Delta-afbrigði kórónuveirunnar, sem áður var kennt við Indland, hefur orðið til þess að halda yfirvöldum landa heimsins á tánum. Sum hafa frestað afléttingu aðgerða vegna afbrigðisins og önnur hert takmarkanir á landamærum sínum á ný. Fullbólusettir eru almennt í mun betri stöðu en aðrir ferðalangar en bólusetningavottorð, jafnvel þótt þau séu samevrópsk, eru enn ekki ávísun á fullt ferðafrelsi. Þess skal getið að sóttvarnalæknir ráðleggur íbúum Íslands sem ekki eru full bólusettir eða með staðfesta fyrri sýkingu frá ferðalögum á áhættusvæði. Það á einnig við um börn. Öll lönd og svæði heims nema Grænland eru skilgreind sem áhættusvæði.
Það er allt annað en einfalt að fylgjast með stöðu þessara mála í heiminum enda oft gripið til aðgerða á landamærum með skömmum fyrirvara. Delta-afbrigðið hefur sýnt – og sannað – að það er meira smitandi en fyrri afbrigði og við því eru stjórnvöld víða um veröld nú að bregðast.
Þótt bólusetningar séu vel á veg komnar í flestum ríkjum Evrópu, svo dæmi sé tekið, er enn stór hluti fólks, aðallega ungs fólks, óbólusettur. Enn er því hætta á faraldri meðal þeirra. Þá hefur enn ekki tekist að útiloka að bólusettir geti smitast af veirunni og borið hana í aðra þótt allt virðist benda til þess að á því séu litlar líkur. Annað sem taka verður með í reikninginn er að bóluefni veita ekki alltaf fullkomna vörn. Og ekki er víst, eins og það er orðað á heimasíðu landlæknis, að bóluefnin veiti vörn hjá öllum sem fá bólusetningu.
Um 400 milljónum skammta af bóluefnum hefur þegar verið dreift innan Evrópusambandsins og EES. Rúmlega 60 prósent fullorðinna íbúa hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammtinn og um 40 prósent eru fullbólusett.
Staðan er allt önnur og verri víðast hvar í heiminum. Í Afríku nær hlutfall þeirra sem fengið hafa að minnsta kosti annan skammt bóluefna ekki 3 prósentum. Í nokkrum löndum álfunnar er talið að ný bylgja faraldursins sé við það að skella á.
Vegna alls þessa, Delta-afbrigðisins og misskiptingar í bólusetningum, má segja að nokkur ringulreið einkenni ferðatakmarkanir milli landa í augnablikinu. Sum ríki eru að herða aðgerðir á landamærum. Önnur að slaka á. Upplýsingarnar flæða um fjölmiðla og erfitt að henda nákvæmlega reiður á stöðunni á hverjum tíma. Því er mjög mikilvægt að fólk sem hyggur á ferðalög afli sér allra nýjustu upplýsinga áður en ferðir eru bókaðar og svo aftur áður en lagt er af stað.
60 prósent meira smitandi
Hið umtalaða Delta-afbrigði hefur herjað á Indland, Nepal, Indónesíu og fleiri lönd með alvarlegum afleiðingum. Bretland hefur einnig orðið illa úti og hefur af þeim sökum, þrátt fyrir víðtækar bólusetningar, lent á rauða listanum hjá mörgum öðrum ríkjum hvað ferðalög borgaranna varðar.
Sóttvarnastofnun Evrópu telur að Delta-afbrigðið sé allt að 60 prósent meira smitandi en önnur afbrigði sem greinst hafa til þessa. Meðal annars í þessu ljósi, og því að enn er víða langt í land að bólusetningahlutfall verði það hátt að hægt sé að tala um hjarðónæmi, er óttast að önnur bylgja faraldursins skelli á í Evrópu í haust. Andrea Ammon, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, segir að í lok ágúst megi gera ráð fyrir því að yfir 90 prósent smita sem greinist í álfunni verði af völdum Delta-afbrigðisins.
Til að bregðast við þessu hafa mörg Evrópulönd hert nú aðgerðir á sínum landamærum, sér í lagi gagnvart ferðamönnum frá þeim ríkjum þar sem afbrigðið er þegar útbreitt. Og listinn yfir þau lönd er síbreytilegur.
Þýskaland er gott dæmi þar um. Þar ákváðu stjórnvöld að grípa til þeirra ráðstafana að setja auknar takmarkanir á ferðalög fólks frá Portúgal og Rússlandi vegna útbreiðslu Delta-afbrigðisins. Lengri sóttkví við komuna var ein aðgerðin. Fyrir höfðu sambærilegar takmarkanir verið settar á ferðalög frá nokkrum öðrum löndum, s.s. Indlandi og Bretlandi. Hins vegar var horfið að hluta frá þessum aðgerðum að hluta fljótlega vegna þrýstings, m.a. frá Evrópusambandinu.
