Umsókn um framlengingu á rannsóknarleyfi vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í Árneshreppi barst ekki Orkustofnun fyrr en 20. apríl og þar með eftir að leyfið rann út þann 31. mars síðastliðinn. Orkustofnun lítur svo á að ef umsókn um framlengingu leyfis berst stofnuninni eftir að gildistími þess rennur út geti stofnunin ekki samþykkt beiðnina, „enda séu þá réttindi viðkomandi niður fallin og verði ekki endurvakin með framlengingu,“ segir Kristján Geirsson, verkefnastjóri hjá Orkustofnun, í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans. Í slíkum tilvikum þurfi fyrrum leyfishafi að sækja um nýtt leyfi og senda svo uppfærð gögn og upplýsingar sem stofnunin þarf til afgreiðslu málsins samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Kristján bendir á að málsmeðferð sé því eins og um nýja umsókn sé að ræða og því þarf að leita umsagna eins og við á.
Orkustofnun barst umsókn um framlengingu rannsóknarleyfis vegna Hvalárvirkjunar þann 20. apríl 2021, „þ.e. eftir að gildistími leyfisins rann út,“ segir Kristján. Orkustofnun upplýsti fyrri leyfishafa um framangreind viðhorf með tölvupósti nú í september og umsókn Vesturverks um nýtt rannsóknarleyfi barst svo stofnuninni 12. október. Greining þeirrar umsóknar stendur yfir. Í samræmi við ákvæði auðlindalaga ber að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og eftir atvikum Hafrannsóknastofnunar, áður en leyfi er veitt.
Kristján bendir á að rannsóknarleyfi samkvæmt auðlindalögum sé ekki í öllum tilvikum lögbundið. Landeigandi geti sjálfur stundað rannsóknir á sínu landi eða heimilað það öðrum en hefur þó ákveðnar skyldur samt sem áður á grundvelli laganna er varðar rannsóknirnar.
Þrjár ár og fimm stíflur
Virkjunarkosturinn Hvalárvirkjun var sett í orkunýtingarflokk rammaáætlunar árið 2013. Hið ísfirska fyrirtæki Vesturverk stóð að baki virkjunarhugmyndinni en árið 2014 keypti HS orka hins vegar meirihluta í fyrirtækinu.
Áformin ganga út á að reisa virkjun í eyðifirðinum Ófeigsfirði og virkja til þess rennsli þriggja áa með fimm stíflum á Ófeigsfjarðarheiði: Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár. Ráðgert afl virkjunarinnar er 55 MW.
Orkustofnun gaf út rannsóknarleyfi til Vesturverks vegna Hvalárvirkjunar árið 2015 „vegna áætlana um virkjun Hvalár og Rjúkanda í einu þrepi úr Hvalárvatni að sjávarmáli við Ófeigsfjörð í Árneshreppi,“ líkt og það var orðað í leyfinu. Gildistími leyfisins var tvö ár. Leyfið var veitt að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar. Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að fyrirhugað rannsóknarsvæði væri að mestu óraskað og benti á að hálendið sunnan Drangajökuls teldist til víðerna og að stjórnvöld hefðu markað þá stefnu að vernda slík svæði. Náttúrufræðistofnun vísaði í sinni umsögn til þess að virkjunarkosturinn væri í nýtingarflokki rammaáætlunar og gerði ekki athugasemdir við útgáfu rannsóknarleyfis.
Orkustofnun framlengdi rannsóknarleyfið í tvígang; fyrst árið 2017 og svo aftur árið 2019 og þá til tveggja ára eða til 31. mars 2021.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan rannsóknarleyfið var fyrst gefið út. Mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lauk með áliti Skipulagsstofnunar árið 2017 og var niðurstaðan sú að áhrif virkjunarinnar yrðu neikvæð eða verulega neikvæð á flesta þá þætti sem voru til skoðunar.
Þá lagði Náttúrufræðistofnun til árið 2018 að Drangajökulsvíðernin yrðu friðuð en innan þess svæðis eru m.a. fossar í ánum Rjúkandi, Hvalá og Eyvindarfjarðará.
Deilt um landamerki
Einnig standa yfir deilur um landamerki á hinu fyrirhugaða virkjanasvæði. Eigendur um 75 prósent eyðijarðarinnar Drangavíkur hafa höfðað mál á hendur eigendum jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar en þeir sömdu báðir á sínum tíma við Vesturverk um vatnsréttindi vegna virkjunarinnar. Er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki Drangavíkur séu eins og þeim var lýst í þinglýstum landamerkjabréfum frá árinu 1890, líkt og fjallað var ítarlega um í Kjarnanum í fyrra.
Verði krafa landeigendanna staðfest mun það setja áform um Hvalárvirkjun í uppnám. Eyvindarfjarðará og Eyvindarfjarðarvatn, sem framkvæmdaaðilar hyggjast nýta til virkjunarinnar þótt ekki sé um það fjallað í rannsóknarleyfum sem gefin hafa verið út hingað til, yrðu þá inni á landi í eigu fólks sem margt hvert kærir sig ekki um virkjunina.
Skrifstofu Vesturverks á Ísafirði var lokað vorið 2020 og öllum starfsmönnum sagt upp. Til stóð að hefja undirbúningsframkvæmdir á virkjunarsvæðinu á Ófeigsfjarðarheiði í fyrrasumar en af því varð ekki. Stjórnarformaður Vesturverks sagði í samtali við Kjarnann síðasta haust að ákveðið hefði verið að hægja á framgangi verkefnisins vegna óvissu á raforkumarkaði.