Níu mál sem skilgreina má sem kynferðislega áreitni eða áreiti hafa farið í formlegt ferli á Landspítala á undanförnum fjórum árum. Þeim úrræðum sem almennt er hægt að beita á spítalanum í svona málum eru til dæmis formleg viðvörun, tilflutningur/breyting á starfi, áminning eða uppsögn.
Þetta kemur fram í svari spítalans við fyrirspurn Kjarnans.
Átta málum hefur verið lokið og er eitt mál enn í formlegu ferli og ólokið. „Við höfum ekki leyfi til að tala um hvernig einstökum málum er lokað eftir því sem ég best veit. Þetta eru 8 mál – fólk innan spítalans veit af þeim, og þau eru það fá að þau gætu verið persónugreinanleg,“ segir í svari upplýsingafulltrúa spítalans.
„Ferlið sem heldur utan um slík tilvik er skilgreint sem verklagsregla í gæðahandbók spítalans, fjallað er um það á innri vef spítalans og það kynnt fyrir starfsmönnum í tengslum við samskiptasáttmála,“ segir jafnframt í svarinu.
Samkvæmt skilgreindum verkferlum fyrir mál af þessu tagi er starfsmaður sem upplifir áreitni hvattur til að tilkynna það til næsta stjórnanda og/eða mannauðsstjóra, að því er fram kemur hjá spítalanum.
„Í ákveðnum tilfellum tekur stuðnings- og ráðgjafateymi á skrifstofu mannauðsmála erindið til skoðunar. Tilgangur þeirrar skoðunar er að leggja sameiginlega mat á það hvort umkvörtun falli undir skilgreiningu á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Tilgangurinn er einnig að kanna hvaða lausnir séu mögulegar og styðja þolanda vilji hann leggja fram formlega kvörtun. Í öllum tilvikum er lögð áhersla á að trúnað og virðingu gagnvart öllum hlutaðeigandi.“