Almennt þurfa þeir sem eru óbólusettir og eru koma frá hættusvæðum að fara í sóttkví við komuna til Þýskalands, en flestir aðeins í fimm daga ef neikvæð niðurstaða fæst á COVID-prófi að þeim tíma liðnum.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að ríki Evrópusambandsins ættu að sameinast um aðgerðir til að sporna gegn útbreiðslu afbrigðisins skæða.
Gulur, rauður, grænn …
Enda var það hugmyndin. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur mælst til þess að bólusettum (frá ákveðnum löndum) sé leyft að ferðast að mestu hömlulaust til ríkja sambandsins. Þessi tilmæli hafa þó enn ekki raungerst almennt enda fylgdi þeim á sínum tíma sá varnagli að ef ný afbrigði kæmu fram þyrfti að vera hægt að bregðast hratt við og setja í bremsu á ný.
Enn geta bólusettir því átt von á að sæta ákveðnum takmörkunum – sér í lagi ef þeir eru að koma frá svæðum sem ekki eru skilgreind sem „græn“. Staða faraldurs í heimalandi er því enn lykilatriði þegar kemur að ferðafrelsi bólusettra.
Annað atriði sem skiptir máli þegar kemur að ferðalögum er hvaða bóluefni fólk hefur fengið. Flest miða ESB-ríki við lista yfir bóluefni sem Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt. Ákvörðunarvald hvað þessi mál varðar liggur hjá hverju aðildarríki ESB fyrir sig og ljóst að samflotið í framkvæmdinni, sem Merkel hefur mælst til að verði tekið upp, er að minnsta kosti ekki enn að fullu í höfn.
Hert og slakað
Stjórnvöld í Noregi hafa til að mynda ákveðið að fresta að mestu frekari afléttingum á landamærunum til að freista þess að koma í veg fyrir útbreiðslu Delta-afbrigðisins. Þeirra er nú ekki að vænta fyrr en í lok júlí eða byrjun ágúst.
Finnsk stjórnvöld hertu aðgerðir á landamærum sínum í vikunni. Skilyrði fyrir því að lönd geti talist „græn“, og minni hömlur þar með á ferðalögum þaðan, voru hert. Miðað við hinar nýju reglur teljast aðeins ellefu Evrópuríki „græn“.
Belgar eru að íhuga að herða reglur, m.a. fyrir ferðamenn frá Portúgal, þar sem sýkingum af völdum Delta-afbrigðisins hefur fjölgað ört síðustu daga.
Í Grikklandi er hins vegar önnur stefna uppi á teningnum. Forsætisráðherrann segir ekki þörf á hertum aðgerðum, jafnvel ekki frá svæðum þar sem Delta-afbrigðið er útbreitt. Hann segir að eina lausnin í baráttunni við hið nýja afbrigði sé að hraða bólusetningum.
Ferðalög til annarra heimsálfa en Evrópu gætu líka verið ákveðnum vandkvæðum bundin. Ástralía var fljót að skella í lás þegar Delta-afbrigðið hóf að dúkka upp. Þar hafa frá upphafi faraldursins strangar takmarkanir verið á landamærunum. Útgöngubann var sett á nýverið, m.a. í Sydney, vegna hópsýkinga.
Ísraelar sem tóku forystu í bólusetningum í byrjun árs en hefur átt í erfiðleikum með að sannfæra ungt fólk um kosti þess að fara í sprautu. Nú er Delta-afbrigðið mætt og farið að greinast í auknum mæli og því hefur aftur verið tekin upp grímuskylda innandyra auk annarra gamalkunnugra sóttvarnaaðgerða. Þetta var gert eftir að yfir 100 ný smit höfðu greinst daglega í fjóra daga samfleytt.
Í augnablikinu er staðan einna verst í Indónesíu þar sem útbreiðsla veirunnar hefur aukist skyndilega. Ferðamönnum hefur fjölgað verulega í ríkinu og með þeim hefur Delta-afbrigðið náð að stinga sér niður. Útgöngubann er á tveimur eyjum: Balí og Jövu.
Greiðari leið með þeim græna
Græni passinn svokallaði, stafrænt vottorð sem auðvelda á íbúum ESB og EFTA-ríkja að ferðast, var tekinn í notkun um mánaðamótin. Í hinum rafræna passa eru vistaðar upplýsingar um bólusetningar, vottorð um COVID-sýkingu og/eða niðurstöðu úr PCR-prófi. Ísland er eitt fjórtán landa sem taka þátt í sérstöku tilraunaverkefni með þessa samræmdu leið. Passinn er QR-kóði sem viðkomandi ferðamaður sýnir á landamærum. Hins vegar veitir hann ekki algjört ferðafrelsi og gæta þarf að því, áður en lagt er af stað í ferðalög, hvaða reglur gilda á áfangastað.
Ertu að íhuga ferðalag? Hér er upplýsingasíða Embættis landlæknis, hér er svo hægt að nálgast kort sem sýnir gildandi ferðatakmarkanir hvers lands fyrir sig. Hér er að finna kort ESB af litakóða hvers lands Evrópu fyrir sig. Hér er hægt að nálgast upplýsingar um Græna passann.