Sjö smit greindust í gær og voru þau öll innan sama afmarkaða hóps. Allir voru utan sóttkvíar. Útlendingastofnun staðfestir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að smitin hafi komið upp meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd.
„Þeir sem hafa greinst smitaðir dvelja í húsnæði á vegum Hafnarfjarðarbæjar og þiggja þjónustu frá sveitarfélaginu á grundvelli samnings við Útlendingastofnun,“ segir í svarinu.
Enn fremur kemur fram hjá stofnuninni að smitrakningateymi almannavarna og Hafnarfjarðarbær grípi til allra nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu smitanna.
Hópurinn viðkvæmur
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bindur vonir við að smitið sé afmarkað hjá þessum hópi og að vel gangi að komast fyrir það, að því er fram kemur í frétt RÚV um málið. Ekki er ljóst hvernig fólkið smitaðist en hægt er að rekja smitin til smits sem kom upp í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði fyrir nokkru, samkvæmt RÚV. Ekki sé ljóst hvernig sú veirutegund komst inn í landið, hún hafi ekki greinst á landamærunum.
Hann segir í samtali við Fréttablaðið að honum hafi verið tjáð að stór hluti af þessum hópi vildi ekki bólusetningu. Um sé að ræða fólk með mismunandi bakgrunn og úr mismunandi menningarheimum.
„Svo kann að vera að fólk líti svo á að bólusetning muni breyta þeirri stöðu sem hælisleitandi og þannig margt sem spilar þarna inn í. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því en er sagt þetta af þeim sem þekkja til,“ segir Þórólfur við Fréttablaðið.
Þegar hann er spurður hvers vegna hópurinn sé í forgangi hvað varðar bólusetningu þá segir hann að það sé meðal annars vegna þess að upp hefði komið hópsýking meðal hælisleitenda á síðasta ári og þar sem hópurinn sé viðkvæmur og þurfi á félagsþjónustu að halda.
Boðaðir í bólusetningu í dag og eftir helgi
Kjarninn greindi frá því í desember í fyrra að COVID-19 smit hefðu komið upp meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd í desember á síðasta ári. Um var að ræða einstaklinga sem dvöldu í þjónustu Hafnarfjarðarbæjar í húsnæði með íbúðum fyrir fjölskyldur. Þá var aðstaða Útlendingastofnunar á Grensásvegi gagnrýnd en þá töldu þeir sem þar dvöldu að stofnunin bryti
Samkvæmt svörum frá Útlendingastofnun voru umsækjendur um alþjóðlega vernd sem dvelja í Reykjanesbæ boðaðir í bólusetningu í dag en þeir sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu hafa verið boðaðir í bólusetningu eftir helgi. Tekið er fram í svarinu að bólusetningar séu á forræði heilbrigðisyfirvalda og hafi Útlendingastofnun engar upplýsingar um hvernig þær hafa gengið.