Í þá tíð… Unternehmen Weserübung – Innrásir Þjóðverja í Danmörku og Noreg

Þjóðverjar réðust inn í Danmörku og Noreg.

Þýskir hermenn marsera í Bergen.
Þýskir hermenn marsera í Bergen.
Auglýsing

Á þessum degi fyrir réttum 77 árum, hinn 9. apríl árið 1940, hófu her­sveitir Þriðja rík­is­ins inn­rásir í Noreg og Dan­mörku. Aðgerðin var sam­þætt og sner­ist ann­ars vegar um að tryggja yfir­ráð yfir norsku strand­lengj­unni þaðan sem mátti flytja sænskt járn­grýti til hern­að­ar­fram­leiðslu Þjóð­verja og herja á skipa­sigl­ingar banda­manna í Norður Atl­ants­hafi, og hins vegar að taka danska flug­velli til að ná betri stöðu á Norð­ur­sjó og sigl­inga­leiðum inn í Eystra­salt.

Hrá­efn­is­flutn­ingar í brennid­epli

Þegar þarna var komið við sögu í Seinni heims­styrj­öld­inni höfðu Þjóð­verjar og Sov­ét­menn gert með sér griða­sátt­mála og skipt með sér Pól­landi, átök geisuðu um gjör­vallt Norð­ur­-Atl­ants­haf og Sov­ét­ríkin höfðu ráð­ist inn í Finn­land.

Fram­leiðsla stríðs­gagna í Þýska­landi reiddi sig á inn­flutt járn­grýti frá Norð­ur­-Sví­þjóð. Að vetri til var land­leiðin suður ófær og því þurfti að flytja hrá­efnið sjó­leiðis frá hafn­ar­borg­inni Nar­vik í Norð­ur­-Nor­egi.

Auglýsing

Þetta vissu Banda­menn jafn vel og Þjóð­verjar þannig að áætl­anir beggja gerðu ráð fyrir mik­il­vægi hafn­ar­inn­ar. Bretar höfðu meðal ann­ars fyr­ir­hugað að setja her­lið í land í Nor­egi og fara yfir Sví­þjóð til að koma Finnum til hjálpar í Vetr­ar­stríð­inu gegn Sov­ét­mönn­um. Það breytt­ist svo þegar Finnar sömdu um frið við Sov­ét­menn í mars 1940. Þess í stað var ákveðið að leggja tund­ur­dufl undan Nor­egs­strönd­um.

Nor­eg­ur, Sví­þjóð og Dan­mörk voru hins vegar hlut­laus ríki og það flækti málin þegar kom að því að rétt­læta það að beita her­valdi gegn þeim. Þarna var aðeins beðið eftir átyllu.

Árás í skjóli nætur

Átyllan sem Hitler beið eftir kom svo í febr­úar þetta ár þegar breskur tund­ur­spillir réð­ist um borð í þýskt flutn­inga­skip í norskri land­helgi. Í Berlín var þetta túlkað sem svo að Bretar væru til­búnir að virða hlut­leysi Nor­egs að vettugi og því var und­ir­bún­ingur inn­rás­ar­inn­ar, sem kall­að­ist Unter­neh­men Wes­erübung, kennd við ána Weser sem rennur í Norð­ur­sjó við Brem­en­haven, sett á fullt. Norski jað­ar­póli­tíkus­inn Vidkun Quisl­ing, sem lengi hafði dáðst að afrekum Hitlers og and­stöðu hans við komm­ún­isma, hafði nokkru áður hitt Hitler sjálfan, en í byrjun apríl hitti Quisl­ing útsend­ara Þjóð­verja í Kaup­manna­höfn og lét þeim í té þær upp­lýs­ingar sem hann hafði um varnir Nor­egs.

Fyrstu þýsku skipin létu úr höfn 3. apr­íl, tveimur dögum áður en Bretar hófu að dreifa tund­ur­dufl­un­um.

Hinn 9. apríl var svo látið til skarar skríða. Skip sigldu inn að Osló, og öðrum helstu borgum og bæj­um; Bergen, Stavan­ger, Þránd­heimi og svo vit­an­lega Nar­vik.

Á sama tíma geyst­ust þýskar her­sveitir yfir landa­mærin inn í Dan­mörku. Í báðum aðgerð­unum not­uð­ust Þjóð­verjar við fall­hlífa­her­sveitir til að taka yfir flug­velli, en það var í fyrsta sinn í sög­unni sem slíkum sveitum var beitt í hern­aði.

Búið fyrir hádeg­is­mat

Eins og gefur að skilja voru nokkuð hæg­ari heim­an­tökin að ráð­ast á Dan­mörku en Noreg þar sem ein landa­mæri skildu Dan­mörku frá Þýska­landi og land­svæðið er umtals­vert minna og auð­veld­ara yfir­ferð­ar.

