Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins var snöggur að eyða umræðu um slaka einkunn sem flokkurinn fékk fyrir loftslags- og umhverfisstefnu sína í síðustu viku, er fréttamenn Ríkisútvarpsins spurðu hann út í málið í þættinum Forystusætinu í gærkvöldi.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk alls 21 stig af 100 mögulegum í þessu mati, Sólinni, sem var á vegum Ungra umhverfissinna og framkvæmt af þremur framhaldsnemum í umhverfis- og auðlindafræði út frá þeim stefnum flokkanna í umhverfis- og loftslagsmálum sem lagðar höfðu verið fram í síðustu viku.
Stjórnmálaflokkarnir fengu matskvarðann, sem settur var saman út frá tillögum meðlima Ungra umhverfissinna í nánu samstarfi við stjórn samtakanna og fjölda óháðra sérfræðinga, afhentan í vor. Síðan þá hafa fulltrúar allra flokka fundað með Ungum umhverfisinnum vegna þessa verkefnis.
„Gætt var að því að hver sá aðili sem að vinnunni kæmi væri ekki með tengsl innan stjórnmálaflokkanna og var fyllsta hlutleysis gætt við þróun kvarðans sem og við einkunnagjöfina. Nöfn flokka voru afmáð áður en stefna þeirra var metin og gætt að samræmi í einkunnagjöf með því að láta ólíkt matsfólk fara yfir og reikna fylgni milli svara þeirra, þ.e. áreiðanleika matsins,“ segir í umfjöllun um aðferðafræðina á vef verkefnisins, þar sem hægt er að kynna sér kvarðann og forsendur matsins.
Hnýtti í mælikvarðann
Í viðtalinu á RÚV í gærkvöldi var Bjarni spurður um það hvort stefna flokks hans í þessum málum væri nógu metnaðarfull í ljósi útkomunnar á kvarða Ungra umhverfissinna.
Í svari sínu hnýtti Bjarni í matskvarða Ungra umhverfissinna, gaf í skyn að forsendur matsins væru ekki góðar og fullyrti að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki fengið stig fyrir að hafa það markmið að Ísland yrði fyrsta land í heimi til að hætta að brenna olíu.
„Kannski fyrst varðandi svona einkunnagjöf, tökum dæmi úr þessari einkunnagjöf: Við [Sjálfstæðismenn] segjum, „við skulum vera fyrst í heimi til að hætta að brenna olíu, Íslendingar.“ Það fær núll stig í þessari einkunnagjöf vegna þess að við höfum ekki sett tölusett markmið. Ég held að þessi einkunnagjöf sé bara jafn góð og forsendurnar henni að baki,“ sagði Bjarni og minntist síðan ekki einu orði í viðbót á matskvarðann í svari sínu.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk þó sannarlega eitt stig af þeim 21 sem skiluðu sér í hús hjá flokknum í stigagjöfinni, fyrir einmitt það atriði að hafa í sinni stefnu markmið um jarðefnaeldsneytislaust Ísland fyrir 2050.
Bjarni virðist hafa farið dálkavillt
Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna, segir við Kjarnann að Ungir umhverfissinnar hafi tekið eftir þessum ummælum Bjarna og hnotið um þau, rétt eins og Staðreyndavakt Kjarnans.
„Bjarni Benediktsson virðist hafa farið eitthvað dálkavillt í kvarðanum okkar áður en hann fullyrti Forystusætinu á RÚV að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki fengið stig fyrir markmið sitt um að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust fyrst allra þjóða, en flokkurinn fékk vissulega fullt hús stiga fyrir það stefnumál,“ segir Tinna við Kjarnann.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Það er niðurstaða Staðreyndavaktar Kjarnans að Bjarni Benediktsson hafi farið með fleipur í Forystusætinu á RÚV, er hann ræddi um einkunnagjöfina sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk fyrir markmið sín um að Ísland hætti brennslu olíu fyrr en nokkur önnur þjóð.
Það áherslumál var, þvert á það sem Bjarni sagði, eitt af þeim atriðum sem stefna flokksins fékk stig fyrir.