Íslenskir ríkisborgarar sem ferðast til landsins án vottorðs um neikvætt COVID-19 próf geta átt yfir höfði sér háa fjársekt samkvæmt upplýsingum frá Icelandair og embætti landlæknis en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er það viðkomandi flugfélag sem getur átt yfir höfði sér sekt fyrir að flytja farþega án þess að afla viðeigandi gagna. Ekki er hægt að meina Íslendingum sem ekki geta framvísað slíku vottorði að koma til landsins en Kjarninn hefur leitast við að komast að því hvaða viðurlögum er beitt, ferðist einstaklingur án vottorðs. Ólíkur skilningur er lagður í reglurnar sem nú gilda á landamærunum.
Á miðnætti tók gildi breyting á reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Breytingin kveður á um að bólusett ferðafólk þurfi að verða sér úti um vottorð um neikvætt COVID-19 próf áður en haldið er til Íslands.
„Hafi ferðamaður við komuna til landsins undir höndum viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð vegna COVID-19 eða vottorð sem sýnir fram á að COVID-19 sýking sé afstaðin er honum ekki skylt að fara í sóttkví eða gangast undir sýnatöku við landamæri, en hins vegar ber honum skylda við byrðingu erlendis að framvísa vottorði sem sýnir fram á neikvætt COVID-próf, annaðhvort PCR eða antigen (hraðpróf), sem er ekki eldra en 72 klst. gamalt,“ segir í nýju viðbótinni við reglugerðina.
Ekki hægt að neita íslenskum ríkisborgurum um flug
Hjá Icelandair fengust þær upplýsingar að farþegar á leið til landsins þurfa að framvísa vottorði um neikvætt próf við innritun áður en farið er um borð í flug til Íslands, það gildir um Íslendinga jafnt sem aðra farþega. „Flugfélög geta þó ekki neitað Íslendingum sem vilja koma heim um að fljúga til Íslands en farþegar sem ferðast án neikvæðs prófs geta átt von á sekt frá lögreglu við komu til landsins,“ segir í svari frá flugfélaginu.
Þetta þýðir þó ekki að flogið sé með einstaklinga sem greinst hafa með COVID-19 en tekið er fram í svarinu að ef fólk greinist jákvætt erlendis þá fer það í einangrun í því landi sem það er.
100 þúsund króna sekt fyrir vottorðalausa
Þetta er í samræmi við svar frá embætti landlæknis við fyrirspurn Kjarnans um málið. „Allir fullbólusettir einstaklingar og einstaklingar með mótefni vegna fyrri sýkingar, verða að framvísa neikvæðu PCR prófi/antigen prófi við byrðingu erlendis og við lendingu í KEF,“ segir meðal annars í svari frá embættinu.
Þar kemur fram að réttur íslenskra ríkisborgara sé sterkur í þessum aðstæðum, flugfélög geti ekki neitað að hleypa íslenskum ríkisborgurum um borð á grundvelli þess að þeir séu ekki með neikvætt próf. Heldur sé ekki hægt að neita íslenskum ríkisborgurum um inngöngu í landið. Hægt sé að beita þá sekt á landamærunum hafi þeir ekki vottorð en útlendingum sem ekki búa á Íslandi sé hægt að bjóða sýnatöku, ellegar sé þeim vísað frá landi.
Varðandi sektina sem Íslendingar geta átt yfir höfði sér er vísað á upplýsingar um sekt fyrir brot á reglum um framvísun vottorðs um neikvætt PCR próf sem finna má á island.is. Þar kemur fram að einstaklingur getur átt yfir höfði sér 100 þúsund króna sekt fyrir það að framvísa ekki vottorði.
Lögreglan vill heldur sekta flugfélög
Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjón lögreglunnar á Suðurnesjum á Keflavíkurflugvelli, telur það ólíklegt að íslenskir ferðamenn án vottorða um neikvætt COVID-19 próf verði beittir sektum á flugvellinum. Hann segir að gerð sé krafa á flugfélög um að sinna því að afla réttra gagna frá farþegum sem koma til landsins. Sektarákvæði sé til staðar og þá er það Samgöngustofu að beita viðkomandi flugfélag stjórnvaldssektum ef það sinnir ekki skyldu sinni og aflar viðeigandi gagna.
Að sögn Arngríms hefur nýja fyrirkomulagið ekki verið til vandræða og allir farþegar skilað viðeigandi gögnum. „Þetta byrjaði á miðnætti og þetta hefur bara gengið mjög vel. Það hafa ekki verið neinar uppákomur og það hafa allir verið með það sem til þurfti,“ segir Arngrímur í samtali við Kjarnann.
Skylt að meina erlendum ferðamönnum um flutning
Þessari lagatúlkun er lögfræðingur Icelandair ósammála samkvæmt svörum frá flugfélaginu. Sá vill meina að sektin lendi á farþeganum, sé hann íslenskur ríkisborgari, og vísar flugfélagið meðal annars í breytingar sem gerðar voru í maí á lögum um loftferðir. Þar kemur fram að Samgöngustofa geti vissulega lagt stjórnvaldssektir á flugrekenda ef hann sinnir ekki skyldu sinni um að kanna hvort farþegi hafi vottorð eða þá að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað slíku vottorði. Í lögunum er skýrt tekið fram að skylda flugrekenda til að synja farþega um flutning nái ekki til íslenskra ríkisborgara.
Skylda flugrekandans til að meina fólki um flutning vegna skorts á vottorði nær því einungis til erlendra ferðamanna samkvæmt lögunum.