Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að ekki hafi verið um að ræða „racial profiling“ eða kynþáttamiðaða löggæslu, eins og hugtakið hefur verið þýtt, þegar lögreglan hafði tvívegis afskipti af ungum dreng í apríl síðastliðnum við leit að strokufanga.
Þetta kom fram í máli hennar á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar um fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma í morgun.
Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum þegar lögreglan hafði afskipti af 16 ára dreng í tvígang, dag eftir dag, vegna ábendinga frá almenningi um að hann væri strokufangi sem slapp úr haldi lögreglunnar um miðjan apríl. Drengurinn er dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu og umræddur strokufangi.
Vildi geta stigið út úr sínu eigin húsi án þess að lögreglan stoppi sig
Móðir drengsins sagði í samtali við Kjarnann á þessum tíma að hann hefði verið í algjöru áfalli eftir fyrra skiptið sem átti sér stað í strætó á þriðjudeginum. Hún hélt honum heima um kvöldið og um morguninn hringdi hún í vinnuveitanda hans og bað um frí fyrir hann því hann væri ekki í stakk búinn til að mæta í vinnuna eftir áfallið daginn áður.
Raunum þessa 16 ára drengs var þó ekki lokið því lögreglan mætti aftur á svæðið, í annað sinn, þegar mæðginin voru stödd í bakaríi í Mjóddinni daginn eftir.
Drengurinn sjálfur vildi koma á framfæri skilaboðum í samtali við Kjarnann: „Ég væri til í að geta stigið út úr mínu eigin húsi og vera með vinum mínum án þess að lögreglan stoppi mig fyrir það hvernig ég lít út.“
„Við þurfum að hlusta betur á samfélagið“
Sigríður Björk þakkaði á fundinum í morgun fyrir tækifærið til að ræða þessi mál. Hún sagði að lögreglan væri þjónustustofnun sem ætti að passa það að veita þjónustu til þeirra sem á þurfa að halda.
„Við þurfum að hlusta betur á samfélagið. Það er verkefnið sem við erum í.“ Hún sagði að lögreglan væri nýbúin að klára stefnumótun og út úr henni hefði slagorðið „Að vernda og virða“ komið. Hún væri þakklát fyrir að vera boðuð á fundinn því umræða sem þessi skipti máli.
Varðandi umrætt mál þá sagði Sigríður Björk að í þessu tilfelli hefði lögregla ekki valið þann sem verið var að hafa afskipti af. „Við erum að fylgja eftir ábendingum frá almenningi. Þannig að í þessu tilviki á ekki við að það sé kynþáttmiðuð löggæsla. Þetta er einfaldlega þannig að við erum að leita að hættulegum manni, það koma ábendingar og við þurfum að fylgja þeim eftir. Við getum ekki valið úr að fylgja þeim ekki eftir vegna eðlis verkefnisins.“
Segir að sérsveitin hafi ekki „átt samskipti“ við drenginn
Hinsvegar sagðist Sigríður Björk harma það mjög að þessi ungi drengur skildi verða fyrir ítrekuðu áreiti. Hún sagði þó að mikils misskilnings hefði gætt í fjölmiðlaumfjöllun, lögreglan hefði skoðað öll myndbönd og niðurstaðan hefði verið sú að þetta hefði ekki verið þannig að sérsveitarmenn hefðu „ruðst inn með vopn á lofti“. Þeir hefðu aldrei átt samskipti við drenginn og aldrei rætt við hann.
„Þeir einmitt eru þjálfaðir í að bera kennsl á fólk sem þýðir það að þeir sáu alveg um leið að þetta var ekki maðurinn sem verið var að leita að. Í fyrra tilvikinu gengu þeir út í endann á strætisvagninum, sneru við og fóru út. Þetta er engu að síður mjög trámatískt fyrir drenginn,“ sagði hún.
Hún útskýrir að í seinna tilvikinu hafi það nákvæmlega sama gerst. „Þá kemur lögreglumaður inn, byrjar að spjalla við móðurina og það sem sagt verður samtal sem er til á upptökum og hefur verið birt. Þannig að í þessu tilviki er ekki um kynþáttamiðaða löggæslu eða afskipti að ræða.“
Heyrðu sjónarmið sem þau áttuðu sig ekki á fyrir
Ríkislögreglustjóri telur þó að mörg atriði séu þarna til umhugsunar. „Til dæmis það að hvort við hefðum getað staðið okkur betur í að setja einhvers konar varnaðarorð þegar við auglýsum eftir þeim sem verið var að auglýsa eftir – og svona sértækar aðgerðir sem við höfðum ekki hugsað út í. En við erum búin að eiga þessar samræður við foreldra drengsins og erum betur í stakk búin að meta þetta núna. Við erum búin að heyra sjónarmið sem áttuðum okkur ekki á og erum að vinna með.“
Hún sagði að þau í lögreglunni væru vakandi fyrir kynþáttmiðaðri löggæslu. „Það er raunverulega óþolandi að það skuli vera saklaust ungmenni sem þarna á í hlut sem verður fyrir þessari trámatísku reynslu, jafnvel þótt lögreglan hafi verið að sinna sínu starfi.“