Íbúar og gestir Parísarborgar og hafa á síðustu dögum og vikum getað fylgst með uppsetningu á sköpunarverki hjónanna og tvíeykisins Jeanne-Claude og Christo. Listaverkið Sigurboginn, innpakkaður (e. L'Arc de Triomphe, Wrapped) er fyrsta stóra listaverkið úr smiðju þeirra hjóna sem er sett upp eftir andlát Christo.
Undirbúningur í París hefur staðið yfir frá því í júní en á sunnudag vann flokkur manna við það að umvefja sigurbogann með um 25 þúsund fermetrum af bláu og silfruðu endurvinnanlegu plastefni sem haldið er uppi með þremur kílómetrum af rauðu reipi. Formlegur opnunardagur verksins er í dag.
Ólíkt listaverkum sem skoða má í listasöfnum Parísarborgar þá þurfa gestir ekki að kaupa sér miða til þess að berja verkið augum og líkt og segir á heimasíðu Jeanne-Claude og Christo, þá eru vegfarendur hvattir til þess að skoða verkið í návígi og jafnvel þreifa á því.
Langur aðdragandi varð að uppsetningu verksins. Christo ræddi hugmyndina við stjórnendur Pompidou safnsins í París árið 2017. Þá var að hefjast undirbúningur að sýningu á verkum hjónanna í safninu sem haldin var árið 2020. Hjólin fóru að snúast og hugmyndin var samþykkt af Emmanuel Macron Frakklandsforseta snemma árs 2019.
Til stóð að Sigurboginn yrði sýndur umvafinn að hætti Christo og Jeanne-Claude í apríl í fyrra en kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn og verkefnið frestaðist töluvert. Í lok maí á síðasta ári andaðist Christo en hann hafði beðið samstarfsfólk sitt um að sjá til þess að verkefnið kláraðist enda um áratuga gamlan draum að ræða. Jeanne-Claude andaðist í nóvember árið 2009.
Hafa pakkað inn byggingum í rúm 50 ár
Þau Jeanne-Claude og Christo kynntust í París á ofanverðum sjötta áratug síðustu aldar. Í upphafi sjöunda áratugarins hófu þau að vinna við listaverk sem gerð voru fyrir almannarými og snemma kviknaði sú hugmynd að pakka byggingum inn. Christo vann til að mynda ljósmyndaverk þar sem Sigurboganum hefur verið skipt út fyrir einhvers konar pakka eða böggul snemma á ferli sínum, á árunum 1962 til 1963.
Það var hins vegar ekki fyrr en að þau hjónin fluttu til New York árið 1964 sem þau fóru að íhuga það alvarlega að pakka byggingum inn. Þau höfðu valið skýjakljúfa í borginni sem þau langaði mikið til að pakka inn og þau áttu í löngum samningaviðræðum við eigendur þeirra bygginga sem þau langaði að pakka inn. Alltaf strönduðu viðræðurnar og þeim var ítrekað neitað um leyfi til að pakka inn heilli byggingu.
Þau hafa þó pakkað inn byggingum frá því á sjöunda áratugnum en meðal fyrstu bygginganna sem þau pökkuðu inn var Kunsthalle Bern í Sviss áriði 1967. Þau öðluðust síðar heimsfrægð fyrir það að pakka inn mannvirkjum á borð við Pont Neuf í París og þinghúsið í Berlín, Reichstag.
Um 1000 manns koma að innpökkun Sigurbogans
Alla tíð fjármögnuðu Christo og Jeanne-Claude verkefni á borð við innpökkun Sigurbogans upp á eigin spýtur. Það gerðu þau með því að selja skissur, ljósmyndir, klippimyndir, líkön og annað slíkt. Sú var raunin þegar kom að fjármögnun þessa verkefnis en dánarbú Christo hefur fjármagnað verkefnið í París með sölu verka.
Sú fjármögnun hefur þurft að ganga vel en heildarkostnaður við innpökkun Sigurbogans er um 14 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega tveimur milljörðum króna. Vinna við uppsetningu verksins í París hófst um miðjan júlí en undirbúningur hafði þá staðið yfir í töluverðan tíma. Alls munu 1000 manns starfa á einn eða annan hátt við uppsetningu og svo niðurtöku þess sem hefst eftir rétt rúmlega tvær vikur en formlegur tími þessa listviðburðar er til 3. október.