Breska sjónvarpsstöðin ITV hefur birt fjórar myndir sem sýna Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, með drykk í hönd í samkvæmi í Downingstræti 10. Myndirnar eru teknar í kveðjuhófi í nóvember 2020 fyrir þáverandi upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, Lee Cain. Útgöngubann var þá í gildi, í annað sinn eftir að faraldurinn braust út. Samkomur tveggja eða fleiri innandyra voru þá með öllu bannaðar en undanþágur voru veittar ef um var að ræða „nauðsynlegar vinnutengdar samkomur“.
Kveðjuhófið er eitt af tólf samkvæmum á vegum breskra yfirvalda á tímum strangra sóttvarnareglna sem voru hluti af rannsókn bresku lögreglunnar. Rannsóknin stóð yfir í um fjóra mánuði og lauk fyrr í þessum mánuði. 83 manns voru sektaðir vegna brota á sóttvarnareglum alls gaf lögregla út 126 sektir.
Sektaður fyrir eigin afmælisveislu – ekki kveðjuhófið
Johnson var sektaður fyrir að vera viðstaddur eigin afmælisveislu, 19. júní 2020, sem haldin var í Downingstræti. Veislan var lítil, skipulögð af eiginkonu hans, Carrie Johnson, en var brot á þágildandi sóttvarnareglum að mati lögreglu og því var sekt niðurstaðan. Johnson var hins vegar ekki sektaður vegna kveðjuhófsins í nóvember. Samkvæmt heimildum BBC var gefin út sekt í tengslum við kveðjuhófið en náði hún ekki til forsætisráðherra.
Myndirnar sem nú hafa verið birtar þykja grafa undan ítrekuðum afsökunarbeiðnum forsætisráðherrans, sérstaklega þar sem myndirnar eru teknar í nóvember 2020, um tíu mánuðum eftir að faraldurinn braust fyrst út.
Vínflöskur, vínglös, gin og handspritt
„Boris Johnson sagði ítrekað að hann vissi ekkert um brot á lögum - það er enginn vafi núna, hann laug. Boris Johnson setti reglurnar, og hann braut þær,“ sagði Angela Rayner, varaformaður Verkamannaflokksins, eftir að myndirnar fjórar voru birtar í fjölmiðlum í gær.
Stjórnmálaskýrendur telja að miðað við það sem sést á þeim hafi Johnson auðveldlega átt að gera sér grein fyrir að hann var í samkvæmi. Á myndunum sjást að minnsta kosti átta manns standa þétt saman, áfengi er augljóslega haft um hönd og sjá má vínflöskur, vínglös, ginflösku, að ógleymdu handspritti, á borðinu sem Johnson stendur við. Á nokkrum myndanna lyftir Johnson glasi og virðist vera að skála eða halda ræðu.
Johnson var spurður út í kveðjuhófið í þingsal í byrjun desember. Catherine West, þingmaður Verkamannaflokksins, spurði hvort að samkvæmi hafi átti sér stað í Downingstræti 13. nóvember. „Nei,“ svaraði forsætisráðherra. „En ég er viss um að sama hvað átti sér stað, að farið hafi verið eftir reglum í einu og öllu.“
Sagan endalausa?
Partýstand í Downingstræti hefur fengið viðurnefnið „Partygate“ og virðist ætla að fylgja forsætisráðherra hvert fótmál. Í upphafi árs baðst hann afsökunar á að hafa verið viðstaddur garðveislu í Downingstræti í maí 2020, þegar útgöngubann vegna útbreiðslu COVID-19 var í gildi. Í kjölfarið bárust fregnir af fleiri samkomum á vegum breskra stjórnvalda og var Sue Gray, sérstökum saksóknara, falið að gera rannsókn til að meta eðli og tilgang veisluhaldanna.
Um innri rannsókn er að ræða. Krafist var hlutleysi af hálfu Gray og bar henni að skila niðurstöðum til forsætisráðherra. Þegar breska lögreglan hóf sjálfstæða rannsókn á veisuhöldunum flæktust málin. Gray var gert að bíða með rannsókn sína á meðan lögreglurannsóknin stóð yfir. Hún skilaði þó bráðabirgðaskýrslu 31. janúar þar sem fram kom að veisluhöld í Downingstræti á tímum útgöngubanns eða strangra sóttvarnaregla voru óviðeigandi og að skortur hafi verið á forystuhæfileikum og dómgreind, bæði hjá starfsfólki í Downingstræti sem og á skrifstofu ríkisstjórnarinnar.
Nú þegar lögreglurannsókn er lokið má búast við endanlegri skýrslu Gray, jafnvel á næstu dögum. Þegar hún liggur fyrir mun Johnson ávarpa þingheim enn einu sinni til að ræða „Partygate“ og vonar hann væntanlega að það verði í síðasta skipti. Stjórnarandstaðan og margir stjórnmálaskýrendur eru hins vegar á öðru máli.
En Partygate er hvergi nærri lokið. Rannsóknarnefnd á vegum breska þingsins mun nú rannsaka hvort Johnson hafi vísvitandi afvegaleitt þingmenn í umræðum um samkvæmi sem haflin voru á tímum strangra sóttvarnareglna. Þegar nefndin hefur komist að niðurstöðu mun hún leggja fram tillögur sem þingmenn greiða atkvæði um, sem gætu meðal annars falist í einhvers konar refsiaðgerðum gegn forsætisráðherra.