Skýrsla um niðurstöðu stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á sölu á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka til 207 fjárfesta í lokuðu úboði fyrir 52,65 milljarða króna í mars síðastliðnum verður ekki tilbúin fyrir lok júnímánaðar líkt og boðað hafði. Þess í stað er búist við að hún verði tilbúin seint í júlí, fyrir verslunarmannahelgi, eins og staðan er í dag. Þetta er haft eftir Guðmundi Björgvini Helgasyni ríkisendurskoðanda á vef Fréttablaðsins.
Skýrslan er gerð að beiðni Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, en hann bað formlega um gerð hennar 7, apríl síðastliðinn og Ríkisendurskoðun samþykkti að taka að sér verkið í kjölfarið. Í bréfi ráðuneytisins kom fram að umræða hafi skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar.
Ríkisendurskoðun ákvað daginn eftir, þann 8. apríl, að verða við beiðninni.
Nýr ríkisendurskoðandi kosinn í miðju úttektarferli
Það flækti málin að Alþingi átti eftir að kjósa nýjan ríkisendurskoðanda í stað Skúla Eggerts Þórðarsonar, sem ákvað að hætta sem slíkur og verða ráðuneytisstjóri í nýju viðskipta- og menningarráðuneyti. Til stóð að kjósa nýjan ríkisendurskoðanda á þingi fyrir maílok.
Því var sú staða uppi að Ríkisendurskoðun var falið að ráðast í úttekt á einu umdeildasta þjóðfélagsmáli síðari ára, þar sem 88,4 prósent þjóðarinnar telja samkvæmt könnun Gallup að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað og 83 prósent þjóðarinnar er óánægt með framkvæmdina, án þess að búið væri að skipa nýjan ríkisendurskoðanda.
Guðmundur Björgvin var starfandi ríkisendurskoðandi á þessum tíma og einn þeirra tólf sem sóttist eftir embættinu.
Það frestaðist að ganga frá kosningu ríkisendurskoðanda og þann 8. júní hafði Kjarninn eftir Guðmundi Björgvini að til stæði að skila skýrslunni um Íslandsbankasöluna til Alþingis í síðustu viku júnímánaðar. Daginn eftir, þann 9. júní, var Guðmundur Björgvin kosinn nýr ríkisendurskoðandi.
Nú, tólf dögum síðar, er ljóst að birting skýrslunnar frestast um að minnsta kosti mánuð og gæti litið dagsins ljós í lok næsta mánaðar. Guðmundur Björgvin segir við Fréttablaðiðað það hafi alltaf verið viðbúið að það gæti teygst á vinnunni við gert úttektarinnar. „Þetta er í sjálfu sér ekkert einfalt mál. Það þarf alltaf að huga að þeim upplýsingum sem þú hefur, svo þarf að afla upplýsinga og hvert leiða gögnin þín og þar fram eftir götunum. Þannig að það var alltaf viðbúið að það gæti teygst eitthvað á þessu. Við erum enn að vinna á fullu í þessu og ætlum þá að reyna klára þetta í júlí. Það er útséð með að við náum að klára þetta núna í júnímánuði.“
Til stendur að kalla Alþingi saman í kjölfar birtingar á skýrslunni til að ræða hana, en það fór í sumarfrí í síðustu viku. Júlímánuður er langstærsti sumarleyfismánuðurinn á Íslandi og þjóðfélagið allt oftar en ekki í hægagangi á meðan að á honum stendur.
Nær allir landsmenn vildu rannsóknarnefnd
Sú ákvörðun Bjarna Benediktssonar að fela Ríkisendurskoðun að gera úttekt á bankasölunni var harðlega gagnrýnd af sumum stjórnarandstöðuþingmönnum, sem vildu láta skipa rannsóknarnefnd Alþingis með mun víðtækari heimildir til að fara ofan í saumana á sölunni.
Í grein sem Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, birti á Kjarnanum í apríl sagði meðal annars: „Það má vel vera að Ríkisendurskoðun sé ágætlega til þess fallin að yfirfara ákveðna þætti er varða söluna á Íslandsbanka. En ef ætlunin er að rannsaka atburðina frá mörgum hliðum, lagalegum, siðferðilegum, pólitískum og stjórnsýslulegum, og „velta við öllum steinum“ eins og jafnvel stjórnarliðar kalla eftir er hins vegar ljóst að rannsóknarheimildir Ríkisendurskoðunar duga skammt og verkefnið fellur beinlínis illa að starfssviði stofnunarinnar. Þá er óheppilegt að úttektin fari fram samkvæmt sérstakri beiðni frá fjármála- og efnahagsráðherra, sama manni og hefur forgöngu um bankasöluna sem er til athugunar.“
Í könnun sem Gallupbirti seint í apríl kom fram að 73,6 prósent landsmanna taldi að það ætti að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent taldi nægjanlegt að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölunni. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skáru sig úr þegar kom að þessu, en 74 prósent þeirra voru á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægði til. Tæplega þriðjungur kjósenda hinna stjórnarflokkanna var á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þyrfti rannsóknarnefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka voru nær allir á því að rannsóknarnefnd sé nauðsynleg.