ég hefði nú getað gert þetta öðruvísi“
Lilja ræddi þessa skipan við Kjarnann fyrir helgi og sagði meðal annars að almennt væri hún fylgjandi því að öll störf væru auglýst. Það væri hins vegar heimild í lögum um opinbera starfsmenn sem gerði ráðherra kleift að færa þá til í starfi. Í tilfelli Hörpu taldi Lilja að það gæti verið farsælt að taka safnstjóra úr einu höfuðsafni – en Harpa var áður yfir Listasafni Íslands – og færa yfir í það næsta.
Hún sagði hins vegar að viðbrögðin hafi verið slík við skipan þjóðminjavarðar „að maður hugsar um það hvort það sé skynsamlegt að nýta þessa heimild yfir höfuð. [...] Ef það er þannig að umræða í kringum flutninginn sætir gagnrýni og sé þá kannski til þess fallin að það geti verið ákveðin áskorun fyrir viðkomandi forstöðumann að hefja störf, að þá er ég bara eins og allir aðrir og hugsa: Ég hefði nú getað gert þetta öðruvísi.“
Meginreglan í lögum að auglýsa skuli laus embætti
Allt frá árinu 1954, þegar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett, hefur það verið meginregla í lögum á Íslandi að auglýsa skuli opinberlega laus embætti og störf hjá ríkinu.
Þá eru undanþágur frá reglunum sem fela í sér að störf sem hafa verið auglýst innan síðustu sex mánaða ef þess er getið í auglýsingunni að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu hennar. Að endingu er að finna undanþágur um störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu.
Engar fleiri undanþágur er að finna í lögunum.
Meirihluti ráðuneytisstjóra skipaðir án auglýsingar
Það hefur hins vegar færst verulega í vöxt hérlendis að ráðherrar skipi í embætti án þess að þau séu auglýst. Það leiddi meðal annars til þess að umboðsmaður Alþingis tók upp frumkvæðisathugun á málinu. Hann gafst upp á þeirri athugun í fyrravor.
Í bréfi þar sem þá settur umboðsmaður útskýrði ástæðu þessa kom fram að ekki væri forsvaranlegt að nýta takmarkaðan mannafla embættisins til að ljúka frumkvæðisathuguninni í ljósi þess að ráðamenn færu hvort eð er ekkert eftir skýrum reglum og vilja löggjafans í þessum málum.
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í síðasta mánuði að sjö af tólf starfandi ráðuneytisstjórum hefðu verið skipaðir án þess að embættin hafi verið auglýst laus til umsóknar. Á yfirstandandi kjörtímabili hafa þrír af þeim fjórum ráðuneytisstjórum sem hafa verið skipaðir fengið þær stöður án þess að þær hafi verið auglýstar lausar til umsóknar.