Stjórn Sjúkraliðafélags Íslands skorar á formenn stjórnarflokkanna að taka á málefnum bráðamóttöku Landspítalans í stjórnarmyndunarviðræðum sem nú standa yfir. Í gær birtu tugir sjúkraliða sem starfa á bráðamóttökunni opið ákall til stjórnvalda. Þar var lýst starfsumhverfi sem enginn starfsmaður á að þurfa að starfa í, segir í ályktun stjórnar Sjúkraliðafélagsins. „Þegar öryggi sjúklinga og velferð þeirra er stefnt í hættu skulu stjórnvöld hlusta. Sjúkraliðar, læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk er sammála um að ástandið er óboðlegt.“
Stjórn félagsins segir að allir landsmenn njóti góðs af öflugri bráðamóttöku en að sama skapi bitni það á þeim öllum þegar neyðarástand ríki á deildinni.
Almenningur á Íslandi vill að tekið verði á málefnum bráðamóttökunnar „og allir stjórnmálaflokkar landsins hafa talað fyrir slíkum aðgerðum,“ segir í ályktun Sjúkraliðafélagsins. „Fyrst og fremst vantar meira fjármagn til að tryggja nauðsynlega mönnun og rétt flæði innan spítalans til framtíðar.“
Rík ástæða til að bregðast við
Þar segir enn fremur að þegar sjúklingar fái ekki þá faglegu þjónustu sem þeim beri samkvæmt lögum sé „rík ástæða til að bregðast við, annars verður sjúklingum áfram stefnt í hættu á bráðamóttöku Landspítalans því þar ríkir neyðarástand“. Stjórnin segir að nú er nóg komið og brýnna aðgerða þörf.
Staðan á bráðamóttökunni er ekki sú eina sem um hefur verið fjallað í fjölmiðlum upp á síðkastið. Ástandið á gjörgæslunni, nú þegar COVID-sjúklingum er enn einu sinni að fjölga á spítalanum vegna uppsveiflu í faraldrinum, hefur einnig verið í kastljósinu.
Ólíku saman að jafna
Farsóttarnefnd Landspítalans sá sig knúna til að birta samanburð á aðstöðunni á Landspítalanum nú og árið 2009 í kjölfar orða Svanhildar Hólm, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, í viðtali við RÚV um helgina. Í viðtalinu bar hún saman ástandið á Landspítalanum núna og fyrir tólf árum er svínaflensan reið yfir.
„Hvers vegna þessir faraldrar eru bornir saman er óljóst enda ólíku saman að jafna,“ segir í tilkynningu farsóttarnefndar sem birt var á vef Landspítalans í gær. Þar er svo farið í gegnum marga þætti til samanburðar. Eitt mest sláandi atriðið sem farsóttarnefndin nefnir er að árið 2009 voru ríflega 900 rúm á Landspítala (285/100.000 íbúa) og 18 gjörgæslurými. Þau eru nú rúm 640 (175/100.000 íbúa) og gjörgæslurýmin 14.
Nefndin bendir einnig á að COVID-19 hefur staðið í 20 mánuði en faraldur svínaflensunnar var viðfangsefni á Landspítala í 75 daga.
Svínaflensa er inflúensa sem er vel þekktur sjúkdómur en COVID-19 er nýr og áður óþekktur sjúkdómur. Bólusetning við svínaflensu hófst strax með góðum árangri en bólusetningar við COVID-19 hófust tæpu ári eftir að faraldurinn hófst og árangurinn er ekki jafn góður af þeim bólusetningum.
Við svínaflensu var svo unnt að nota veirulyfið Tamiflu sem dró úr veikindum og kom jafnvel í veg fyrir þau. Slík lyf eru ekki fáanleg við COVID-19, bendir farsóttarnefndin á.
Í svínaflensufaraldrinum lögðust um 130 sjúklingar inn á spítalann og þurfti 21 gjörgæslumeðferð. Það sem af er COVID-19 faraldri hafa 492 sjúklingar lagst inn á Landspítala og 87 þeirra þurft gjörgæslumeðferð, sumir oftar en einu sinni.
Nefndin segir enn fremur að áhrif svínaflensunnar á samfélagið hafi verið mun minni en COVID-19, þar sem ekki þurfti að beita rakningu, einangrun og sóttkví. „Þessi staðreynd hefur umtalsverð áhrif á starfsemi Landspítala nú.“
Þá segir nefndin að það sé ekki rétt munað hjá Svanhildi að ekki hafi þurft að fara í sérstakar ráðstafanir á Landspítala vegna svínaflensunnar. „Starfsemi spítalans tók þeim breytingum þá sem nauðsynlegt var í farsótt eins og nú en þær stóðu aðeins yfir í fáeinar vikur, sem kann að skýra að einhverjir muni ekki þá alvarlegu stöðu sem uppi var á þeim tíma.“