„Nú er ég Dauðinn, eyðingarafl heimsins,“ voru orðin sem flugu í gegnum huga J. Robert Oppenheimer þegar hann áttaði sig á hvers konar vopn hann hafði smíðað. Hann kallaði sig oft föður „atómsprengjunnar“ enda hafði hann leitt vísindalega framkvæmd Manhattan-verkefnisins.
Afurð Manhattan-verkefnisins hefur mótað heimssöguna, allar götur síðan, enda er hér um að ræða öflugasta vopn sem mannkynið hefur komist í tæri við. En þrátt fyrir að hafa svo mikil áhrif á þróun heimsins, stjórnmálanna og, oftar en ekki, haldið mannkyninu í heljargreypum hefur kjarnorkusprengjan aðeins verið notuð tvisvar í hernaði.
Um þessar mundir eru rétt 70 ár liðin síðan Bandaríkjamenn opnuðu vítisgáttir kjarnorkusprengjunnar yfir Hiroshima og Nagasagi í Japan með þeim afleiðingum að um það bil 240.000 manns féllu. Enginn veit fyrir víst hversu margir fórust því fólk hreinlega leystist upp í loftkennt ástand; gufaði upp.
Í öll þessi 70 ár hafa íbúar Hiroshima komið saman daginn sem sprengjan féll og minnst allra þeirra sem dóu hryllilegum dauðdaga. Um leið árétta þau til heimsins að svona lagað má aldrei gerast á ný.
Hér er saga sprengjunnar og afleiðinga hennar í stuttu máli.
Þessi bygging stendur enn í óbreyttri mynd í Hiroshima til minningar um þá sem fórust og hryllingin sem fylgdi kjarnorkusprengjunni.
Til Roosevelt, frá Einstein
Í desember árið 1938 uppgvötuðu tveir þýskir vísindamenn kjarnasamruna. Fréttirnar af þessu bárust fljótt til New York í Bandaríkjunum og til eyrna þriggja ungverskra eðlisfræðinga sem áttuðu sig á möguleikunum sem slík uppgvötun gæfi. Hræddir um að Þjóðverjar yrðu fyrri til að rannsaka kjarnasamruna og keðjuverkandi áhrif splundrandi atóma rituðu þeir Szilárd, Teller og Wigner bréf til Franklins D. Roosevelt, Bandaríkjaforseta.
Til þess að bréfið skilaði sér örugglega til forsetans leituðu þeir uppi Albert Einstein sem þá þegar var orðinn frægur maður fyrir uppgvötanir sínar í eðlisfræði. Einstein setti nafn sitt undir skilaboðin sem útskýrðu áhyggjur þeirra og óskuðu eftir fjármagni til rannsókna á þessu svo Bandaríkin yrðu fyrri til.
Kaldhæðni örlaganna réð því að þegar Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi ofsótti hann gyðinga og um leið margt af skarpasta fólki veraldar svo þeir flúðu undan honum. Margir komust til Bandaríkjanna og tóku þátt í að smíða sprengjuna, sem upphaflega átti að nota gegn nasistum í Þýskalandi.
Manhattan-verkefnið
Eftir að hafa tryggt fé til rannsóknar á kjarnasamruna og hvernig hægt væri að nota hann varð rannsóknin að Manhattan-verkefninu. Verkefnið varð hernaðarlegt og markmiðið að smíða sprengju úr úraníum.
„Við vissum að heimurinn yrði aldrei samur. Sumir hlóu, aðrir grétu. Flestir voru hljóðir.“
Fyrsta kjarnorkusprengjan var sprengd í Nýju Mexíkó 16. júlí 1945. Stríðinu í Evrópu var þá lokið og ljóst að ef tilraunin gengi upp yrði vopnið notað gegn Japönum gæfust þeir ekki upp.
Trinity-tilraunin gekk vel og losaði ígildi 20 kílótonna af TNT. 16 millisekúndum eftir kveikjuna hafði hálfhvel sprengjunnar náð 200 metra hæð. Hitinn var svo mikill að sandurinn í eyðimörkinni bráðnaði og varð að gleri. Sveppakýjið náði 12,1 kílómetra hæð.
„Við vissum að heimurinn yrði aldrei samur. Sumir hlóu, aðrir grétu. Flestir voru hljóðir. Nokkrar línur úr ritningu hindúa, Bhagavad Gita, fóru í gegnum huga mér um það þegar Vishnu reynir að sannfæra prinsinn um að sinna skildum sínum, og tekur á sig form marghanda búddaguðs og segir: Nú er ég Dauðinn, eyðingarafl heimsins. Ég held að allir hafi hugsað það, hver á sinn hátt,“ sagði Oppenheimer síðar í viðtali sem sjá má hér að neðan.
Truman tekur ákvörðun
Harry S. Truman var orðinn forseti eftir að Roosevelt lést í embætti 12. apríl 1945. Truman var staddur á Potsdam-ráðstefnunni þegar honum bárust fréttir af tilrauninni í eyðimörkinni og tilkynnti Jósef Stalín og Winston Churchill að nú réði hann yfir öflugasta vopni heims.
Eftir að hafa gefið Japönum úrslitakosti um að þeir gæfust upp en þeir neitað, var ákvörðunin tekin. Kjarnorkusprengju yrði varpað á borg í Japan til þess að enda stríðið. Ákvörðunina réttlættu bandarísk stjórnvöld með því að benda á að með því að fella marga af óvinum sínum með þessu öfluga vopni, væri verið að bjarga lífi fjölmargra Bandaríkjamanna sem annars þyrftu að ráðast gegn sjálfsvígsher Japana.
