Á vef yfirvalda um kórónuveirufaraldurinn, covid.is, má nú sjá nýja framsetningu á tölfræði um landamærasmit, þar sem greind smit í þeim litla farþegahópi sem til landsins kemur er settur í samhengi við fjölda farþega sem koma, en ekki fjölda íbúa á Íslandi.
Eins og Kjarninn fjallaði um nýlega hafði fyrir allnokkru verið bent á að það gæfi skakka mynd af stöðu mála að birta einungis tölur yfir 14 daga nýgengi smita á landamærum í samhengi við hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi.
Að birta tölurnar með þeim hætti var jafnvel sagt stuðla að ruglingi í umræðunni, þar sem 14 daga nýgengi landamærasmita á hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi var iðulega lægra en 14 daga nýgengi innanlandssmita, eins og tölurnar voru framsettar af hálfu yfirvalda.
Hlutfallslega hafa þó verið miklu fleiri smit í hópi farþega sem hingað koma en innanlands almennt. Fjórtán daga nýgengi smita á landamærunum fór yfir 3.000 smit á hverja 100 þúsund farþega sem til landsins koma þegar það var hæst síðasta haust.
Það er meira en tífalt hærra en 14 daga nýgengi smita innanlands hefur nokkru sinni orðið innanlands, þegar svokallaðar fyrstu og þriðju bylgjur faraldursins stóðu sem hæst.
„Fólk hefur almennt ekkert rosalega djúpan skilning á því hvernig þetta er reiknað út. Það er alveg eðlilegt að venjulegt fólk ruglist bara á þessu, því þetta er pínu ruglandi,“ sagði Már Örlygsson forritari í samtali við Kjarnann fyrr í mánuðinum, en hann hefur undanfarna mánuði tekið tölfræði um landamærasmitin saman með þessum hætti og birt opinberlega.
14 daga nýgengi á landamærum yfir 400 á hverja 100 þúsund farþega
Nú hafa embætti landlæknis og almannavarnir uppfært tölfræðivef sinn og byrjað að birta upplýsingarnar með sambærilegum hætti, en það hafði verið til skoðunar hjá sérfræðingum sóttvarnalæknis um nokkurt skeið.
Í dag er staðan þannig að 14 daga nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi var 25,6 en 14 daga nýgengi landamærasmita á hverja 100 þúsund farþega er 455 - og þá á eftir að koma í ljós hvort einhverjir greinist smitaðir í seinni landamæraskimun.