Gríðarlegar hækkanir á orkuverði í Danmörku verða mörgum heimilum mjög þung byrði í vetur að mati hóps hagfræðinga sem dagblaðið Politiken fékk til að rýna í ástandið. Þeir draga upp dökka mynd og segja að mögulega ráði ekki allir Danir við hækkanirnar. „Þetta getur sett fjármál margra Dana í uppnám,“ segir Palle Sørensen, hagfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu Nykredit. „Jafnvel þótt fólk lækki í ofnunum hjá sér og spari þannig rafmagn þá eru takmörk fyrir því hversu mikið Danir geti dregið úr orkunotkuninni. Því miður gæti niðurstaðan orðið sú að einhverjir þurfi að yfirgefa heimili sín.“
Danska ríkissjónvarpið, DR, fjallar einnig um orkumálin og fengu hagfræðing hjá Danske Bank til að reikna út hversu mikilli verðhækkun dönsk heimili gætu átt von á í vetur. Samkvæmt þeim útreikningum gæti gasreikningurinn orðið fjórum sinnum hærri fyrir meðalfjölskylduna í vetur en hann var í fyrravetur. Þetta gæti þýtt að margir þyrftu að ganga á sparnað sinn til að greiða hitareikninginn, sagði hagfræðingurinn Louise Aggerstrøm um útreikninga sína. Meðalfjölskyldan gæti þurft að greiða um hálfri milljón íslenskra króna meira í kyndingu en í fyrra, miðað við að notkunin sé sú sama og fyrir tveimur árum.
En það er ekki aðeins gasreikningurinn sem mun hækka verulega. Sömu sögu er að segja um rafmagnið. Nykredit spáir því að rafmagn verði tvisvar sinnum dýrara fyrir Dani á næsta ári en það var í fyrra.
Fyrirtækið hefur reiknað út að fjögurra manna fjölskylda noti um 4.000 kWst af rafmagni á ári. Í fyrra kostaði sú notkun 10 þúsund danskar krónur, um 190 þúsund íslenskar. Á næsta ári mun reikningurinn, samkvæmt spánni, verða um 420 þúsund íslenskar krónur.
Danir eru líkt og flestar Evrópuþjóðir í miklum vanda vegna hækkandi orkuverðs sem rekja má fyrst og fremst til innrásar Rússa í Úkraínu. Vesturveldin hafa sett margvíslegar viðskiptaþvinganir á ríkisstjórn Pútíns sem aftur hafa nýtt sér það hversu háð Evrópuríki eru gasi frá þeim. Um 40 prósent af öllu gasi sem notað er í Evrópu kemur frá Rússlandi. Og þess vegna er gasið beitt vopn, verðið á því er hækkað og framboð þess skert, sem aftur bitnar á hag almennra borgara allrar álfunnar.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill bregðast við verðhækkununum, líkt og leiðtogar margra ríkja innan sambandsins hafa krafist.
Á morgun, föstudag, munu orkumálaráðherrar aðildarríkjanna eiga fund í Brussel um til hvaða ráða sé hægt að grípa.