Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International hafa pólsk yfirvöld gert samfélag hinsegin fólks að skotspóni með orðræðu sinni og gert hvers kyns mótmæli hinsegin fólks og bandamanna þeirra nærri ómöguleg.
Í skýrslunni segir meðal annars að sundurlausar hömlur hafi verið settar á mótmæli hinsegin fólks, sem geri skipulagningu þeirra og leyfisveitingu flókna. Þegar mótmæli eigi sér stað fái mótmælendur úr hópi hinsegin fólks og bandamanna þeirra oftar en ekki litla sem enga vernd frá árásum hómófóbískra andmótmælenda, sem teljast heldur ekki til hatursglæpa samkvæmd pólskum lögum. Í verstu tilfellum séu jafnvel hart tekið á mótmælendum af hálfu lögregluyfirvalda.
Anna Błaszczak-Banasiak, yfirmaður Amnesty í Póllandi, segir pólsk yfirvöld algerlega hafa brugðist hinsegin samfélaginu í landinu. Með því að takmarka rétt þeirra til mannréttinda hafi þau skapað andrúmsloft ótta.
Skýrslan tekur til síðastliðinna fimm ára, en þar er ástandið sagt hafa versnað til muna árið 2019 þegar mikil aukning varð á skaðlegri orðræðu gegn hinsegin fólki, meðal annars frá háttsettum embættismönnum, auk þess sem fjöldi sveitarfélaga yfirlýstu sig svokölluð „hinseginlaus svæði“ (e. LGBTI-free zones).
Fordómar fái að standa óáreittir
Fjöldi fólks sem hefur barist gegn þessari afturför og fyrir auknum réttindum hinsegin fólks hefur svo verið dregið fyrir dóm með tilheyrandi kostnaði og umfangi, sem gerir þeim mun erfiðara með að halda áfram baráttu sinni. Á meðan fær fólk að flagga hatursfullum skilaboðum gegn hinsegin samfélaginu óáreitt.
„Pólska ríkisstjórnin verður að snúa þessu ömurlega ástandi við,“ segir Anna Błaszczak-Banasiak. „Í stað þess að ráðast gegn hinsegin fólki og þeim sem vilja vernda réttindi þess ættu yfirvöld að virða, vernda og efla réttindi þeirra og bregðast skjótt við til þess að tryggja endalok hvers kyns mismununar vegna kynhneigðar eða kynvitundar fólks.“