Bandaríkin höfðu þá um nokkra mánaða skeið kastað sprengjum yfir japanskar borgir, ekki síst eldsprengjum sem ollu ótrúlegu tjóni, bæði á manneskjum og innviðum landsins.
Little Boy og Fat Man
Leiðangursmenn stilltu sér upp fyrir framan sprengjuvélina sem kastaði Little Boy yfir Hiroshima. Leiðangurinn og aðdragandi hans var allur vel skjalfestur.
Fyrstu sprengjunni, sem hlaut nafnið Little Boy, var varpað yfir Hiroshima að morgni dags 6. ágúst. Veðrið var mjög gott og áhöfn sprengjuvélarinnar Enola Gay hæfði skotmark sitt í miðborginni vel. Borginni hafði verið hlýft fyrir öðrum sprengjuárásum bandamanna svo hægt var að áætla eyðileggingarmátt kjarnorkusprengjunnar betur.
Hiroshima var valin sem fyrsta skotmarkið því hún var bæði mikilvæg fyrir iðnað í Japan og þar voru herbúðir fjölmargra japanskra hermanna. Sprengjan féll á þeim tíma þegar flestir voru á leið til vinnu og undir berum himni. Erfitt er að átta sig á hversu margir létust strax af völdum sprengjunnar því hitinn var svo mikill að fólk gufaði hreinlega upp.
Kjarnorkusprengjan varpaði skuggum á jörðina vegna þeirrar gríðarlegu geislunar sem hún skapaði.
Enn í dag má sjá skuggann af manninum sem gufaði upp (e. The Vaporized Man) á steintröppum í Hiroshima. Vegna þeirrar gríðarlegu geislunar sem varð í sprenginunni upplitaðist allt í margra kílómetra radíus. Maðurinn hefur að öllum líkindum setið í makindum á tröppunum, orðið fyrir geisluninni og skilið eftir sig skugga, áður en hann gufaði hreinlega upp.
Vegna veðurs var Nagasaki seinna skotmarkið en ekki Kokura. Seinni sprengjan, Fat Man, féll þar 9. ágúst en hæfði skotmark sitt ekki eins vel og lenti í dal. Eyðileggingarmáttur sprengjunnar var hins vegar meiri eða 21 kílótonn miðað við 12-15 kílótonn í Hiroshima.
Upptökurnar frá Hiroshima
Til að skrásetja þessar fyrstu kjarnorkusprengjur fyldi sérstök flugvél búin tökuvélum leiðangrinum yfir Hiroshima og Nagasaki eftir. Vélin var kölluð „Necessary evil“.
Sigur bandamanna í Seinni heimstyrjöldinni
Í kjölfar sprenginganna ríkti alger ömurð í borgunum sem höfðu orðið fyrir sprengjunum. Fáir læknar sinntu fársjúku fólki og engin aðstaða var til að hjálpa þeim sem verst urðu úti.Nokkrum klukkustundum eftir að sprengjan sprakk féllu svartir regndropar á borgina. Fólkið reyndi að drekka geislavirkt vatnið en áttaði sig ekki á hættunni. Geislavirknin drap hvítu blóðkornin í blóðinu svo líkamar þess gátu ekki barist gegn sjúkdómum sem hófu að breiðast út. Fólk rotnaði hreinlega að innan.
Japanir gáfust upp 15. ágúst 1945. Í sjö ár var landið hernumið Bandaríkjamönnum en árið 1952 fengu Japanir aftur sjálfstæði. Í stjórnarskrá landsins er ákvæði um að Japönum sé bannað að hefja stríð gegn annari þjóð. Seinni heimstyrjöldin er því síðasta stríðið sem Japan háði.
Eftirlifendur rifja upp eftirmála Little Boy
Kjarnorkuöld
Little Boy og Fatman eru einu kjarnorkusprengjurnar sem notaðar hafa verið í hernaði og gegn örðu fólki. Lyktir stríðsins höfðu skapað nýtt valdajafnvægi í heiminum. Heimsveldi Breta var að hruni komið en Bandaríkin orðin eitt áhrifamesta ríki heims ásámt Sovétríkjunum.
Í hönd fór vopnakapplaup þessara öflugustu ríkja heims og vígbúnaðurinn fólst ekki síst í að smíða svo margar kjarnorkusprengjur að hægt væri að tortíma jörðinni og öllu lífi á henni mörgum sinnum. Nokkrum sinnum lá við kjarnorkustyrjöld en alltaf var henni afstýrt.
Þrátt fyrir samkomulag milli öflugustu hervelda heims um fækkun kjarnorkuvopna í heiminum er afl herja enn mælt eftir kjarnorkuvopnabúri þeirra. Ríki á svæðum þar sem ójafnvægi ríkir vilja til dæmis eignast kjarnavopn til að hafa betur í hugmyndafræðilegum hernaði gegn nágrönum sínum og óvinum.
Í heiminum eru talin vera um 4.000 tilbúin kjarnavopn og um það bil 10.000 í heildina. Bandaríkin eiga lang stærsta kjarnorkuvopnabúrið, eða 2.104 tilbúin vopn. Rússar eru næst stærstir með 1.600 tilbúin vopn. Önnur ríki eiga mun minna af kjarnavopnum.
Bretar, Frakkar og Kínverjar eiga til dæmis aðeins um 250 hvert. Indland og Pakistan eiga einnig rúmlega 100 kjarnorkusprengjur hvert og Norður-Kórea á ekki meira en 10 flaugar. Þá er talið að Ísrael eigi fjölmörg kjarnorkuvopn en enn þann dag í dag eru það aðeins ágiskanir.
Því ríkir enn kjarnorkuöld þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið á síðastliðin 70 ár.