Miklar sprengjur mátti sjá springa í útjaðri Kænugarðs, höfðuðborgar Úkraínu í morgun. Brak, glæður og ryk féllu til jarðar í nágrenninu. Annað myndefni, sem m.a. New York Times hefur birt, virðist sýna tveimur loftskeytum skotið á loft rétt utan við höfuðborgina. Sprengjubrot hæfði byggingu almennra borgara. Borgarstjórinn skrifaði á Twitter að þrír hefðu særst þar af einn lífshættulega. Húsið stendur í björtu báli og hætta er á að það hrynji.
„Hræðileg eldflaugaárás Rússa á Kænugarð,“ skrifaði úkraínski utanríkisráðherrann, Dmytro Kuleba, á Twitter í morgun. Borgarbúar hefðu ekki upplifað neitt sambærilegt síðan í seinna stríði árið 1941 er nasistar Þýskalands gerðu árás. „Úkraína sigraði þá hið illa og mun gera slíkt hið sama núna. Stöðvum Pútín.“
Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, talaði hins vegar um að „hermdarverkahópar“ væru komnir inn í Kænugarð í ávarpi snemma í morgun sem bendir til að háskaleg staða hafi þegar skapast. Herir Rússa eru hins vegar sagðir nálgast borgina.
Zelensky segir að 130 Úkraínumenn hefðu fallið í gær, á fyrsta degi innrásarinnar. Einnig hefur nú komið fram að Rússar hafi hertekið hið yfirgefna kjarnorkuver í Chernobyl og eyju í Svartahafi. Fullorðnir karlmenn hafa undir herlögum í Úkraínu verið kvaddir til þjónustu við herinn og hefur að því er fram kemur í Washington Post verið bannað að yfirgefa landið.
Árás Rússa hefur nú staðið í sólarhring. Sótt var að Úkraínu úr þremur áttum, m.a. yfir landamæri Hvíta-Rússlands og frá Krímskaga.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir árásina viðbragð við hjálparbeiðni frá hópum aðskilnaðarsinna í austurhéruðum Úkraínu. Rússar hafa stutt hópana með ráðum og dáð undanfarin ár og segir Pútín stjórnvöld í Úkraínu hafa farið fram með offorsi og þjóðernishreinsunum gegn íbúum héraðanna. Í frétt New York Times kemur fram að ekkert bendi til þess að þessar alvarlegu ásakanir Pútíns eigi við rök að styðjast. Í ávarpi í gær, um það leyti sem árásirnar hófust, talaði hann um „afnasistavæðingu“. Hann hefur líka sagt að hugmyndin um ríkið Úkraínu sé skáldskapur.
Úkraína er hvorki í Evrópusambandinu né NATO en hefur sóst eftir því og hefur notið stuðnings vesturveldanna, bæði fjárhagslegs og hernaðarlegs, í deilum við rússnesk stjórnvöld undanfarin ár. Pútín lítur á þessa þróun hins pólitíska landslags í næsta nágrenni Rússlands sem ógn.
Fjandskapur milli stjórnvalda í ríkjunum tveimur hefur farið vaxandi frá árinu 2014 er rússneskir hermenn fóru yfir landamæri Úkraínu. Þá hafði uppreisn átt sér stað í Úkraínu og forseti vinveittur Rússum var farinn frá völdum og í stað hans kominn forseti sem hallaði sér til vesturveldanna. Krímskagi, sem tilheyrt hafði Úkraínu, var innlimaður í sambandsríkið Rússland, og hreyfing aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu tvíefldist með stuðningi Rússa.
Samið var um vopnahlé árið 2015 en ólga hefur allan tímann verið til staðar. Síðustu mánuði hefur hún stigmagnast og miklir herflutningar átt sér stað að landamærunum. Er Pútín viðurkenndi sjálfstæði tveggja austurhéraða Úkraínu sem sjálfstæð alþýðulýðveldi 21. febrúar, var flestum farið að verða ljóst í hvað stefndi. „Sérstök hernaðaraðgerð“, líkt og Pútín kallar innrásina, hófst í gærmorgun með árás á mörg svæði í Úkraínu. „Allsherjarinnrás“ sagði utanríkisráðherra landsins.
Evrópusambandið og Bandaríkin og miklu fleiri hafa fordæmt árásirnar og hafa hert viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, m.a. á banka- og olíugeirann. Kínversk stjórnvöld hafa hins vegar neitað að kalla það sem á gengur „innrás“.
Forseti Úkraínu sagði í ávarpi í morgun að landið væri eitt á báti í orrustunum við Rússa. „Við stöndum ein í því að verja land okkar. Hver mun berjast við hlið okkar? Ég verð að vera hreinskilinn, ég sé engan gera það.“