Margrét Ólafsdóttir, aðstoðarkona Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja, segir í skriflegu svari til Committee to Protect Journalists (CPJ) að fyrirtækið hafi ekki áreitt blaðamenn Kveiks eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttarins um starfsemi Samherja í Namibíu sem birtist í nóvember 2019.
CPJ fjallar um herferð fyrirtækisins til að koma óorði á blaðamanninn Helga Seljan og kollega hans á RÚV. Sú herferð birtist í yfirlýsingu fyrirtækisins á vefsíðu þess, YouTube-myndböndum, kæru til siðanefndar RÚV og tilraunum til að hafa áhrif á kjör formanns í Blaðamannafélagi Íslands.
Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri á RÚV segir við CPJ að aðgerðir Samherja séu „gífurlega alvarlegar“ og „geti ekki á nokkurn hátt verið réttlættar eða útskýrðar af Samherja sem einhvers konar viðbrögð við umfjöllun þeirra“.
Margrét telur yfirlýsingar Samherja og færslur á samfélagsmiðlum vera hluti af málfrelsi þeirra, að því er fram kemur í umfjöllun CPJ.
Jón Óttar „stöku sinnum“ unnið að verkefnum fyrir Samherja
Varðandi hegðun Jóns Óttars Ólafssonar, ráðgjafa og einkaspæjara, þá segir Margét að hann hafi „stöku sinnum unnið að verkefnum“ fyrir hönd fyrirtækisins en þau verkefni hafi aldrei falið í sér áreiti eða einelti í garð Helga Seljan.
Kjarninn greindi frá því í ágúst 2020 að Helgi hefði margsinnis orðið fyrir áreiti af hálfu Jóns Óttars síðan Kveiks-þátturinn um viðskipti fyrirtækisins í Namibíu fór í loftið. Jón Óttar var meðal annars tíður gestur á Kaffifélaginu, kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur, einatt til að hitta á og ná tali af Helga. Hann sendi Helga enn fremur ítrekað skilaboð, bæði í gegnum SMS og Facebook-reikning eiginkonu sinnar.
Í framhaldi af umfjöllun Kjarnans baðst Jón Óttar afsökunar en hann sagði að Samherji hefði ekki haft vitneskju um skilaboð sem hann sendi til Helga. Honum hefði fundist miður að háttsemi hans væri bendluð við fyrirtækið. „Hún er alfarið á mína ábyrgð.“
Hluti af „skæruliðadeildinni“
Jón Óttar kom einnig við sögu í umfjöllun Kjarnans um „skæruliðadeild Samherja“ sem birtist í maí á þessu ári. Var hann hluti þess hóps sem rekur áróðursstríð Samherja gegn blaðamönnum og ákveðnum fjölmiðlum sem fjallað hafa um fyrirtækið en hópurinn lýsti sér sjálfur í samtölum sem skæruliðadeild.
Margrét neitar einnig að fyrirtækið hafi skipt sér að kosningum til formanns Blaðamannafélags Íslands. Kjarninn greindi frá því í vor að starfsmenn fyrirtækisins hefðu reynt að hafa áhrif á niðurstöðu í fyrrnefndu formannskjöri.
Sagði hún að þeir aðilar sem um ræðir í „skæruliðadeildinni“ hefðu ekkert umboð haft frá Samherja til að taka slíkar ákvarðanir.