Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri Flugleiða og síðar FL Group, er fyrsta konan sem ráðin var í stöðu forstjóra í skráðu félagi.
Það var árið 2005. Það var svo ekki fyrr en í september á síðasta ári sem kona var aftur ráðin í stól forstjóra skráðs félags þegar Ásta S. Fjeldsted tók við sem forstjóri Festi. Það liðu því 17 ár á milli ráðninga á konu í forstjórastól skráðs félags.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Ástu Dísar Óladóttur, dósents við Viðskiptafræðideild og stjórnarformanns MBA náms við HÍ, í áramótablaði Vísbendingar. Í blaðinu er sjónum sérstaklega beint að fjölbreytni, jafnrétti og því hvernig unnt er að nýta hæfni og krafta breiðari hóps í viðskiptalífinu, ekki síst í stjórnum og stjórnunarstöðum, en ekki bara hæfni og krafta þeirra sem eru líkir þeim sem stýra fyrir.
Hallar verulega á konur í stjórnendastöðum á einkamarkaði
„Staða jafnréttismála er almennt talin vera góð hér á landi, hún þykir reyndar ,,til fyrirmyndar“ að mörgu leyti. Konur og karlar búa við lagalegt jafnrétti og ýmis stór skref hafa verið stigin til að jafna stöðu kynjanna. Menntunarstig kvenna og hlutfall þeirra á vinnumarkaði er hátt hér á landi sem og hlutfall kvenna í stjórnmálum og í stjórnunarstöðum hjá hinu opinbera. Staðan er hins vegar önnur á einkamarkaði, þar hallar verulega á konur í stjórnendastöðum,“ segir Ásta Dís í grein sinni.
Síðastliðin níu ár hefur Kjarninn gert úttekt á kynjahlutföllum þeirra sem stýra þúsundum milljarða króna í ýmis fjárfestingaverkefni hérlendis. Í níu ár hefur niðurstaðan verið svipuð, karlar eru allt um lykjandi. Á síðasta ári voru karlarnir 91 en konurnar 13. Þeim hefur fjölgað um sjö frá 2014. Frá því að Kjarninn hóf að gera úttektina árið 2014 hefur konunum sem hún nær til fjölgað úr sex í 13, á níu árum. Körlunum hefur hins vegar fjölgað um tólf.
Í greininni fer Ásta Dís yfir þróunina hjá skráðum félögum á markaði þar sem kona gegnir starfi forstjóra. Karlmenn sem gegnt hafa stöðu forstjóra í skráðum félögum síðan Kauphöll Íslands var stofnuð á níunda áratug síðustu aldar skipta hundruðum en einungis sex konur hafa gegnt stöðu forstjóra í skráðu félagi frá upphafi. Aðeins tvær þeirra voru ráðnar þegar félagið var skráð á markaði.
Hildur Petersen var forstjóri Hans Petersen sem skráð var á vaxtalista, Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri Flugleiða og síðar FL Group, var fyrsta konan sem ráðin var í stöðu forstjóra í skráðu félagi árið 2005. Sigrún Ragna Ólafsdóttir var ráðin forstjóri VÍS árið 2010 og félagið var skráð á markað 2013. Hún hætti árið 2016 og þá liðu fimm ár þar sem engin kona var forstjóri í skráðu félagi. Það breyttist árið 2021 þegar Íslandsbanki var skráður, en Birna Einarsdóttir hefur verið forstjóri þess félags frá árinu 2008. Margrét B. Tryggvadóttir tók við forstjórastöðu Nova árið 2018 og félagið var skráð 2022.
„Það var svo í september 2022, í fyrsta sinn frá árinu 2005 að kona var ráðin í stól forstjóra, er Ásta S. Fjeldsted tók við sem forstjóri Festi. Það liðu því 17 ár á milli ráðninga á konu í forstjórastól skráðs félags,“ bendir Ásta Dís á.
„Látum ekki önnur 17 ár líða“
Ásta Dís er meðal rannsakenda í nýrri rannsókn sem byggir á reynslu 22 stjórnarkvenna í skráðum félögum á Íslandi af forystuhæfni, tengslaneti og stuðningi við konur til að gegna forstjórastöðu. Niðurstöður rannsóknarinnar eru að konur eru hæfar til að gegna forstjórastöðum í skráðum fyrirtækjum, en þegar kemur til ráðninga forstjóra skráðra félaga eru þær þó ekki ráðnar til starfanna þar sem áhrif karla, tengslanet og íhaldssamar staðalímyndir af forystuhæfni kvenna og árangursríkri forystu virðast ráða ákvörðunum. Þar með aukast líkur á því að horft sé fram hjá hæfum konum við forstjóraval.
Greint er frá niðurstöðunum í grein í nýjustu útgáfu Tímarits um viðskipti og efnahagsmál. Meðhöfundar Ástu Dísar eru Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Þóra H. Christiansen, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Erla S. Kristjánsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Í henni segir að í niðurstöðum rannsóknarinnar felist tækifæri fyrir stjórnir skráðra félaga til þess að auka gæði ráðninga forstjóra og jafna kynjamun með auknum fjölbreytileika og með því að miða ráðningarnar við árangursríka hæfni til forystu.
„Fyrir rétt rúmu ári síðan var engin kona forstjóri í skráðu félagi, nú eru þær þrjár. Með ákveðinni hugarfarsbreytingu og með því að taka ákvörðun um jöfn tækifæri kynjanna til stjórnunarstarfa, þá getum við raunverulega orðið til fyrirmyndar. Látum ekki önnur 17 ár líða,“ segir Ásta Dís.
Jafnrétti ekki náð fyrr en það verður jafnalgengt að sjá konur í meirihluta og karla.
Katrín Ólafsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík, fjallar einnig um konur í stjórnnarstöðum í grein sinni í Vísbendingu, „Hverju ráða konurnar?“, þar sem hún rýnir nánar í hver stjórna landinu og hver stjórna hagsmunum og fjármunum.
Fram kemur í grein Katrínar að kynjamunurinn í stjórnum fyrirtækja reynist mun meiri á almennum markaði en þeim opinbera. Af þeim 22 fyrirtækjum sem skráð eru á markað í Aðalmarkað Kauphallar Íslands eru konur forstjórar í þremur. Konur stjórna því 14 prósent fyrirtækja á Aðalmarkaði. Auk þess hallar mjög á hlutfall kvenna í æðstu stjórn fyrirtækja á almennum markaði, hvort sem um er að ræða stjórnir, stjórnarformennsku, forstjóra eða framkvæmdastjóra.
„Rýr hlutur kvenna í mikilvægum stjórnunarstöðum á almennum markaði er tímaskekkja. Það þarf að skoða hvað veldur og hvernig er hægt að bæta stöðu kvenna á almennum vinnumarkaði,“ segir Katrín í grein sinni.
Augljóst skref að hennar mati er að innleiða refsingar þar sem ekki er farið að ákvæðum laga. „Ef ekki er tekið á þessum kynjahalla, sérstaklega í stjórnun á almennum markaði, er hætta á að Ísland missi sæti sitt á lista yfir lönd sem státa af mestu kynjajafnrétti. Jafnrétti er ekki náð fyrr en það verður jafnalgengt að sjá konur í meirihluta og karla. Ljóst er að mikið vantar upp á því takmarki sé náð.“
Grein Ástu Dísar í áramótablaði Vísbendingar má lesa í heild sinni hér.