Bæði Samfylking og Píratar mældust með meira fylgi hjá aldurshópnum 18-29 ára en Sjálfstæðisflokkur samkvæmt síðustu þremur könnunum MMR, sem gerðar voru frá 30. desember 2020 til 10. mars 2021. Samfylkingin mælist með 19 prósent fylgi hjá aldurshópnum en Píratar með 17,7 prósent. Sjálfstæðisflokurinn er þriðji stærsti flokkurinn hjá kjósendum undir þrítugu með 17,7 prósent. Vert er að taka fram að munurinn á milli flokkanna þriggja er allur innan skekkjumarka.
Fylgi Samfylkingar og Pírata hjá yngstu kjósendunum er töluvert yfir heildarfylgi þeirra samkvæmt tölum MMR, en alls segjast 14,5 prósent styðja Samfylkingu og 11,9 prósent Pírata. Heildarfylgi Sjálfstæðisflokks mælist hins vegar 23 prósent og því er staða hans hjá yngstu kjósendunum töluvert frá því.
Hinir stjórnarflokkarnir á svipuðu róli
Hjá hinum stjórnarflokkunum, Vinstri grænum og Framsóknarflokki, er fylgið hjá kjósendum á aldrinum 18-29 ára svipað og það er heilt yfir. Alls segjast 10,4 prósent yngsta kjósenda hópsins styðja Framsóknarflokkinn og 10,9 prósent Vinstri græn.
Miðflokkurinn er í verulegum vanda þegar kemur að því að höfða til yngstu kjósendanna, en einungis 4,6 prósent svarenda undir þrítugu sögðu að þeir myndu styðja þann flokk.
Viðreisn myndi fá 7,5 prósent atkvæða hjá aldurhópnum ef kosið yrði í dag, miðað við niðurstöðu MMR, og Flokkur fólksins 4,2 prósent.
Önnur staða hjá þeim sem eru eldri en 60 ára
Staðan breytist umtalsvert þegar horft er til fólks yfir sextugt. Þar er fylgi flokka í mun meiri takti við það sem mælist heilt yfir.
Þar er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins með 24,8 prósent fylgi og Samfylkingin næst stærst með 15,9 prósent.
Aðrir flokkar sem njóta meiri vinsælda hjá elstu landsmönnum en heilt yfir eru Vinstri græn (12,7 prósent), Framsóknarflokkurinn (11, 9 prósent), Miðflokkurinn (10,7 prósent), og Flokkur fólksins (6,9 prósent).
Píratar eru með áberandi minna fylgi hjá elsta hópnum, en einungis 6,2 prósent kjósenda 60 ára og eldri segjast ætla að kjósa flokkinn. Viðreisn nýtur stuðnings 7,2 prósent svarenda í hópnum og Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 3,3 prósent fylgi hjá honum.