Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, segist í fljótu bragði ekki sjá hvað nýr valkostur Vegagerðarinnar vegna fyrirhugaðrar færslu hringvegarins í Mýrdal eigi að leysa. Hinum nýja valkosti var bætt við í kjölfar fjölda athugasemda sem bárust á drög að matsáætlun framkvæmdarinnar. Sú leið sem bætt var við liggur samhliða núverandi vegi og norðan við Víkurþorp og gerir því ekki ráð fyrir jarðgöngum í gegnum Reynisfjall.
Einar Freyr segir við Kjarnann að hann geri ráð fyrir því að þeirri leið sem Vegagerðin hefur bætt við felist umtalsvert meira jarðrask og mun neikvæðari sjónræn áhrif heldur en af láglendisvegi, „mokstur úr mýrunum vestan við Gatnabrún, nýr vegur upp Gatnabrún með tilheyrandi efnisflutningum og nýr vegur sem þverar byggingarland norðan Víkurþorps og á sléttunni austast í þorpinu og myndi kalla á brúargerð yfir Grafargil og mikið jarðrask fyrir ofan þorpið“.
Vegagerðin lagði matsáætlun vegna framkvæmdanna fram til Skipulagsstofnunar nýverið. Matsáætlun er eitt skref í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda.
Meta á umhverfisáhrif sjö valkosta. Fjórir þeirra gera ráð fyrir vegi meðfram fjörunni og jarðgöngum í gegnum Reynisfjall. Verði einn sá kosta valinn sem gera ráð fyrir jarðgöngum reiknar Vegagerðin með að þau verði 1,3-1,5 kílómetrar að lengd auk vegskála sem þurfa að vera nokkuð langir vegna hættu á ofanflóðum. Gert er ráð fyrir að fara inn í fjallið að austan í yfir 10 metra hæð yfir sjávarmáli og yfir í 8 metra hæð vestan megin.
Varnargarður þyrfti að vera 7,5 metra hár
Er jarðgöngunum sleppir austan megin fjallsins myndi vegurinn liggja um Víkurfjöru. Gert er ráð fyrir tvennum undirgöngum til að tryggja aðgengi gangandi, hjólandi og hestaumferðar frá Vík og niður í fjöruna. Meðfram veginum þyrfti að vera varnargarður. Þar sem rannsókn á stöðugleika strandarinnar stendur enn yfir er ekki hægt að fastsetja hæð mannvirkjanna en fyrstu drög benda til þess að lágmarkshæð vegarins þyrfti að vera um 5,7 m.y.s. og varnargarðsins að austan um 7,5 m.y.s.
Valkostur 1 er samkvæmt skipulagslínu sveitarfélagsins. Sú leið liggur meðfram Dyrhólaósi sem er á náttúruminjaskrá og í göngum sunnarlega um Reynisfjall. Austan fjallsins liggur leiðin meðfram sjó og sameinast núverandi vegi í Vík.
Nýi valkosturinn fylgir að hluta öðrum valkosti sem einnig er til skoðunar. Nýja leiðin sem Vegagerðin ætlar að taka inn í umhverfismatið fela í sér lagfæringar á nýverandi vegi um Gatnabrún og gerir ráð fyrir að nýr vegur verði lagður samhliða núverandi vegi. Hann yrði svo lagður norðan við þéttbýlið á Vík en núverandi vegur klýfur Víkurþorp.
„Það er eðlilegt í mínum huga að svona mál séu umdeild og mikið rædd, enda hagsmunamál,“ segir Einar Freyr spurður út í þann mikla fjölda athugasemda sem barst við drög að matsáætlun. Flestar voru þær neikvæðar í garð jarðganga og vegar í nálægð við fjöruna. „Það eru í mínum huga mörg rök sem hníga að því að vegurinn verði færður,“ heldur Einar Freyr áfram. „Þar má nefna aukið umferðaröryggi í Vík þar sem núverandi vegur klýfur þorpið, greiðfærari veg en oft þarf að loka honum vegna illviðris norðan Reynisfjalls, mjög mikil vegstytting – að jafnaði mun meiri en einföld stytting þjóðvegarins þar sem þeir ferðamenn sem heimsækja Dyrhólaey og Reynisfjöru munu spara um 20 kílómetra akstur hver, umhverfisvænni vegur vegna vegstyttingar og lítilla hækkana sem sparar þar af leiðandi umtalsvert eldsneyti og mengandi útblástur.“
Einar Freyr segir að viðhorf íbúa til áformanna hafi ekki verið kannað en bendir á að það hafi verið vilji sveitarstjórnar frá árinu 2009 að vegurinn yrði færður í samræmi við aðalskipulag.
„Annars hlakka ég til að sjá niðurstöður umhverfismats þar sem öll þessi atriði verða skoðuð á faglegan hátt og allir munu þannig geta myndað sér upplýsta skoðun á málinu.“