Stjórn TK bíla, sem á og rekur Toyota í Kauptúni, leggur til að 100 milljónir króna verði greiddar í arð til hluthafa á árinu 2021 fyrir rekstrarárið 2020 en félagið hagnaðist um 96,2 milljónir króna á því ári. Félagið er í jafnri eigu Úlfars Steindórssonar og Kristjáns Þorbergssonar í gegnum félög í þeirra eigu en Úlfar er stjórnarformaður félagsins.
Við upphaf kórónuveirufaraldursins í fyrra fór 131 starfsmaður Toyota í Kauptúni í minnkað starfshlutfall og þáði í kjölfarið hlutabætur frá Vinnumálastofnun. Alls voru rúmlega 26 milljónir greiddar í hlutabætur til starfsmanna Toyota í Kauptúni í mars og apríl í fyrra, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutastarfaleiðina sem kom út í maí í fyrra.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir: „Áhrif af Covid-19 heimsfaraldri var mun minni á rekstur félagsins en gera mátti ráð fyrir í upphafi faraldursins, eins og sjá má af afkomu ársins. Í upphafi faraldursins nýtti félagið að hluta þau úrræði stjórnvalda sem í boði voru, auk þess nýtti félagið að hluta frystingu á afborgunum lána í sex mánuði. Sala nýrra bíla dróst saman á árinu, en um sumarið varð aukning á sölu notaðra bíla og sú staðreynd ásamt aðgerðum til að draga úr rekstrarkostnaði hefur skilað betri rekstrarniðurstöðu en árið áður.“
Greiðslur bárust starfsmönnum en ekki félaginu
Kjarninn sendi fyrirspurn til Toyota í Kauptúni og spurði hvort komið hafi til tals að endurgreiða þær hlutabætur sem starfsfólk félagsins þáði úr opinberum sjóðum. Í skriflegu svari frá Úlfari Steindórssyni segir að í upphafi kórónuveirufaraldursins hafi ríkt mikil óvissa um framvindu. „Framvinda sem snéri að því hvort að fyrirtækjum þyrfti að loka að hluta eða öllu leyti.“
Hann segir ríkisstjórnina hafa hvatt fyrirtæki til að setja starfsfólk á hlutabótaleiðina til að viðhalda ráðningarsambandi og að úrræðið hafi falið í sér að fólk var sett í hlutastarf í stað þess að vera sagt upp. Hjá Toyota í Kauptúni hafi hluti þess starfsfólks sem lækkaði í starfshlutfalli verið í 50 prósent starfi og hluti í 75 prósent starfi.
„Tk bílar greiddu þessu fólki laun í samræmi við það hlutfall sem það mætti til vinnu. Þetta fólk fékk síðan bætur frá Atvinnuleysistryggingasjóði að ákveðnu marki,“ segir Úlfar. Sjóðurinn sé fjármagnaður með tryggingagjaldi sem greiddur er af fyrirtækjum. Samkvæmt Úlfari hafi félagið greitt vel á fjórða hundrað milljónir í tryggingagjald á síðustu fimm árum.
Úlfar segir að félagið geti ekki greitt til baka fjármuni sem það aldrei fékk. „Að þessu sögðu, þá skil ég ekki hvernig við eigum að endurgreiða eitthvað sem að starfsfólkið okkar fékk greitt frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Tk bílar fékk enga greiðslu til sín og varð að sjálfsögðu af miklum tekjum þar sem að stór hluti starfseminnar er þjónusta sem að felur í sér útselda vinnu.“
Um leið og létt var á samkomutakmörkunum í maí fóru allir aftur í fullt starf og hafa verið síðan segir í svari Úlfars.
Nýting úrræðisins minnkaði með hertari skilyrðum
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að hlutabótaleiðin hafi verið frekar opið úrræði þegar það var sett á laggirnar. Skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins voru hert þegar úrræðið var framlengt og ríkari krafa var gerð um tekjuskerðingu fyrirtækja auk þess sem girt var fyrir það að vinnuveitendur gætu greitt sér arð, lækkað hlutafé, greitt óumsamda kaupauka eða keypt eigin bréf þangað til árið 2023.
Í síðari skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í desember kom fram að nýting hlutastarfaleiðarinnar hafi minnkað um 60% á milli maí og júní eftir að skilyrði fyrir nýtingu voru hert. Skýringuna mátti að hluta til rekja til hertari reglna, að hluta til vegna nýs úrræðis um greiðslu launa á uppsagnarfresti og að hluta til vegna þess að hjólin fóru að snúast í atvinnulífinu af aðeins meiri hraða.