Ísraelar eru nú í auga ómíkron-stormsins og líkt og Íslendingar eru þeir að reyna að spá fyrir um álagið sem það mun hafa á heilbrigðiskerfið. Tilfellum fjölgar gríðarlega hratt, sjúkrahúsinnlögnum fjölgar sömuleiðis töluvert en það sem læknar vara nú við er að samtímis greinast sífellt fleiri með inflúensu. Flensuárið í fyrra reis ekki hátt enda sóttvarnaráðstafanir miklar. Þennan veturinn er staðan breytt, færri hafa þegið inflúensubólusetningu en venjan er og að auki virðast bóluefnin, sem þróuð eru á hverju ári, ekki gagnast sem skyldi gegn því afbrigði inflúensuveirunnar sem nú geisar.
Ofan á allt saman er delta-afbrigði kórónuveirunnar enn nokkuð útbreitt í Ísrael – afbrigði sem er ekki nándar nærri eins smitandi og ómíkron en getur valdið alvarlegri veikindum.
„Okkar helsta áhyggjuefni er að álagið á heilbrigðiskerfið gæti orðið óbærilegt og gæti kostað mannslíf,“ hefur Times of Israel eftir Ran Nir-Paz, sérfræðingi í smitsjúkdómum á Hadassah-sjúkrahúsinu í Jerúsalem. Hann segir þetta ekki svartsýna spá heldur raunsæja. Heilbrigðisstarfsfólk sé nú þegar undir miklu álagi að sinna COVID-sjúklingum og ef flensutilfellum haldi áfram að fjölga og innlögnum af þeim sökum einnig gæti það haft skelfilegar afleiðingar.
Álag á sjúkrahús í landinu hefur verið mikið vegna COVID-19 þrátt fyrir að Ísraelar séu ein bólusettasta þjóð heims og að rúmlega 250 þúsund manns hafi ekki fengið aðeins einn örvunarskammt heldur tvo. Þannig hafa þessir einstaklingar fengið fjóra skammta af bóluefni Pfizer sem er nær það eina sem notað er í landinu í kjölfar samnings við lyfjarisann sem tryggði meira en nóg af bóluefni fyrir alla þjóðina.
Læknirinn Ronni Gamzu, sem fór fyrir viðbrögðum yfirvalda vegna faraldursins í upphafi og er nú forstjóri Ichilov -sjúkrahússins í Tel Aviv, er mun bjartsýnni en kollegi hans. Hann telur samlegðaráhrif þessara tveggja faraldra ekki mikið áhyggjuefni. Enn séu sóttvarnaráðstafanir vegna COVID að draga úr útbreiðslu inflúensu. Flensutillfellum sé vissulega að fjölga en að „stórir toppar“ eins og venjulega sjáist á veturna vegna inflúensunar hafi enn ekki orðið. „Þess vegna er ég ekki sannfærður um að erfitt ástand sé framundan.“
Hann segir ennfremur að sjúkrahús í Ísrael séu vel undirbúin, hafi nóg af tólum og tækjum hvers konar til að takast á við áskoranirnar framundan.
Læknirinn Nir-Paz er alls ekki sammála og segir að þegar tveir smitsjúkdómar geisi á sama tíma sé hættan á of miklu álagi á sjúkrahúsin alltaf fyrir hendi. „Ómíkron er flóðbylgja, inflúensa er fárviðri og ófyrirsjáanlegt er hvaða áhrif þetta samanlagt mun hafa.“
Segir vísbendingar um góða virkni fjórða skammtsins
Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, fagnaði því í í gær að um 250 þúsund landar hans hefðu þegið fjórða skammt bóluefnisins gegn kórónuveirunni. Allir sem eru sextíu ára eða eldri eiga nú rétt á slíkum skammti sem og heilbrigðisstarfsmenn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Bennett segir fjórða skammtinn“ lykilinn“ að stefnu landsins í baráttunni gegn ómíkron-bylgjunni. Enn er skortur á gögnum um gagnsemi af annars örvunarskammts. Bennett vísaði um helgina til þess að honum hefðu verið kynntar frumniðurstöður lítillar rannsóknar um að fjórði skammturinn framkallaði næstum því fimm sinnum meira af mótefni í blóðinu. Enn á eftir að koma í ljós hvort það eitt og sér gagnist gegn smiti og veikindum af ómíkron-afbrigðinu. Þá er heldur ekki vitað hversu lengi hið aukna mótefnamagn varir.
Samkvæmt spálíkani stjórnvalda mega um 40 prósent Ísraela gera ráð fyrir því að smitast af COVID-19 í ómíkron-bylgjunni, þeirri fimmtu af faraldrinum sem gengur yfir þjóðina.
Mikil uppsveifla
Greindum smitum hefur fjölgað gríðarlega í Ísrael á síðustu dögum. Á föstudag voru þau yfir 18 þúsund og hafa aldrei verið fleiri. Hlutfall jákvæðra sýna þann dag var nærri 12 prósent og R-talan, sem segir til um hversu marga hver og einn smitaður smitar er að nálgast 2.
Sjúkrahúsinnlögnum fólks með COVID-19 hefur einnig fjölgað umtalsvert. 338 lágu inni fyrir viku en í gær var fjöldinn kominn upp í 524. 206 þessara sjúklinga voru alvarlega veikir, að sögn heilbrigðisráðuneytisins.
8.259 hafa látist vegna COVID-19 í Ísrael. Tíu létust í gær. Dánartíðnin er þó langa vegu frá því sem hún hefur verið í fyrri bylgjum. Það ber þó að hafa í huga að ómíkron-bylgjan í landinu er nokkuð seinna á ferðinni en í mörgum Evrópuríkjum.
Ísraelar eru 9,5 milljónir. 6,6 milljónir hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, tæpar 6 milljónir tvo skammta og 4,3 milljónir þrjá eða fjóra. Óbólusettir eru því enn margir þrátt fyrir góðan aðgang að bóluefni.