Tilkynnt hefur verið um sjö tilvik kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis innan Orkuveitu Reykjavíkur (OR) síðustu fjögur ár. Í tveimur tilvikum var gerandinn starfsmaður verktaka. Tilvikin eru á tímabilinu apríl 2018 til apríl 2021 en síðan þá hefur ekkert atvik verið tilkynnt.
Þetta kemur fram í svari Orkuveitu Reykjavíkur við fyrirspurn Kjarnans.
Í einu tilviki lauk málinu með skriflegri áminningu og sátt þolanda og geranda. Í hinum tilvikunum öllum lauk málinu með starfslokum geranda, hvort sem um var að ræða verktaka eða starfsmann, að því er fram kemur í svarinu.
Gera vinnustaðagreiningu árlega
„Hjá OR samstæðunni er í gildi viðbragðsáætlun við einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Hún fylgir hér með svarinu. Viðbragðsáætlunin var unnin í samstarfi við Líf og sál sálfræðiþjónustu og í samráði við Vinnueftirlit ríkisins. Hún er endurskoðuð reglulega, síðast á yfirstandandi ári,“ segir enn fremur í svarinu.
Orkuveitan bendir á í svarinu að fyrirtækið geri ítarlega vinnustaðargreiningu árlega meðal allra starfsmanna fyrirtækjanna í samstæðunni. Þátttaka sé jafnan meiri en 95 prósent. Meðal annars er spurt hvort starfsmaður hafi orðið fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni. Niðurstöðurnar eru birtar opinberlega í ársskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur. Fram kemur í niðurstöðunum að 1 prósent starfsfólks sagðist hafa orðið fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni árið 2019 og 0,2 prósent í fyrra.