Samfylkingin segir framgöngu Samherja gagnvart kjörnum fulltrúum, stjórnmálamönnum, fjölmiðlafólki og öðrum sem fyrirtækið telur til andstæðinga sinna óafsakanlega
Í ályktun sem samþykkt var einróma á flokksstjórnarfundi flokksins í dag er skorað á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að grípa til raunverulegra aðgerða í ljósi afhjúpanna í Samherjamálinu. „Frekar en að gefa út innihaldsrýra afsökunarbeiðni ættu stjórnendur fyrirtækisins að skammast sín fyrir framgöngu starfsfólks sem fylgist með ferðum fjölmiðlafólks, reynir að hafa áhrif á lýðræðislegt val í stjórn Blaðamannafélagsins og á framboðslista hjá stjórnmálaflokkum, og vandar um fyrir ráðherrum og þingmönnum sem nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn á Alþingi.“
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að bundin verði í lög vernd fyrir fjölmiðlafólk sem verður fyrir árásum af hálfu stórfyrirtækja. Eins að lög verði sett um að starfsfólk eftirlitsstofnana verði varið fyrir ásókn af því tagi sem beitt hefur verið gagnvart starfsfólki Seðlabanka Íslands. „Ekki síst telur Samfylkingin löngu tímabært að bundið verði í stjórnarskrá réttmætt eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni og kveðið á um að einungis sé hægt að úthluta sameiginlegum gæðum á grundvelli tímabundinna réttinda sem fullt gjald komi fyrir.“
Í niðurlagi ályktunarinnar segir að Samfylkingin telji nauðsynlegt að við stjórn landsins verði valin ríkisstjórn sem sé reiðubúin að standa að sókn gegn sérhagsmunum og að nýting á sameiginlegum auðlindum taki í miklu meira mæli mið af hagsmunum almennings en tíðkast hafi hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum.
Namibía og skæruliðadeildir
Í nóvember 2019 birtu Kveikur, Stundin, Al Jazeera og Wikileaks umfjöllun um starfshætti Samherja í Namibíu. Þar komu fram upplýsingar sem bentu til þess að mútgreiðslur hefðu verið greiddar fyrir aðgang að kvóta, að stórfelld skattasniðganga hefði átt sér stað og hún hefði leitt af sér peningaþvætti. Málið er til rannsóknar í Namibíu og á Íslandi, þar sem sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja eru með stöðu sakbornings við rannsókn málsins.
Kjarninn og Stundin opinberuðu nýverið að innan Samherja hafi verið starfandi hópur fólks sem skilgreindi sig sem skæruliðadeild fyrirtækisins. Hlutverk þeirra var að ráðast gegn þeim sem fjölluðu um fyrirtækið með gagnrýnum hætti. Samherji baðst nýverið afsökunar og sagðist hafa gengið of langt.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við 200 mílur, fylgiblaði Morgunblaðsins um sjávarútveg, í dag að honum þætti ákaflega dapurt, svo ekki væri fastar að orði kveðið, að horfa upp á þá stöðu sem hafi byggst upp í kringum Samherja. „Ég sagði það strax þegar þetta mál hófst að forsvarsmenn þess yrðu að ganga fram fyrir skjöldu og greina þessa stöðu og gera hreint fyrir sínum dyrum. Ég held að flestir sem fylgjast með þessari umræðu geti verið sammála um að það hafi fyrirtækinu ekki tekist enn þann dag í dag.“
Í viðtalinu sagði Kristján Þór að sér þyki vont hvernig umræðan um Samherja smiti út frá sér og hafi áhrif á heila atvinnugrein, sjávarútveginn. „Eins frábærum árangri og íslenskur sjávarútvegur hefur náð á undanförnum árum og áratugum, þá felur þessi staða í sér að hún veikir tiltrú fólks til sjávarútvegsins sem er mjög slæmt.“