Enda tóku aðgerðir í Dan­mörku skjótt af. Nokkrum klukku­stundum eftir að inn­rásin hófst höfðu dönsk stjórn­völd gef­ist upp, enda hót­uðu Þjóð­verjar að senda Luftwaf­fe, flug­her Þriðja rík­is­ins, af stað og láta sprengjum rigna yfir Kaup­manna­höfn. Mót­spyrna var gagns­laus og Danir sömdu um að gef­ast upp gegn því að fá að halda stjórn yfir inn­an­rík­is­mál­um.

Þýskur herbíll á götum danskrar borgar.

Sam­komu­lagið hélst nokkuð gott milli almenn­ings, stjórn­valda og her­liðs Þjóð­verja framan af stríði, en þegar komið var fram á árið 1943 hafði kergja meðal almenn­ings auk­ist stórum og farið var að bera á skemmd­ar­verkum gegn þýska hern­um. Það var ekki liðið og í sum­ar­lok var Dan­mörk form­lega sett undir beina þýska stjórn og í hönd fóru róst­ur­tímar þar sem and­spyrna jókst, sem og ofbeldi og harka her­námsliðs­ins, sem hélst allt til stríðsloka. Þegar þarna var komið höfðu þó flestallir gyð­ingar flúið land­ið. Af rúm­lega átta þús­und dönskum gyð­ingum féllu 477 í hendur Þjóð­verja og 70 voru drepn­ir.

Hörð mót­spyrna með aðstoð Banda­manna

Norð­menn voru í allt ann­ari aðstöðu, enda var landið hluti af áætl­unum Banda­manna sem voru með fjöl­mörg skip undan ströndum Nor­egs.

Víð­ast mættu Þjóð­verjar þó tak­mark­aðri mót­spyrnu, enda við ofurefli að etja fyrir norska her­lið­ið. Ein­kenni­leg til­viljun var þó að verki þegar her­skip sigldu inn að Osló. Krupp vopna­smiðjan þýska hafði lengi selt Norð­mönnum vopn og hafði látið stjórn­völdum í té upp­lýs­ingar um hvaða bún­aði Nor­egur hefði yfir að ráða. Þeim láð­ist þó að geta eld­gam­allar fall­byssu sem stað­sett var í virk­inu Oscars­borg í Osló­ar­firði.

Hafnarborgin Narvik var gríðarlega mikilvæg fyrir Þjóðverja til að halda uppi flutningi á járngrýti frá Svíþjóð.Skot þaðan sökktu for­ystu­skipi Þjóð­verja, en með því fór­ust fleiri hund­ruð skip­verjar, og keypti kon­ungs­fjöl­skyld­unni og rík­is­stjórn­inni tíma til að kom­ast undan með gull­forða rík­is­ins. Þrátt fyrir að Þjóð­verjar næðu síðar stjórn yfir öllu land­inu gafst norska stjórnin aldrei form­lega upp og var, að nafn­inu til, enn við völd.

Quisl­ing beið ekki boð­anna þegar ljóst var að Osló var fallin í hendur Þjóð­verja og lýsti því yfir í útvarps­ávarpi að hann hafi myndað rík­is­stjórn og tekið yfir stjórn lands­ins.

Á meðan var barist víða um land þar sem her­lið Banda­manna freist­aði þess að stöðva norð­ur­för Þjóð­verja. Þjóð­verjar lögðu undir sig Nar­vik strax á fyrsta degi, en öllum skipum þeirra þar fyrir utan var sökkt af breskum her­skip­um. Bæði lið lögðu mikla áherslu á að taka Nar­vik, en þróun mála á öðrum víg­stöðvum setti þá strik í reikn­ing­inn.

Þannig bar við að Þjóð­verjar hófu, hinn 10. maí, mikla leift­ur­sókn, blitzkrieg, inn í Frakk­land, Belg­íu, Hol­land og Lúx­emburg. Það gekk svo vel og hratt að Bretar máttu hafa sig alla að við að forða her­liði sínu frá frönsku hafn­ar­borg­inni Dunkerque á dauð­ans flótta.

Það gjör­breytti stöðu Breta sem vildu treysta sína eigin stöðu og drógu Banda­menn 25.000 manna lið sitt til baka frá Nor­egi. Síð­ustu her­menn Banda­manna yfir­gáfu Nar­vik hinn 8. júní og degi síðar lagði síð­asta norska her­deildin niður vopn.

Þjóð­verjar höfðu tekið stjórn­ina í Nor­egi, en ekki fyrr en eftir tveggja mán­aða bar­áttu, sem var það lengsta sem nokkur þjóð náði að halda út gegn Þjóð­verjum fyrir fall.

