Sprenging hefur orðið í staðfestum kórónuveirusmitum í Indónesíu og að minnsta kosti sextíu manns létust á einu sjúkrahúsa landsins um helgina vegna skorts á súrefni. Delta-afbrigðið er orðið útbreitt í landinu og er talin helsta skýringin á hinni snörpu bylgju faraldursins nú.
Indónesía er fjórða fjölmennasta ríki heims og þar er faraldur COVID-19 nú skæðastur af öllum löndum Asíu. Síðustu daga hafa milli 25-30 þúsund smit verið greind daglega. Útgöngubann er á eyjunum Jövu og Balí en á þeirri fyrrnefndu er höfuðborg Indónesíu, Jakarta.
Þetta er nokkuð kunnuglegt stef því stærsta bylgja faraldursins varð á Indlandi í vor og var aðdragandi hennar mjög svipaður. Í ofanálag hefur straumur ferðamanna til eyja Indónesíu aukist hratt sem er einnig hluti af skýringu smitfjöldans.
Eitt sjúkrahúsið á Jövu, Sardjito, yfirfylltist um helgina sem varð til þess að súrefnisbirgðir þraut þrátt fyrir að reynt hefði verið að afla alls þess súrefnis sem hægt var dagana á undan. Á sunnudag fengust meiri birgðir en á tveimur sólarhringum þar á undan létust að minnsta kosti 60 vegna súrefnisskortsins og talið er að flestir þeirra hafi verið með COVID-19. Ríkisstjórn Indónesíu hefur fyrirskipað gasframleiðendum að auka við framleiðslu á súrefni til lækninga.
Tíu sinnum fleiri útfarir
Sjúkrahús um alla Jövu eru að glíma við sömu vandamál og gríðarlegt álag. Heilbrigðisstarfsfólk lýsir því í viðtali við BBC að það hafi þurft að vísa sjúklingum frá. Sjúklingar segja ástandið líkjast því sem gerist á stríðstímum. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn segja landið „riða á barmi hamfara“ vegna COVID-19.
Borgaryfirvöld í Jakarta segja að tíu sinnum fleiri útfarir séu í borginni nú en snemma í maí.
Í fréttaskýringu CNN er haft eftir heilbrigðisráðherra Indónesíu að yfirvöld hafi ekki verið viðbúin þeirri sprengingu sem orðið hefur í smitum síðustu daga. Hann kennir Delta-afbrigðinu, sem fyrst uppgötvaðist á Indlandi, um. „Þetta afbrigði leggst á alla, bæði börn og fullorðna.“ Smitum hafi fjölgað hraðar nú en nokkru sinni í faraldrinum.
Fleiri börn hafa verið lögð inn á sjúkrahús nú en í fyrstu bylgjunni en mjög mikill fjöldi barna hefur smitast. Mun færri börn eru þó á sjúkrahúsum samanborið við fullorðna, hefur CNN eftir heilbrigðisráðherranum.
Heilbrigðisstarfsfólk í Indónesíu var bólusett með kínverska bóluefninu Sinovac. Um miðjan júní var birt niðurstaða rannsóknar um að þrátt fyrir bólusetninguna hafi yfir 350 læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn fengið COVID-19.
Bólusetningar í landinu hófust í janúar en þeim hefur miðað hægt. Rétt rúmlega 5 prósent þjóðarinnar eru fullbólusett. Fyrir nokkrum dögum gaf ríkisstjórnin út að börn á aldrinum 12-17 ára gætu einnig fengið bólusetningu með Sinovac.
Á morgun þriðjudag, taka gildi hertar aðgerðir á landamærum Indónesíu. Aðeins bólusettir og þeir sem eru með nýlegt og neikvætt PCR-próf mega koma til landsins. Þeir þurfa engu að síður að dvelja í einangrun í átta daga eftir komuna til landsins.
Indónesar hafa orðið hvað verst úti í faraldrinum af öllum Asíuþjóðum. Þar hafa rúmlega 2,3 milljónir greinst með veiruna og yfir 60 þúsund hafa látist. Talið er að báðar þessar tölur séu þó mun hærri í raun þar sem sýnatökur hafa að mestu verið bundnar við höfuðborgina Jakarta.