Framkvæmdastjórn SÁÁ fordæmir í yfirlýsingu sem send var í kvöld hegðun Einars Hermannssonar, fyrrum formanns samtakanna. Einar sagði af sér formennsku í gær eftir að Stundin hóf rannsókn á kaupum hans á vændi af konu sem glímdi við fíknivanda og var síðar skjólstæðingur SÁÁ.
Í yfirlýsingunni segir að „traust og trúnaður skjólstæðinga okkar, starfsmanna og landsmanna allra er lykillinn að tilveru SÁÁ. Undir því trausti viljum við rísa. Við munum ráðast í gagngera skoðun og nauðsynlegar umbætur á öllu okkar starfi og kappkosta að tryggja öryggi skjólstæðinga okkar sem margir eru í viðkvæmri stöðu.“
Þar kemur enn fremur fram að framkvæmdastjórn SÁÁ muni boða til fundar í aðalstjórn SÁÁ föstudaginn 28. janúar næstkomandi kl. 17.15 til að kjósa nýjan formann samtakanna. „Umfram allt stöndum við með þolendum.“
Hann sagðist iðrast að hafa farið þessa leið og um leið valdið fjölskyldu sinni sársauka með hegðun sinni. „Bið ég alla þá sem málið varðar afsökunar á framferði mínu.“
Einar sagðist enn fremur ekki ætla að tjá sig frekar um málið.
Skömmu eftir að yfirlýsing Einars var send birti Stundin umfjöllun þar sem greint var frá því að miðillinn hefði unnið að rannsókn á vændiskaupum Einars á árunum 2016-2018. Í umfjölluninni sagði meðal annars: „Stundin hefur rætt við konuna sem nú er á batavegi eftir langvarandi fíkniefnaneyslu. Hún segist hafa leiðst út í vændi til að fjármagna eiturlyfjaneyslu sína. Á því tímabili hafi Einar keypt af henni kynlífsþjónustu. Eftir að hún náði bata ætlaði hún að leita réttar síns og ræddi við sérfræðinga en þegar á hólminn var komið varð hún hrædd og kærði ekki. Nú er málið fyrnt.“
í frekari umfjöllun Stundarinnar um málið, sem birtist í morgun, voru birt skjáskot af samskiptum þeirra í Messenger-forritinu, en Einar á að hafa keypt vændi af konunni á árunum 2016 til 2018.
Á þeim tíma sat hann í stjórn SÁÁ, en hún er sjálf á meðal skjólstæðinga samtakanna sem hafa hjálpað henni að ná bata við fíkn sinni. Einar var formaður SÁÁ frá miðju ári 2020 og þangað til að hann sagði af sér í gær.
Í samskiptunum sem Stundin birtir kemur skýrt fram að Einar falast eftir því að hitta konuna, þar er tilgreint að það muni kosta 30 þúsund krónur og tilgreint klukkan hvað þau ætli að hittast. Eftir að um semst sendi Einar konunni skilaboð og sagðist „hlakka til“. Í öðrum skilaboðum segist Einar vera á leiðinni til konunnar, að það séu tíu mínútur í sig. Einum og hálfum tíma síðar sendir hann önnur skilaboð og segir: „Takk fyrir mig. Gaman að kynnast þér. Er að fíla þig mjög vel.“
Kaup á vændi eru ólögleg á Íslandi en sök fyrnist á tveimur árum.