Her­námið og Quisl­ing-­stjórnin

Eins og fyrr sagði lýsti Quisl­ing því fljótt yfir að hann myndi stýra nýrri rík­is­stjórn, en honum varð ekki kápan úr því klæð­inu þar sem eng­inn virt­ist taka mark á hon­um. Hvorki rík­is­stjórnin sem var enn við völd og færði sig norðar eftir því sem Þjóð­verjar hertu tök­in, né Hákon kon­ung­ur, sem sömu­leiðis var á flótta en aftók með öllu að skipa Quisl­ing for­sæt­is­ráð­herra. Quisl­ing hafði enda ekk­ert til­kall til valda þar sem hann var átti ekki einu sinni sæti á þingi og flokkur hans, Nasjonal Sam­ling, var varla annað en félags­skapur í kringum for­mann sinn.

Þess í stað var skipuð ráð­gjafa­stjórn undir stjórn þýsks Reichskommisars, en þar voru að vísu aðeins með­limir Nasjonal Sam­ling. Quisl­ing fékk svo ákveðna upp­hefð árið 1942 þegar hann var gerður að yfir­manni nýrrar rík­is­stjórn­ar, flutti inn í kon­ungs­höll­ina og kvaðst hand­hafi þeirra valda sem í stjórn­ar­skrá var falið kon­ungi og þing­inu. Í raun var stjórn Quisl­ings þó aðeins lepp­stjórn fyrir Þjóð­verja, en eitt af fyrstu verkum stjórn­ar­innar var að end­ur­vekja lög sem bönn­uðu gyð­ingum inn­göngu í land­ið. Þau höfðu áður verið numin úr gildi árið 1851.

Vidkun Quisling, þriðji frá hægri á þessari mynd, fór fyrir leppstjórn Þjóðverja í Noregi á hernámsárunum.

Hörð and­spyrna

Norð­menn sættu sig aldrei við yfir­ráð Nas­ista, og varn­ar­bar­áttan sner­ist fljót­lega upp í and­spyrnu. And­spyrnu­hreyf­ingin Mil­org var stofnuð utan um starf­semi fjöl­margra hópa árið 1941 og unnu í sam­starfi við norsku útlaga­stjórn­ina í Bret­landi og breska her­inn. Þeir stund­uðu skemmd­ar­verk gegn þýska her­námslið­inu og hreyf­ingin dafn­aði eftir því sem á leið stríð­ið.

Þegar yfir lauk hafði Mil­org á að skipa um 40.000 her­mönn­um.

Frelsun Dan­merkur og Nor­egs

Ekki þarf að fjöl­yrða um lok styrj­ald­ar­inn­ar. Þýska­land lenti á vegg í inn­rásinni í Sov­ét­ríkin árið 1943 og Banda­menn réð­ust til atlögu í Vest­ur­-­Evr­ópu ári síð­ar. Eftir það var útséð með að draumur Hitlers um Þús­und ára ríki myndi ræt­ast og þegar Berlín var við það að falla í apríl 1945 svipti hann sig lífi.

Nokkrum dögum síðar gaf Dönitz aðmíráll yfir­mönnum þýska hers­ins í Nor­egi og Dan­mörku fyr­ir­skip­anir um að leggja niður vopn og her­nám­inu lauk form­lega.

Í báðum löndum hefur mikið verið rætt um þátt­töku og ábyrgð stjórn­mála­fólks og almenn­ings á meðan her­námi stóð. Sér­stak­lega í Dan­mörku þar sem mörgum þótti sem and­spyrnan hefði getað verið harð­ari fyrstu árin.

Í báðum löndum fóru fram rétt­ar­höld í stríðs­lok. Í Nor­egi voru 37 dæmdir til dauða fyrir land­ráð, þar á meðal Vidkun Quisl­ing, hvers nafn er í dag orðið sam­nefn­ari fyrir föð­ur­lands­svik, og í Dan­mörku voru 46 teknir af lífi.

Fleiri merkisatburðir 9. apríl

1865 Robert E. Lee, her­for­ingi Suð­ur­ríkj­anna, gefst upp og er þar með bund­inn endi á borg­ara­styrj­öld­ina í Banda­ríkj­un­um.

1881 Útlag­inn William Bonn­ey, Billy the Kid, dæmdur til dauða fyrir morð. Hann slapp og var laus í nokkra mán­uði áður en hann var skot­inn til bana.

1978 George Gervin, Ísmað­ur­inn, skorar 63 stig í síð­asta leik NBA-­tíma­bils­ins og tryggir sér þannig stiga­skor­un­ar­tit­il­inn það árið.

1991 Georgía lýsir yfir sjálf­stæði frá Sov­ét­ríkj­un­um.

1992 Manuel Nori­ega, fyrrum for­seti Pana­ma, sak­felldur fyrir fíkni­efna­smygl til Banda­ríkj­anna. Hann var hand­tek­inn eftir að hafa verið flæmdur út úr sendi­ráði Vatík­ans­ins með háværri rokktón­list.

2003 Banda­ríkja­menn leggja undir sig Bagdad, höf­uð­borg Íraks.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÍ þá tíð...
None