Guðni Bergsson fyrrverandi formaður KSÍ neitar því í samtali við Kjarnann að sambandið hafi fengið formlega ábendingu um meint kynferðisbrot landsliðsmanna. KSÍ hafi borist nafnlaust bréf þar sem meðal annars var spurt hvort þau vildu „virkilega að fyrirmyndir allra barna sem hafa áhuga á fótbolta“ væru kynferðisafbrota- og ofbeldismenn.
Í bréfinu sem Kjarninn hefur undir höndum er ekki tilgreint sérstakt atvik eða nöfn þolenda eða geranda.
Kjarninn greindi frá því í morgun að KSÍ hefði fengið ábendingu í byrjun júní síðastliðins um meint atvik eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn í september 2010 þar sem tveir landsliðsmenn voru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn ungrar konu. Hún hafði sjálf birt færslu um málið á samfélagsmiðlum í maí án þess þó að nafngreina landsliðsmennina.
Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, áréttar í samtali við Kjarnann í dag að KSÍ hafi borist ábending um málið. Hann segist ekki hafa vitneskju um það hvort umrætt bréf hafi verið ábendingin en hann staðfestir í tvígang að ábending hafi borist KSÍ í byrjun júní. „Það er alveg klárt mál.“
Sérstök nefnd mun fara yfir málið
KSÍ sendi frá sér tilkynningu í vikunni og greindi frá því að stjórn sambandsins hefði óskað eftir því við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) að sett yrði á stofn nefnd til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð sambandsins vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands.
Samkvæmt ÍSÍ á nefndin að fara yfir þá atburðarás sem leiddi til afsagnar formanns og fyrirhugaðrar afsagnar stjórnar KSÍ í september ásamt því að bregðast við ásökunum sem fram hafa komið.
Ómar segir að þau hjá KSÍ muni láta nefndina fá allar þær upplýsingar sem til eru hjá sambandinu um málið.
Segir bréfið vera ábendinguna
Guðni Bergsson segir í samtali við Kjarnann að þessi ábending sem Ómar talar um sé þetta tiltekna bréf. „Þetta er eina bréfið sem við fengum en við vorum meðvituð um frásögn á samfélagsmiðlum. Það hefur komið fram. En við fengum enga formlega ábendingu eða tilkynningu um málið í raun og veru fyrr en 27. ágúst.“
Þannig að þú hafnar að það hafi komið inn ábending í byrjun júní um málið?
„Við vissum um tilvist þessa máls í gegnum samfélagsmiðla. Við vissum það. Það kom upp á yfirborðið í júnímánuði en ég hefði ekki vitneskju um það hvort þetta tiltekna nafnlausa bréf beindist að þessu máli enda kemur það ekkert fram í bréfinu.
Þarna erum við byrjuð að hengja okkur í eitthvað sem skiptir í raun og veru ekki máli. Þessi ábending er bara nafnlaust bréf enda hefur komið fram hjá mér og okkur að við vorum meðvituð um frásögn á samfélagsmiðlum.“
Segist ekki hafa náð að ræða við konuna
Hvernig brugðust þið við þessari vitneskju um þessa frásögn á samfélagsmiðlum?
„Við reyndum auðvitað að átta okkur á því miðað við hvernig sú frásögn var án nafngreiningar hvað væri í raun og veru hægt að gera í málinu. Við reyndum í sjálfu sér að fá það fram í gegnum tengilið hvað hún vildi viðhafast í málinu þar sem hún væri með forræði á því.“
Tókst ekki að ná þessu sambandi?
„Við náðum allavega aldrei að ræða við hana. Þolandinn ræddi aldrei beint við okkur, nei.“
Guðni segir að þessi tiltekna ábending snúi ekki að kjarna málsins. „Það var vitneskja um þetta mál og ég hef sagt frá því að þá vitneskju fékk ég í raun og veru út frá færslu á samfélagsmiðlum – þannig kom vitneskjan til.“
Snýst þetta þá um ágreining um hvað orðið „ábending“ þýðir?
„Þetta mál kemur inn til okkar og við byrjum að eiga við það, bæði ég og framkvæmdastjóri eða reyna að átta okkur á því í júnímánuði í sumar. Bréfið segir ekki neitt sem við fengum en það var auðvitað þessi frásögn sem maður veit núna að svo margir vissu um á þessum tiltekna samfélagsmiðli sem ég er reyndar ekki á en síðan frétti af.
Þannig kemur það til minnar vitundar, þannig að þetta bréf hafi ekki gildi í þessu máli eins og það er orðað.“
Guðni segist fagna því að nefnd ÍSÍ taki til starfa og skoði málið. „Það var líka það sem ég lagði til að byrja með að þetta færi til utanaðkomandi aðila og að þessi mál yrðu skoðuð. Ég bara fagna því.“
Heyrði af málinu í gegnum samfélagsmiðla – ekki vegna formlegrar ábendingar
Hvað segir þú þá um þá fullyrðingu KSÍ að sambandinu hefði borist ábending um málið í júní?
„Þetta veltur allt á því að það fyrsta sem ég heyrði af málinu var af vettvangi samfélagsmiðla. Ég heyrði af því að frásögnin væri á samfélagsmiðlum.“
Í byrjun júní?
„Já, í júnímánuði, eða einhvern tímann í kringum það. Svo berst þetta bréf sem náttúrulega segir ekki neitt. Þessi færsla á samfélagsmiðlum verður síðan á margra vitorði þannig að það var auðvitað enginn vilji til og stóð aldrei til að þagga eitthvað niður sem var á allra vitorði þrátt fyrir að það væri ekki nafngreining.“
Hvað hefði verið eðlilegt að gera með þessa vitneskju?
„Ég held að við þurfum bara að láta málið hafa sinn gang í gegnum þessa nefnd og fara yfir það. Það er auðvitað alltaf hægt að líta í baksýnisspegilinn og velta því fyrir sér hvort eitt og annað hefði getað farið betur en málið var bara eins og það var vaxið.“