Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka um tæpan mánuð. Hlaupið er nú á dagskrá þann 18. september, en ekki 21. ágúst eins og stefnt var að.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, sem heldur utan um framkvæmd hlaupsins, í dag.
Þar segir að óvissa um næstu skref sem tekin verða varðandi samkomutakmarkanir geri það að verkum að skipuleggjendur sjái sér ekki fært að halda hlaupið á tilsettum tíma.
Núverandi fjöldatakmarkanir á samkomum, sem þýða að óheimilt er að fleiri en 200 manns komi saman, eru í gildi til 13. ágúst. Óljóst er hvað tekur þá við.
Í tilkynningunni frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur segir að markmið skipuleggjenda sé að gera sem flestum kleift að taka þátt í hlaupinu er það fari fram, en um leið að gæta að öllum sóttvörnum.
Reykjavíkurmaraþonið hefur um árabil markað upphaf Menningarnætur í Reykjavík, en eins og fram hefur komið í dag tók neyðarstjórn borgarinnar ákvörðun í morgun um að öllum viðburðum þeirrar hátíðar yrði aflýst, annað árið í röð.