Rússar ætla að bæta löndum á lista sinn yfir lönd þaðan sem bannað er að flytja inn matvöru. Þetta tilkynntu þeir í dag. Aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, Arkady Dvorkovítsj, nefndi ekki löndin sem bætt verða á listann en sagði ákvörðun verða tekna í nánustu framtíð.
Interfax-fréttastofan segir sjö lönd bætast á listann sem Rússar gerðu í ágúst í fyrra. Frá þessum löndum er Rússum bannað að flytja inn matvöru, þar með talið fisk og fiskiafurðir.
Sjö lönd hafa ákveðið að standa með Evrópusambandinu í hertum viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi um eitt ár. Auk Íslands eru það Úkraína, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Georgía og Noregur. Af þessum löndum er aðeins Noregur nú þegar á bannlista Rússa.
Miklir hagsmunir í húfi
Um fimm prósent útflutningsverðmæta Íslands á síðasta ári komu til vegna útflutnings til Rússlands. Landið hefur lengi verið eitt af helstu viðskiptalöndum Íslands. Á árinu 2014 voru aðeins fimm lönd sem keyptu meira af útflutningsafurðum Íslands, en alls nam verðmæti útflutnings til Rússlands um 29 milljörðum króna á síðasta ári af samtals um 590 milljarða króna útflutningsverðmætum.
Stjórnvöld í Rússlandi tilkynntu í byrjun síðustu viku að til greina kæmi að víkka innflutningsbann á matvælum gagnvart Evrópusambandslöndum og láta það einnig ná til sjö ríkja utan sambandsins. Löndin sjö stutt viðskiptaþvinganir sambandsins, Bandaríkjanna og Kanada gegn Rússlandi vegna hernaðaraðgerða Rússa í Úkraínu. Líkt og áður sagði er Ísland í hópi ríkjanna ásamt Albaníu, Svartfjallalandi, Noregi, Liechtenstein, Úkraínu og Georgíu.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki en útflutningur til Rússlands er helst á sjávarfangi, einkum frosnum loðnuafurðum, makríl og síld. Grafið hér að neðan sýnir verðmæti útflutnings til Rússlands á árunum 2010 til 2014. Nærri helmingur af makríl var seldur til Rússlands árið 2013.
Hefur staðið tæpt áður
Þetta er ekki í fyrsta sinn á undanförnum mánuðum sem Íslendingar óttast að Rússar loki fyrir innflutning héðan vegna stuðnings Íslands við viðskiptaþvinganir gegn landinu vegna aðgerða þess í Úkraínu. 23. október 2014 greindi Kjarninn frá því að fundað hefði verið með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi í utanríkisráðuneytinu vegna stöðunnar sem komin er upp milli Íslands og Rússlands. Rússar höfðu þá hug á að loka á viðskipti við Ísland, og útvíkka þannig innflutningsbann á matvælum til Rússlands frá Vesturlöndum,.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, en heildarutanríkisviðskipti við Rússland árinu 2013 námu ríflega 20 milljörðum króna. Þar af voru um 18 milljarðar vegna viðskipta með makríl, en um 47 prósent af öllum makríl sem veiddur var við Ísland árið 2013 fór inn á Rússlandsmarkað.
Á þessum tíma höfðu sjávarútvegsfyrirtæki fengið upplýsingar um að lokað yrði á viðskipi við Ísland, ekki síst vegna stuðnings Íslands við hertar pólitískar og efnahagslegar aðgerðir gegn Rússlandi, sem rekja má rekja til pólitískrar spennu og aðgerða Rússa í Úkraínu. Af þessu varð þó ekki.
Ástæðan fyrir þessari stöðu er sú að hinn 15. október 2014 birti Evrópuráðið tilkynningu, um að Ísland, Makedónía, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Noregur, auk Úkraínu og Georgíu, stilltu sér uppmeð Evrópusambandsríkjum, með ákvörðun frá 23. júní, um hertar viðskiptaþvingangir gegn Rússum. Nýverið birti Evrópusambandið síðanfréttatilkynningu um áframhaldandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum vegna aðgerða þeirra í Úkraínu. Ísland styður áfram þær aðgerðir líkt og það hefur gert frá byrjun.