„Það má ekki gleyma því að þarna hefur verið varið til mjög miklum fjármunum til að byggja upp rekstur sem þarf jú að vísu nokkra fjárfestingu til að sé hægt að fullklára þessa verksmiðju. En raunverulega það tjón sem þarna yrði á hagsmunum við það að flytja verksmiðjuna í burtu, það er bara svo óskaplegt að það er raunverulega ekki efnahagslega boðlegur kostur.“
Þetta sagði Þórður Ólafur Þórðarson, lögfræðingur Arion banka og stjórnarmaður í Stakksbergi, dótturfélagi bankans sem á kísilverið í Helguvík, sem var gestur á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, óskaði eftir fundinum og var umræðuefnið kísilverið í Helguvík sem hvorki bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ né íbúar vilja að verði endurræst. Arion banki hefur hins vegar önnur áform, umhverfismati er lokið og nýverið að skrifað undir viljayfirlýsingu við rekstraraðila kísilvers PCC á Bakka um möguleg kaup.
Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion banka og stjórnarformaður Stakksberg var einnig gestur fundarins og rifjaði upp að bankinn hefði eignast verksmiðjuna árið 2018 eftir gjaldþrot United Silicon. Reksturinn hafði þá verið stöðvaður af Umhverfisstofnun haustið áður vegna ítrekaðra rekstrarerfiðleika og mengunar sem íbúar kvörtuðu oftsinnis yfir.
Ólafur sagði að um 15-20 milljarða króna fjárfestingu væri að ræða í innviðum til kísilframleiðslu. „Það er ljóst að þrátt fyrir það að búið sé að færa þessar eignir að mestu niður í bókum bankans þá felst ábyrgð í því að halda á þessari 15-20 milljarða fjárfestingu og það er þessi ábyrgð sem hefur verið okkar leiðarljós í verkefninu. Þegar maður talar um þessa ábyrgð þá felst vissulega ábyrgð í því að skoða gangsetningu á verksmiðjunni en það fellst að sama skapi mikil ábyrgð og sóun í því að rífa niður þessa 15-20 milljarða og ekki kanna til hlítar hvort að hægt sé að gangsetja þarna verksmiðju sem hægt er að reka í eins góðri sátt við samfélagið og hægt er og í takti við kröfur eftirlitsaðila.“
Hann segir stjórnendur bankans hafa viljað skoða alla möguleika í stöðunni, líka þann að rífa verksmiðjuna. „Við erum bankamenn, við erum ekki sérfræðingar í silikonframleiðslu eða framkvæmdum á silikonverksmiðju, það er ljóst. Það hefur alltaf legið fyrir frá upphafi í þessu ferli hjá bankanum að það verði ekki farið í þetta nema með aðila sem hefur þekkingu og reynslu viðeigandi á þessu sviði.“ Því væri viljayfirlýsing við PCC „rökrétt staða í þessu ferli“.
Myndu alltaf tapa peningum
Ólafur sagði að rætt hefði verið við tugi fjárfesta undanfarin ár þar sem ýmsum hugmyndum um rekstur í Helguvík hefðu verið ræddar, bæði varðandi flutning verksmiðjunnar, endurræsingu hennar og önnur not fyrir innviðina. „Í fyrsta lagi hafa engin skuldbindandi tilboð komið á borðið frá aðilum sem sjá önnur not fyrir þessa innviði.“
Hann sagði að önnur not á verksmiðjunni en til silikonframleiðslu kæmu „aldrei til með að nýta þessa 15-20 milljarða innviði í einhverjum mæli. Þannig að mestu not af þessum innviðum eru, augljóslega kannski, kísilframleiðsla“.
Engar gulrætur fylgja
Andrés Ingi spurði m.a. hvort að einhverjar ívilnanir frá hinu opinbera fylgdu eigninni ef til sölu hennar kæmi. Þórður sagði að raforkusamningur hefði ekki fylgt en að Stakksberg hefði gert nýjan samning við Landsvirkjun sumarið 2018 sem að efninu til væri ekki ósvipaður þeim samningi og United Silicon hefði haft. United Silicon og ríkisins var svo ívilnunarsamningur, hefðbundinn fjárfestingasamningur, eins og Þórður orðaði það, „en við kusum að yfirfæra ekki þann samning þannig að það fylgja þessu nýja fyrirtæki Stakksbergi engar gulrætur frá ríkinu“.
Ólafur sagði það „vissulega“ möguleika að taka verksmiðjuna niður og flytja hana annað. „En það er kostnaðarsamt“. Hann sagði stjórnendur bankans hafa átt samtöl við rekstraraðila „út um allan heim“ um þennan möguleika. „En niðurstaðan er raunverulega að eina uppleggið var „í raun eigendaskipti á vandamálinu fyrir ekki neitt“.