Mohammad Jafar Montazeri, dómsmálaráðherra Írans greindi frá því á laugardag að siðgæðislögreglan í landinu yrði lögð niður. Ráðherrann tilkynnti einnig að til stæði að meta hvort tilefni sé til að breyta ströngum lögum um klæðaburð kvenna og notkun höfuðslæðu (hijab).
Raddir þess efnis hvort stjórnvöldum sé raun og veru alvara með þessum aðgerðum fóru fljótt að heyrast, fyrst frá Írönum sem búsettir eru í kúrdistahéröðum nágrannaríkisins Íraks.
Montazeri segist aðspurður að siðgæðislögreglan „hafi verið lögð niður í þeirri mynd sem hún var stofnuð“. Írönsk stjórnvöld hafa samt sem áður ekki staðfest að siðgæðislögreglan hafi verið eða verði lögð niður og íranskir ríkisfjölmiðlar segja að orð dómsmálaráðherra hafi verið mistúlkuð.
Kveikjan að umfangsmestu mótmælum í áraraðir
Siðgæðislögreglan spilar stórt hlutverk í mótmælunum sem staðið hafa yfir í Íran í að verða þrjá mánuði. Upphaf mótmælanna má rekja til dauða Mahsa Amini, 22 ára konu frá Kúrdistan, sem lést í haldi siðgæðislögreglunnar í Íran.
Mahsa Amini, sem heitir réttu nafni Jina en nafnið Masha er í vegabréfi hennar þar sem hennar rétta nafn gefur til kynna kúrdískan uppruna hennar sem brýtur gegn írönskum lögum, var á ferðalagi í Teheran um miðjan september þegar íranska siðgæðislögreglan handtók hana fyrir meint brot á reglum um að bera slæðu.
Mat siðgæðislögreglan það svo að slæðan huldi ekki nægilega mikið af höfði hennar þar sem hár hennar var sýnilegt. Þá hafi klæðnaður hennar einnig verið „óviðeigandi“. Skikka átti Amini á námskeið um klæðaburð en skömmu eftir handtöku hennar féll hún í dá. Hún lést á sjúkrahúsi þremur dögum síðar. Fjölskylda hennar og vitni segja að hún hafi verið barin til dauða. Yfirvöld fullyrða hins vegar að hún hafi fengið hjartaáfall.
Snýst um meira en að bera slæðu
Siðgæðislögreglan hefur það hlutverk að tryggja að íslömsk gildi séu í hávegum höfð og sjá um að refsa þeim sem virða það ekki, til að mynda þeim klæðast óviðeigandi. Meðal ákvæða sem finna má í írönskum lögum, sem byggja á túlkun stjórnvalda á sjaría, lagakerfi íslam, eru að konum ber að bera slæðu og klæðast skósíðum, víðum fötum til að fela líkamsvöxt sinn.
Mótmælin hófust í Kúrdistan, heimahéraði Amini, þar sem konur tóku sig saman og brenndu slæður sínar. Mótmælin breiddust fljótt út um allt land auk samstöðumótmæla í mörgum öðrum ríkjum. Mótmælendur eru á öllum aldri, konur jafnt sem karlar, en það sem er ef til vill nýtt við mótmælin nú er að þau eru leidd af konum af öllum kynslóðum og hafa stjórnmálaskýrendur fullyrt að um feminíska byltingu sé að ræða, byltingu þar sem krafan snýst um frelsi til að velja.
Ströng lög um klæðnað hafa verið í gildi frá byltingunni árið 1979 en áherslurnar hafa verið mismunandi eftir hvaða forseti er við völd hverju sinni. Sitjandi forseti, Ebrahim Raisi, er mjög íhaldssamur.
Kjarninn ræddi við íranskan flóttamann sem búsettur er hér á landi um mótmælin í lok september. Hann segir mótmælin snúast um meira en að bera slæðu. „Þetta eru ekki fyrstu mótmælin en með hverjum mótmælunum eykst stuðningurinn við þau. En fólk verður ekki sátt fyrr en breytingum verður náð. Fólk þráir frelsi til að velja,“
Segja orð dómsmálaráðherra mistúlkuð
Siðgæðislögreglan er hluti af ríkislögreglunni í Íran og heyrir undir innanríkisráðuneytið. Siðgæðislögreglan hefur verið til í ýmsum myndum eftir klerkabyltinguna 1979. Sú sem er nú að störfum nefnist Gasht-e Ershad og hefur frá 2006 fyrst og fremst sinnt eftirliti sem snýr að því að tryggja að konur klæðist skósíðum klæðnaði og beri slæður.
„Siðgæðislögreglan hefur ekkert með dómsvaldið að gera og hefur verið lögð niður í þeirri mynd sem hún var sett á laggirnar,“ sagði Montazer í samtali við fjölmiðla á trúarráðstefnu sem hann sótti um helgina.
Eftir að breska ríkisútvarpið og aðrir erlendir miðlar höfðu eftir dómsmálaráðherranum að búið væri að leggja siðgæðislögregluna niður drógu íranskir ríkismiðlar úr orðum ráðherrans og sögðu orð hans í raun hafa verið mistúlkuð.
Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans, er staddur í Serbíu og var spurður út í ummæli Montazeri. Hann hvorki staðfesti né véfengdi orð dómsmálaráðherra. „Í Íran miðar öllu vel áfram hvað varðar lýðræði og frelsi,“ sagði utanríkisráðherrann.
Mótmælunum hvergi nærri lokið
Ef fullyrðingin reynist rétt og siðgæðislögreglan verður í raun og veru lögð niður er það viðurkenning á ákveðnum kröfum mótmælenda.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir afnám siðgæðislögreglunnar geta verið jákvætt skref. Hann lofsamar „gríðarlegt hugrekki ungs fólks í Íran, sérstaklega kvenna, sem hafa leitt mótmælin“. „Ef stjórnvöld eru að bregðast við af einhverju tagi, þá gæti það verið mjög jákvætt,“ segir Blinken.
En mótmælunum er hvergi nærri lokið.
„Þó svo að stjórnvöld viðurkenni að slæðan er persónulegt val hvers og eins er það ekki nóg. Fólk veit að Íran á enga framtíð með þessa ríkisstjórn. Við munum sjá fleira fólk frá mismunandi hópum íransks samfélags sameinast með konum um að fá réttindi þeirra til baka,“ segir mótmælandi í samtali við BBC.
„Okkur, mótmælendunum, er sama um slæðuna. Við höfum farið út án hennar síðustu 70 daga,“ segir annar mótmælandi. „Bylting er okkar vopn. Slæðan var upphaf hennar og við viljum ekkert nema dauða einræðisherrans og nýja stjórn.“