Stjórn S4S leggur til að allt að 230 milljónir króna verði greiddar í arð til hluthafa á árinu 2021 fyrir rekstrarárið 2020 en félagið hagnaðist um rúmlega 250 milljónir króna á því ári. Þar að auki lækkaði félagið hlutafé sitt um 110 milljónir króna á árinu 2020.
S4S rekur fjölda skóbúða, til að mynda Kaupfélagið, verslanir með Ecco og Skechers skó, Steinar Waage, AIR og Skór.is, auk þess sem félagið á og rekur Ellingsen sem sérhæfir sig í útivistarfatnaði og -búnaði.
Félagið þurfti að loka sumum verslunum sínum tímabundið í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins og var starfshlutfall hluta starfsfólks því lækkað. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í maí í fyrra nýtti S4S hlutastarfaleiðina fyrir 52 starfsmenn í mars og apríl. Ekki fást upplýsingar um það hversu há fjárhæð fór í hlutabætur starfsmanna félagsins.
Pétur Þór Halldórsson er forstjóri S4S. Pétur Þór er einnig stjórnarformaður félagsins og annar stærstu eigenda þess en hann heldur á 40 prósenta hlut í félaginu. Félagið Sjávarsýn ehf., sem er í eigu Bjarna Ármannssonar, á 40 prósenta hlut í S4S og þeir Hermann Helgason og Georg Kristjánsson eiga tíu prósent hvor.
Faraldurinn hafði „verulega jákvæð áhrif á sölu félagsins“
Kjarninn sendi fyrirspurn til S4S og spurði hversu háa fjárhæð félagið hefði þegið í formi hlutabóta. Þar var einnig spurt hvort það hefði komið til tals að endurgreiða hlutabæturnar líkt og önnur stöndug fyrirtæki gerðu á síðasta ári.
Í skriflegu svari Péturs Þórs sagði hann að S4S hefði ekki þegið neinar greiðslur heldur starfsfólkið sem vann í minnkuðu starfshlutfalli. Pétur minntist ekki á endurgreiðslur í svari sínu en svar Péturs fylgir hér í heild sinni:
„Stjórnvöld settu fram hlutabótaleiðina til þess að starfsmönnum yrði ekki sagt upp í stórum stíl vegna Covid 19. Fyrirtæki voru hvött til þess að nýta sér þetta úrræði og gera tímabundið samkomulag við sína starfsmenn um minnkað starfshlutfall. Þeir starfsmenn S4S sem nýttu sér þessa leið fóru því í hlutastarf og fengu greidd laun frá S4S í samræmi við sitt vinnuframlag. S4S fékk engar greiðslur til sín. Fyrirtækið stóð frammi fyrir gríðarlegri óvissu í upphafi faraldursins og var sumum verslunum S4S lokað tímabundið. Um leið og búið var að ná nokkurri stjórn á afleiðingum faraldursins fóru allir starfsmenn aftur í 100% starfshlutfall og voru fleiri til ráðnir til vinnu. Þess má geta að nú vinna yfir 180 starfsmenn hjá fyrirtækinu.“
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi S4S er sérstaklega fjallað um áhrif COVID-19 á rekstur félagsins. Þar er faraldurinn sagður hafa haft mikil jákvæð áhrif á rekstur félagsins. „Aðgerðir stjórnenda voru að tryggja öryggi starfsmanna og viðskiptavina ásamt því að halda uppi framleiðni. Félagið leitaði allra leiða til að þjóna viðskiptavinum sínum sem best miðað við aðstæður á árinu og hafði heimsfaraldurinn verulega jákvæði áhrif á sölu félagsins. Sala jókst umtalsvert á árinu og þá sérstaklega netverslunin og var lagt mikið upp úr því að nýta tæknina sem best.“
Ráðherra útiloki ekki að farið verði fram á endurgreiðslu
Lög um hlutabætur voru fyrst samþykkt á Alþingi í mars á síðasta ári þegar bráðabirgðaákvæði við lög um atvinnuleysistryggingar voru samþykkt. Þá voru skilyrði til atvinnuveitanda takmörkuð. Það var ekki fyrr en úrræðið var framlengt í maí að girt var fyrir arðgreiðslur fyrirtækja sem nýta sér hlutabótaleið. Þá var atvinnuveitendum sem nýta sér hlutabótaleiðina meinað að lækka hlutafé sitt. Þessi skilyrði voru sett fyrir greiðslum sem greiddar voru frá og með 1. júní 2020.
Síðasta sumar var tekin ákvörðun innan ýmissa stöndugra fyrirtækja um að ýmist hætta að nýta hlutastarfaleiðina eða endurgreiða hlutabætur starfsfólks síns. Að þessu er meðal annars vikið í skýrslu Ríkisendurskoðunar: „Í hópi þeirra aðila sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag en ekki verður séð af lögunum og lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlunin Nokkur fyrirtæki hafa tilkynnt um að horfið verði frá nýtingu hlutastarfaleiðar og önnur boðað endurgreiðslu á framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs.“
Í sérstakri tímalínu um hlutastarfaleiðina í skýrslunni er sagt frá því að fjármála- og efnhagsráðherra útiloki ekki að farið verði fram á endurgreiðslu frá stöndugum fyrirtækjum. Bjarni Benediktsson sagði í viðtali við Vísi í maí í fyrra það vera eðlilegt að þegar betur áraði myndu fyrirtæki greiða til baka þann stuðning sem ríkið hefði veitt þeim. Þá sagði hann fyrirtæki sem ekki þyrftu á slíkum stuðningi að halda en nýttu hann samt „reka rýting í samstöðuna“ sem stjórnvöld hefðu kallað eftir.