Síminn hefur ákveðið að stefna Samkeppniseftirlitinu til að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá því í janúar þess efnis að félagið hafi brotið gegn sátt með því að bjóða betri viðskiptakjör við sölu á Enska boltanum til þeirra sem eru með Heimilispakka Símans.
Áfrýjunarnefndin staðfesti niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um að brotið hafi verið gegn sáttinni en lækkaði sektina sem lögð var á Símann verulega, úr 500 í 200 milljónir króna. Í niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar sagði að það væri mat hennar að brot Símans væri alvarlegt og að Símanum hafi ekki getað dulist að háttsemin kynni að fara í bága við ákvæði
Í stefnu Símans, sem Kjarninn hefur undir höndum og er dagsett 23. júní 2021, kemur fram að félagið telji niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar efnislega ranga og vill að hún verði felld úr gildi. Félagið vill enn fremur fá þær 200 milljónir króna sem það hefur þegar greitt í stjórnvaldssekt til baka með dráttarvöxtum.
Ætlað brot gegn sátt frá 2015
Forsaga málsins er sú að árið 2015 gerði Síminn sátt við Samkeppniseftirlitið um að tvinna ekki saman fjarskiptaþjónustu og línulegri sjónvarpsþjónustu. Haustið 2018 vann Síminn svo útboð um sýningarréttinn á Enska boltanum árið 2018 til þriggja ára og hefur sýnt leiki hans frá því ágúst 2019.
Í aðdraganda þess var stofnuð sérstök sjónvarpsstöð, Síminn Sport, sem sýna átti leiki úr ensku úrvalsdeildinni. Stök áskrift að henni var seld á 4.500 krónur. Á sama tíma var hins vegar greint frá því að allir áskrifendur að Sjónvarpi Símans Premium, sem voru þá þegar 35 til 40 þúsund, myndu fá aðgang að enska boltanum. Um leið var mánaðarverðið fyrir þá þjónustu hækkað úr fimm þúsund krónum í sex þúsund krónur.
Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að þorri viðskiptavina Símans, þ.e. nærri því 99 prósent þeirra sem keyptu Enska boltann/Símann Sport á kerfum fyrirtækisins, hefðu keypt sjónvarpsefnið í heildarþjónustu, þ.e. með Heimilispakkanum og/eða Sjónvarpi Símans Premium í stað þess að kaupa þjónustuna eina og sér. Þannig hafi verð fyrir Símann Sport/Enska boltann aðeins verið 1.000 krónur á mánuði þegar þjónustan var seld sem hluti af Heimilispakkanum og Sjónvarpi Símans Premium, en 4.500 krónur þegar hún var seld án þess að önnur þjónusta væri keypt samhliða.
Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var því sú að verðlagning Símans á Enska boltanum sem hluta af Heimilispakkanum hafi lagt stein í götu keppinauta fyrirtækisins og takmarkað möguleika þeirra til að laða til sín viðskiptavini.
Því hefði Síminn brotið gegn sáttinni sem gerð var 2015 með því að bjóða ólík viðskiptakjör við sölu á Enska boltanum á Símanum Sport, eftir því hvort hann var boðinn innan Heimilispakka Símans eða einn og sér í stakri áskrift.
Vegna þessa ætti Síminn að greiða 500 milljón króna sekt í ríkissjóð.
Margháttaðar ástæður taldar til
Síminn skaut þeirri niðurstöðu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti í byrjun árs niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um að brotið hafi verið gegn sátt, en að eftirlitið þyrfti að rannsaka nánar stöðu Símans á markaði að því er snerti þá háttsemi sem í ákvörðun eftirlitsins var talin brjóta gegn sáttinni frá 2015. Af þeim sökum var þeim þætti málsins vísað til nýrrar meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Síminn taldi þetta sýna að áfrýjunarnefndin hefði fellt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að hluta úr gildi. Í tilkynningu sem félagið sendi til Kauphallar Íslands í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar sagði: „Síminn fagnar því að stjórnvaldssekt sú er Símanum var gert að greiða sé lækkuð umtalsvert. Það sýnir að hið meinta brot á skilyrðum sem Símanum voru sett á fyrri árum var ekki með þeim hætti er Samkeppniseftirlitið úrskurðaði um.“
Í stefnu félagsins eru færðar fjölmargar málsástæður fyrir því að Síminn telji niðurstöðu Samkeppnisyfirvalda ekki halda. Í fyrsta lagi séu tugir þúsunda viðskiptavina Símans að kaupa sömu fjarskiptaþjónustu og er innifalin í Heimilispakkanum án þess að kaupa jafnframt Heimilispakkann eða þá sjónvarpsþjónustu sem sé innifalin í honum. Í öðru lagi sé óumdeilt að um 13 þúsund heimili séu með aðgang að ensku úrvalsdeildinni í línulegri dagskrá án þess að vera með Heimilispakkann. Sá fjöldi nær yfir þá sem kaupa þjónustuna í gegnum Símann sem staka þjónustu eða í gegnum önnur fjarskiptafyrirtæki, eins og t.d. Sýn. Í þriðja lagi sé gefi dreifing nýrra viðskiptavina Símans eftir að hann hóf sölu á aðgangi að Enska boltanum til kynna að verðlagning Heimilispakkans sé ekki slík að hún jafngildi skilyrði við kaup á fjarskiptaþjónustu sé jafnframt keypt sjónvarpsþjónusta.
Í fjórða lagi telur Síminn að sú verðlagning sem liggi til grundvallar Heimilispakkanum geti ekki verið slík að við kaup á fjarskiptaþjónustu sé það gert að skilyrði að sjónvarpsþjónusta fylgi með í kaupunum. Í fimmta lagi byggir Síminn á því að fella beri úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála úr gildi þar sem hún hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Í sjötta lagi telur Síminn að með stjórnvaldsúrlausnunum sem um ræðir hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga með svo alvarlegum hætti að óhjákvæmilegt sé að fella þær úr gildi.