Samkomulag hefur náðst við trúnaðarmenn starfsfólks skrifstofu Eflingar um framkvæmd á skipulagsbreytingum á vinnustaðnum, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Baráttulistanum.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segist í yfirlýsingunni lýsa yfir ánægju með að samráð við trúnaðarmenn hafi skilað sér í samkomulagi.
„Staðið hefur verið rétt og faglega að ferlinu. Það er hins vegar mjög leitt að minnihluti stjórnar hafi ekki virt trúnað og kosið að leka upplýsingum í fjölmiðla meðan á samráði stóð. Vanstillt umræða hefur svo farið úr böndunum síðustu sólarhringa þar sem ýmsir hafa sett sig á háan hest án þess að vita nokkuð um málið. Er það engum til sóma,“ segir hún.
Samkvæmt yfirlýsingunni fela breytingarnar í sér uppsögn ráðningarsamninga allra starfsmanna og auglýsingu allra starfa. Fram kemur að ný ráðningarkjör verði innleidd, með gagnsæi og jafnrétti að leiðarljósi, og starfað verði undir nýju skipulagi með breyttum hæfniskröfum og verkaskiptingu. Breytingarnar miði að bættri þjónustu við félagsmenn og aukinni skilvirkni í rekstri.
Starfsfólki veitt svigrúm til að sækjast eftir öðrum störfum á uppsagnarfresti
Greint er frá því að samráð við trúnaðarmenn hafi hafist að loknum stjórnarfundi síðastliðinn mánudag þar sem tillaga um skipulagsbreytingar var samþykkt.
„Samkvæmt lögum ber að viðhafa trúnað um samráðið, sem lauk síðdegis í gær, með samkomulagi eins og fyrr segir. Var í kjölfar þess í gærkvöldi send tilkynning til Vinnumálastofnunar og öllum starfsmönnum Eflingar sent uppsagnarbréf.
Samkomulagið við trúnaðarmenn felur í sér að starfsmenn sem þess óska verða leystir undan vinnuskyldu síðasta mánuð uppsagnarfrests. Öllum starfsmönnum er tryggður að lágmarki 3 mánaða uppsagnarfrestur, einnig þeim sem ekki hafa áunnið sér hann. Efling mun falla frá réttindum og skyldum í tilvikum þar sem starfsmaður óskar að ganga í annað starf áður en uppsagnarfrestur er liðinn. Starfsfólki verður að auki veitt svigrúm til að sækjast eftir öðrum störfum á uppsagnarfresti óski það þess, t.d. fara í atvinnuviðtöl á vinnutíma,“ segir í yfirlýsingu Baráttulistans.
Segist hafa fengið uppsagnarbréf klukkan tvö í nótt
Mikil ólga hefur verið í samfélagsumræðunni vegna uppsagnanna og hafa aðrir verkalýðsforingjar og starfsfólk Eflingar tjáð sig opinberlega um málið.
Vala Árnadóttir, starfsmaður Eflingar, sagði til að mynda frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að hún hefði fengið uppsagnarbréf frá lögmanni úti í bæ um klukkan 2 í nótt. Hún er í veikindaleyfi í kjölfar slyss og var búin að tjá Eflingu að hún myndi ekki snúa aftur til starfa hjá stéttarfélaginu en mánuði eftir að hún lenti í slysinu síðasta sumar var henni tilkynnt að félags- og þróunarsvið Eflingar, sem hún starfaði hjá sem teymisstjóri félagamála, hefði verið lagt niður „vegna skipulagsbreytinga” og afþakkaði Vala starf á nýju sviði.
Vala segist vegna sinna veikinda og vegna fjölskyldustengsla við Sólveigu Önnu ekkert hafa viljað tjá sig um málefni Eflingar út á við til þessa en segir að nú sé nóg komið.
Hún segir að stuttu eftir að sviðið sem hún starfaði hjá hafi verið lagt niður hafi „skrifstofa félagamála“ verið stofnuð og Viðar Þorsteinsson settur þar yfir, en skrifstofa hans og starfsfólk hafi þjónað sama tilgangi og félags- og þróunarsvið gerði áður, þannig að skipulagsbreytingin hafi verið nánast engin og ekki til neins fallin nema að að „losa sig við sumt starfsfólk“ og „setja Viðar yfir einingu sem hann myndi geta sætt sig við eftir að fjölda kvartanna í hans garð gerðu honum erfitt um vik að starfa áfram sem framkvæmdastjóri.“
Vala segist hafa stutt þær konur sem „kvörtuðu undan framkomu og eineltistilburðum Viðars“ og segir að hún hafi beðið Sólveigu Önnu um að standa með þeim líka, fyrir ári síðan. Viðbrögðin hafi hins vegar verið þau að segja upp sviðsstjóra, sem Sólveig og Viðar hafi talið að ætti upptökin að kvörtununum í garð Viðars.