Sala Bankasýslu ríkisins á hlut í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn hefur verið harðlega gagngrýnd síðan kaupendalisti var gerður opinber. Flestir virðast vera sammála um að eitthvað hafi farið úrskeiðis við söluna, en stjórn og stjórnarandstaða á Alþingi er hins vegar ósammála um hvar ábyrgðin liggur. Salan fór fram í gegnum lokað útboð og alls 209 aðilar fengu að kaupa hlutinn með samtals 2,25 milljarða króna afslætti. Listi yfir kaupendur var birtur fyrr í vikunni og kom þá meðal annars í ljós að starfsmenn söluráðgjafa, aðilar sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og faðir fjármála- og efnahagsráðherra voru á meðal kaupenda.
Sala Íslandsbanka var viðfangsefni Sprengisands á Bylgjunni í morgun, þangað sem mætt voru Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, Helga Vala Helgadóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata, og Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra.
Umræðan í þættinum var lífleg, en helst greinir stjórnar- og stjórnarandstöðuliða á um ábyrgð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem og hvort skipa eigi rannsóknarnefnd Alþingis til að skoða málið.
Bjarni Jónsson hafði áður komið þeirri skoðun sinni á framfæri að forstjóri og stjórn Bankasýslunnar þurfi að víkja til þess að hægt verði að skapa traust að nýju. Helga Vala segir hins vegar afleitt hvernig stjórnarliðar skauti algjörlega framhjá skýrri ábyrgð ráðherra í málinu. Ekkert sem gerist í ferlinu gerist án aðkomu fjármálaráðherra og ef hann treysti vini sínum hjá Bankasýslunni svo vel að hann hafi ekki farið almennilega yfir ferlið og gögnin áður en hann samþykkti þau sé það ekki síður alvarlegt og á skjön við ábyrgð ráðherra.
Aðspurður hvort lög hefðu verið brotin í ferlinu sagðist Teitur ekki vita það og að það gerði Helga Vala ekki heldur, það þyrfti einfaldlega að rannsaka. Teitur sagði ábyrgð ráðherra skýra, en að ekki væri hægt að horfa framhjá því að Bankasýslan hafi verið sett sérstaklega á fót til þess að tryggja „pólitíska armslengd“ í sölu ríkiseigna. Hins vegar hafi viðbrögð Bankasýslunnar ekki verið traustvekjandi með því að neita að birta lista yfir kaupendur. Fjármálaráðherra hafi gert rétt með því að hundsa þau tilmæli. Eðlilegt væri að spyrja sig hvernig Bankasýslan hafi staðið að sölunni og tekið einstaka ákvarðanir í söluferlinu, sem hann sagði ráðherra ekki hlutast til með. Það væri góð hugmynd hjá ráðherra að fela Ríkisendurskoðun að fara yfir málsmeðferðina og þær alvarlegu ásakanir sem bornar hafi verið á borð. Það útiloki hins vegar ekki að hægt verði að skipa rannsóknarnefnd Alþingis í framhaldinu.
Gáleysi og raunveruleg ábyrgð
Halldóra tók undir með Helgu Völu og sagði mikilvægt að hafa í huga ábyrgð fjármálaráðherra. Væri hann látinn njóta vafans, að hann hafi ekki látið söluna fara svona viljandi, væri samt um stórkostlegt gáleysi um að ræða af hans hálfu. Hann hafi átt að tryggja að yfirlýstu markmiði um afslátt til að fá kaupendur úr röðum stórra, öruggra langtímafjárfesta yrði náð með sölunni. Leiðbeiningar OECD um einkavæðingu ríkiseigna, leiðbeiningum sem ætlað sé að koma í veg fyrir spillingu, hafi verið hunsaðar. Fjármálaráðherra hljóti að bera höfuðábyrgð í málinu.
Þó virtist engum ljóst hvort fjármálaráðherra hafi raunverulega kvittað undir tilboð hvers kaupanda fyrir sig. Helga Vala sagði það vera hans ábyrgð, enda komi hann að öllum þáttum frá A til Ö þó hann sitji ekki sjálfur við samningaborðið. Teitur neitaði hins vegar fyrir það að Bjarni hefði kvittað upp á tilboð föður síns, Benedikts Sveinssonar.
VG styðji vilja minnihlutans um skipun rannsóknarnefndar
Hitt málið sem deilt er um í tengslum við söluna er hvort skipa eigi rannsóknarnefnd Alþingis vegna málsins. Ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt að Ríkisendurskoðun verði falið að rannsaka málið, en stjórnarandstöðuflokkarnir telja hana ekki hafa nægilega heimild. Helga Vala sagði valdheimildir rannsóknarnefndar Alþingis og Ríkisendurskoðunar gjörólíkar þegar kæmi að því að kalla eftir gögnum og sækja fólk í skýrslutöku.
Samfylkingin væri til í að senda málið til Ríkisendurskoðunar, en á móti verði tryggt að minnihlutinn geti kallað til rannsóknarnefnd Alþingis. Meirihlutinn geti fellt slíka tillögu, það hafi gerst áður. Hvorki Teitur né Bjarni útilokuðu að rannsóknarnefnd Alþingis yrðu skipuð um málið, og sagði Bjarni raunar ekkert því til fyrirstöðu. Helga Vala tók hann á orðinu og hvatti Vinstri græna til þess að koma í „lið“ með stjórnarandstöðunni og samþykkja að setja á stofn rannsóknarnefndina, þá væri kominn fyrir því meirihluti. Halldóra tók undir með Helgu Völu og sagðist ekkert skilja í Vinstri grænum í málinu.