Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld hafi ranglega kennt Suleiman Al Masri, palestínskum hælisleitanda, um tafir í máli sínu og var því óheimilt að synja honum um endurupptöku máls.
Suleiman Al Masri er í hópi þeirra Palestínumanna sem ekki fengu efnislega málsmeðferð þrátt fyrir að hafa dvalið hér í heilt ár. Hann telur sig og nokkra aðra sem sviptir voru ólöglega þjónustu Útlendingastofnunar í fyrravor og enduðu á götunni hafi fengið aðra og verri meðferð en aðrir. Þeir hafi verið teknir út fyrir sviga þrátt fyrir að mál þeirra séu sambærileg málum annarra sem fengu jákvæða niðurstöðu hjá kærunefndinni.
Magnús Davíð Norðdahl lögmaður segir um stórtíðindi að ræða og að dómurinn sé fordæmisgefandi fyrir fjölmennan hóp hælisleitenda sem strandaði hér á landi á tímabili kórónuveirunnar og ekki tókst að flytja úr landi. „Í dómnum er staðfest með afgerandi hætti að stjórnvöld hafi ranglega kennt viðkomandi um tafir í máli sínu og því hafi verið óréttmætt með öllu að synja viðkomandi um endurupptöku máls,“ segir Magnús í samtali við Kjarnann. Magnús hefur sinnt málum fjölda hælisleitenda sem tilheyra þessum hópi ásamt meðeigendum sínum á lögmannsstofunni Norðdahl, Narfi & Silva. Helgi Þorsteinsson Silva er lögmaður Suleiman.
Í vor var greint frá því að flóðbylgja brottvísana væri fram undan. Í fyrstu var greint frá því að um 300 manns væri að ræða, meðal annars börn, og að stærstur hluti þeirra ætti að fara til Grikklands. Síðar greindi Útlendingastfnun frá því að um 197 manns væru á lista stoðdeildar ríkislögreglustjóra sem vísa ætti úr landi á næstunni
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði að samstaða ríkti innan ríkisstjórnarinnar um að framkvæma brottvísun fólksins, reglur væru skýrar og engar breytingar væru fyrirsjáanlegar á þeirri ákvörðun. Guðmundur ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, var á öðru máli og sagði það rangt að samstaða væri um máli. Hann sagðist hafa gert „alvarlegar athugasemdir“ við þá vegferð sem Jón væri og að hann væri ekki ánægður með það hvernig ráðherra hafi haldið á málinu.
Frumvarp sem komst aldrei á dagskrá
Þingflokkar Samfylkingar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar lögðu fram sameiginlegt frumvarp til að bregðast við fyrirhuguðum fjöldabrottvísunum. Í frumvarpinu er að finna nýtt bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að dráttur á málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem varð vegna heimsfaraldurs COVID-19, verði ekki talinn á ábyrgð umsækjendanna sjálfra og því skuli taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hafi þeir verið hér í 12 mánuði eða lengur. Frumvarpið komst hins vegar aldrei á dagskrá.
Suleiman tilheyrir hópi umsækjenda sem hafa náð tímamörkum en verið synjað um endurupptöku og efnismeðferð vegna ásakana stoðdeildar ríkislögreglustjóra um tafir.
„Mörgum einstaklingum í hópnum hafði á sínum tíma verið synjað um endurupptöku og efnismeðferð í málum sínum vegna hæpinna ásakana stjórnvalda um að viðkomandi einstaklingar hefðu sjálfir tafið mál sín,“ segir Magnús.
Stjórnvöld verði að koma í veg fyrir mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar
Í niðurstöðu dómsins segir að ekki hafi „verið réttmætt að leggja til grundvallar að stefnandi bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki varð af flutningi hans innan 12 mánaða frestsins. Var úrskurður kærunefndar útlendingamála að þessu leyti byggður á efnisannmarka sem telst verulegur.“ Dómurinn ógilti því úrskurð kærunefndar útlendingamála þar sem kröfu Suleiman um endurupptöku á máli sínu var synjað.
Magnús segir dóminn fordæmisgefandi fyrir þann fjölmenna hóp hælisleitenda sem ílengdist hér á landi vegna faraldurs kórónuveiru þar sem aðstæður eru sambærilegar frá máli til máls og verklag stjórnvalda í grunninn það sama.
„Að fengnum dómnum er ljóst að stjórnvöldum er ekki stætt á öðru en að bregðast við og koma í veg fyrir mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar,“ segir Magnús.