Skjátími jókst mest meðal barna í yngstu bekkjum grunnskóla í kórónuveirufaraldrinum eða um 83 mínútur á dag að meðaltali. Þetta er meðal niðurstaða alþjóðlegrar rannsóknar á skjátíma. Að sögn rannsakenda er þessi aukning talin hafa haft slæm áhrif á mataræði barna og sjón þeirra sem og aukið kvíða og skapstyggð barna.
Mesta aukningin í skjátíma var á meðal barna á aldrinum sex til tíu ára en engu að síður mældist mikil aukning í öllum aldurshópum, þar á meðal hjá fullorðnum. Frá þessu er greint í frétt á vef the Guardian.
Skjátími fullorðinna jókst um tæpan klukkutíma á dag og skjátími unglinga, það er þeirra sem eru á aldrinum ellefu til 17 ára, jókst um 55 mínútur. Minnsta aukningin mældist hjá börnum undir fimm ára aldri, um 35 mínútur á dag.
Bitnar á heilsu bæði barna og fullorðinna
„Þessi rannsókn er sú fyrsta af sinni tegund til þess að taka kerfisbundið saman gögn úr ritrýndum greinum um aukningu á skjátíma í heimsfaraldrinum og áhrifunum sem aukningin hefur,“ er haft eftir Shahina Pardahan, prófessor og forstöðumaður rannsóknarstofnunar á sviði sjónar við Anglia Ruskin háskóla, í grein the Guardian. Hún er aðalhöfundur greinar sem fjallar um rannsóknina og birt var í eClinicalMedicine sem er hluti af útgáfu vísindaritsins Lancet.
„Með því að taka saman mikinn fjölda rannsókna fáum við mun nákvæmari mynd af skjátíma fólks og áhrif hans á heilsu þess. Líkt og með allar rannsóknir af þessari stærðargráðu, þá er einhver breytileiki í þeim rannsóknum sem við skoðuðum,“ segir Paradahan og bætir því við að rannsóknin bendi til þess að takmarka ætti skjátíma eins mikið og kostur er til þess að koma í veg fyrir slæm áhrif hans á til að mynda mataræði, svefn, geðheilbrigði og augnheilsu. Neikvæð áhrif aukins skjátíma mældust bæði hjá börnum jafnt sem fullorðnum.
Rannsóknin sem um ræðir greindi niðurstöður 89 rannsókna frá löndum á borð við Bandaríkin, Bretland, Ástralíu, Frakkland, Chile og Ísrael. Greiningin fólst í því að bera saman skjátíma fyrir heimsfaraldur kórónuveiru annars vegar og skjátíma í faraldri hins vegar og náði. Bæði var litið til skjátíma vegna vinnu og náms sem og til skjátíma vegna afþreyingar. Alls tóku 200 þúsund manns þátt í rannsóknunum 89.