Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hélt tölu á fyrsta listakvöldi Listaklúbbs Seðlabanka Íslands sem haldið var í síðasta mánuði.
Listaklúbburinn var stofnaður af Starfsmannafélagi Seðlabanka Íslands síðasta haust og er öllum starfsmönnum bankans frjálst að taka þátt. Í svari frá seðlabankanum við fyrirspurn Kjarnans segir að Seðlabankinn lagði starfsmannafélaginu til tvær milljónir króna við stofnun klúbbsins og verða þær nýttar í starfsemi hans. Bankinn mun að öðru leyti ekki koma að starfsemi klúbbsins.
Um þriðjungur starfsmanna Seðlabankans, hátt í hundrað talsins, gekk í klúbbinn við stofnun og greiða þeir mánaðarlegt félagsgjald, þrjú þúsund krónur, sem nýtt er til kaupa á listaverkum. Reglulega er efnt til listakvölda þar sem dregin eru út nöfn úr potti með nöfnum heppinna félagsmanna. Listaklúbburinn hefur einnig áform um skipulagðar heimsóknir í gallerí ásamt því að fá stöku sinnum fyrirlesara til að fræða félaga um samtímalist.
Listaklúbbar sem þessir eru ekki nýir af nálinni en lítið hefur farið fyrir starfsemi þeirra eftir bankahrun. Listaklúbbur Arion banka (þá Kaupþing) var til að mynda stofnaður árið 2006. Klúbburinn hætti starfsemi þegar ríkið tók yfir bankann haustið 2008 en var endurvakinn í nóvember 2009 og gengu þá um 200 starfsmenn bankans og tengdra félaga í klúbbinn og greiddu eitt þúsund krónur í mánaðargjald.
Markmið Listaklúbbs Seðlabanka Íslands er meðal annars að „efla almennan áhuga á listum og menningu og styðja við bakið á íslensku sem erlendu listafólki,“ að því er segir í svari bankans til Kjarnans.
Listin hugleikin starfsmönnum Seðlabankans
Listaverkasafn Seðlabankans er myndarlegt og hefur ratað í umræðuna oftar en einu sinni. Minnistæðast er líklega þegar starfsmaður bankans kvartaði yfir málverki eftir Gunnlaug Blöndal sem prýddi vegg í bankanum. Nekt er á málverkinu og taldi starfsmaðurinn það ósæmilegt og fór fram á að málverkið yrði fjarlægt. Eftir sérstaka skoðun sem fram fór innan bankans varð það niðurstaða stjórnenda að málverk eftir Gunnlaug Blöndal sem innihalda nekt skuli fjarlægð úr almennum vinnusvæðum og skrifstofum yfirmanna og sett í geymslu þar til annað er ákveðið.
Í erindi sem Bandalag íslenskra listamanna sendi frá sér vegna málsins lýsti það yfir furðu sinni á ákvörðun Seðlabanka Íslands að fjarlægja verkin. Í athugasemd bandalagsins segir að ef það sé skilningur Seðlabankans að hann eigi að sinna menningarlegu hlutverki þá verði það hlutverk að byggjast á faglegum grunni. Bandalagið sagði að bankinn ætti þá að stofna listasafn og ef ekki þá gerir bandalagið kröfu um að verkunum verði komið í umsjá Listasafns Íslands.
Listasafn Seðlabanka Íslands hefur enn ekki verið stofnað en nú hefur Listaklúbbi Seðlabanka Íslands að minnsta kosti verið komið á fót.