Einn skammtur af bóluefni Janssen veitir mikla vörn gagnvart alvarlegum veikindum og dauða af völdum Delta og Beta afbrigðum kórónuveirunnar, gögn úr nýrri klínískri rannsókn sem framkvæmd var í Suður-Afríku benda til þess. Hún er fyrsta stóra klíníska lyfjarannsóknin sem kannar virkni bóluefnis Janssen gegn Delta-afbrigðinu. Frá þessu er greint á vef New York Times en taka ber fram að gögn rannsóknarinnar hafa ekki enn verið ritrýnd og þau hafa enn ekki birst í vísindaritum. Vestanhafs er talað um bóluefni Janssen sem Johnson & Johnson.
Um það bil hálf milljón heilbrigðisstarfsmanna í Suður-Afríku tók þátt í rannsókninni, sem eru í miklum áhættuhópi gagnvart því að smitast af COVID-19. Einn skammtur af bóluefninu er sagður veita 95 vörn gegn dauða af völdum Delta-afbrigðisins og 71 prósent vörn gegn spítalainnlögnum. Virkni bóluefnisins gegn Beta-afbrigðinu var aðeins lakari, en það afbrigði er talið eiga auðveldara með að leika á ónæmiskerfið. Í þeim tilfellum þegar þátttakendur í rannsókninni smituðust þá fengu um 96 prósent þeirra væg einkenni. Hluti þeirra þátttakenda í rannsókninni sem smituðust af COVID-19 og glímdu við mjög alvarleg veikindi eða dóu af völdum veirunnar var innan við 0,05 prósent.
„Að okkar mati er bóluefnið að gera það sem það var hannað til að gera, koma í veg fyrir að fólk leggist inn á spítala og að koma í veg fyrir að það fari í öndunarvél og látist,“ segir læknirinn Linda-Gail Bekker í umfjöllun New York Times, en hún er meðal þeirra sem stýrir rannsókninni. Hún segir niðurstöðurnar benda til þess að fólk sem hafi fengið einn skammt af bóluefni Jansen þurfi ekki örvunarskammt.
Þessi rannsókn ætti því að hljóma vel í eyrum þeirra milljóna sem fengið hafa bóluefni frá Janseen, sérstaklega í ljósi þess að fyrri rannsóknir sem framkvæmdar voru á tilraunastofum bentu til þess að þau sem fengu bóluefnið gætu verið berskjaldaðri gagnvart Delta-afbrigðinu en þau sem fengu önnur bóluefni sem gefin eru í tveimur skömmtum.
Engar vísindarannsóknir birtar um örvun bólusetningar
Ísland er í hópi þeirra landa sem hafa ákveðið að gefa fullbólusettum örvunarskammta, ásamt meðal annars Ísrael, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Þýskalandi. Hér á landi hafa rúmlega 53 þúsund fengið bóluefni Janssen og nú þegar hefur fólki í þeim hópi verið gefinn örvunarskammtur.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans frá því í síðustu viku sagði Kamilla Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, að „engar vísindarannsóknir“ hefðu verið birtar um örvun Janssen-bólusetningar en rök fyrir ákvörðuninni kæmu fram í minnisblaði. Rökin eru þau að vörn eftir einn skammt af bóluefni Janssen sé svipuð og vörn eftir einn skammt af öðrum bóluefnum. „En Janssen er með markaðsleyfi sem eins skammts bóluefni og var því notað þannig.“
Kamilla benti á í svari sýnu að „mjög litlar upplýsingar“ liggi fyrir um virkni Janssen-bóluefnis gegn delta-afbrigði veirunnar sem nú hefur náð yfirhöndinni hér eins og víðar. Hins vegar liggi fyrir upplýsingar „um ágæta virkni bóluefnis Pfizer/BioNTech gegn þessu afbrigði“.
Þegar minnisblaðið var skrifað, þar sem mælt var með örvun Janssen bólusetningar höfðu um 40 prósent bólusettra sem greinst höfðu með veiruna verið bólusettir með Janssen. „Það ber þó að túlka með varúð,“ skrifar Kamilla. „Aldurshópur sá sem nú er mest áberandi hvað smit varðar, 18-49 ára, var að miklu leyti bólusettur með Janssen, um 36%, en 21% af öllum bólusettum fengu Janssen.“