Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvort honum fyndist ekkert athugavert við það að hann sæti í þessu embætti á meðan Samherji „stundar sínar fordæmalausu árásir á alla sem voga sér að gagnrýna framgöngu fyrirtækisins“. Kristján Þór brást illa við fyrirspurninni og gagnrýndi þingmanninn fyrir að „vanda um siðferði annarra þingmanna“.
Þingmaðurinn hóf fyrirspurn sína á því að vísa í fréttaflutning Kjarnans og Stundarinnar þar sem upplýst hefði verið að starfsmenn Samherja hefðu „með vitund og vilja framkvæmdastjóra Samherja staðið í njósnum um rithöfunda, stjórnarfólk í samtökum gegn spillingu, plottað um hvernig megi hræða vitni frá því að vitna gegn þeim í sakamáli og farið í herferðir gegn fjölmiðlafólki bæði hér og í Færeyjum. Þar að auki reyndust skæruliðar Samherja hafa áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og prófkjöri Sjálfstæðismanna þar sem leitað er að arftaka hæstv. ráðherra í oddvitasæti. Allt þetta gerist auðvitað í kjölfarið á uppljóstrun Kveiks um verulega vafasama viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar sem nú eru til rannsóknar í minnst fjórum löndum og til meðferðar fyrir dómstólum í Namibíu.“
Rifjaði Þórhildur Sunna það upp að ráðherrann hefði hringt í Þorstein Má Baldursson, aðaleiganda Samherja, til að spyrja hvernig honum liði eftir að Kveiksþátturinn frægi fór í loftið. Sagði hún að símtalið hefði vakið furðu margra og hefði ráðherrann þurft að útskýra hvað vakti fyrir honum sem hann gerði með eftirfarandi hætti í Kastljósi stuttu síðar: „Ef sjávarútvegsráðherra hefur ekki áhyggjur af því ef þetta stóra fyrirtæki er ekki að koma fram með þeim hætti sem menn telja eðlilegt þá finnst mér bara sjálfsagður hlutur að ýta á eftir því að það standi við þær skuldbindingar sem það hefur gagnvart samfélaginu.“
Spurði hún því með vísan í þessi orð ráðherrans hvort hann hefði áhyggjur af þeirri áróðurs- og rógsherferð sem fyrirtækið hefði rekið að undanförnu gegn fjölmiðlum, félagasamtökum og jafnvel nánum samstarfsmönnum hans á þingi. „Telur hæstvirtur ráðherra að Samherji standi við þær skuldbindingar sem fyrirtækið hefur gagnvart samfélaginu eða ætlar hann að ýta á eftir því? Ætlar ráðherra að bregðast við og þá hvernig?“
Málið ekki borið inn á borð ráðherra
Kristján Þór svaraði og sagðist vilja taka það strax fram að fyrstu viðbrögð hans við hinu svokallaða Samherjamáli og Namibíuskjölunum þegar það kom upp, hefðu verið þau að gera kröfu um að forsvarsmenn fyrirtækisins stigju fram og gerðu hreint fyrir sínum dyrum. „Það voru mín fyrstu viðbrögð og mér þykir það eðlilegt í ljósi þeirrar stærðar og mikilvægis sem þetta fyrirtæki hefur og hefur haft í íslenskri sjávarútvegssögu.“
Sagðist hann hafa áhyggjur af því ef það væri eitthvað óeðlilegt í gangi, með hvaða hætti fyrirtæki blanda sér í stjórnmálabaráttu einstakra stjórnmálaflokka, verkalýðsfélaga og svo framvegis.
„Einstaklingum er þetta að sjálfsögðu fullkomlega heimilt hvar og hvenær sem þeir kjósa og vilja. En ef fyrirtæki taka með einbeittum hætti ákvörðun um að fara að beita sér með slíkum hætti er það að allra mati og flestra mati ekki ásættanlegt. Að því leyti til get ég tekið undir áhyggjur háttvirts þingmanns af því að ef það er að verða lenska að fyrirtæki sem þykir að sér sótt fari að beita sér með þeim hætti sem þar um ræðir.
Að öðru leyti hefur þetta mál ekki borið inn á mitt borð. Eins og ég hef áður nefnt, meðal annars á opnum fundi með háttvirtum þingmanni haustið 2019, þekki ég að sjálfsögðu fullt af starfsfólki Samherja og hef ekkert nema gott eitt um það að segja og hef átt við það hin bestu samskipti alla tíð,“ sagði ráðherrann.
Spurði hvort ráðherra gæti setið áfram í embætti
Þórhildur Sunna sagðist ekki vera að spyrja hann „um neina lensku“. Hún væri að spyrja um tilgreint dæmi sem fyrir lægi um afskipti, um óeðlileg afskipti Samherja af blaðamönnum, stéttarfélögum, prófkjöri og samfélagssáttmálanum.
Vitnaði hún aftur í orð ráðherrans úr Kastljóssviðtalinu forðum þar sem hann sagði: „Hvað yrði sagt ef ráðherra sjávarútvegsmála hefði yfir höfuð enga skoðun á því að þetta stóra fyrirtæki sem allir hafa taugar til, ef hann reyndi ekki að ýta á það að menn svöruðu ekki þeim ávæningi sem borinn yrði á þá og væri í gangi?“
Sagðist hún velta því fyrir sér hvað ætti að segja við þessu. „Hvað eigum við að segja um sjávarútvegsráðherra sem hefur ekkert um þetta risavaxna mál að segja sökum æpandi vanhæfis? Finnst hæstvirtum ráðherra virkilega ekkert athugavert við það að hann sitji í þessu embætti á meðan Samherji stundar sínar fordæmalausu árásir á alla sem voga sér að gagnrýna framgöngu fyrirtækisins? Setur það embættið ekki niður að hafa þar mann sem getur ekki beitt sér, getur ekki tjáð sig með neinum markverðum hætti um framgöngu fyrirtækisins?“ spurði hún.
Gagnrýndi þingmanninn fyrir að „vanda um siðferði annarra þingmanna“
Kristján Þór steig aftur í pontu og sagðist áður hafa farið yfir hæfi sitt til að taka á málefnum Samherja, meðal annars með Þórhildi Sunnu. „Sem fer nú ekki mjög vel að vera að vanda um siðferði annarra þingmanna. Þetta er fyrsti og eini þingmaðurinn sem hefur fengið ákúrur fyrir það að brjóta þær siðareglur sem Alþingi sjálft hefur sett sér. Fyrsti og eini þingmaðurinn sem hefur fengið þá ákúru.
Þannig að ég mótmæli því að menn beri ekki eitthvert skynbragð á hæfi sitt til að takast á við mál sem koma upp, hvort heldur sem það varðar Samherja eða einhver önnur fyrirtæki. Það geri ég, og ég lýsi því yfir hátt og í heyranda hljóði á opnum fundi nefndarinnar með hvaða hætti ég met hæfi mitt hverju sinni þegar slík mál koma upp,“ sagði hann að lokum.
Þess skal getið að Þórhildur Sunna er ekki sú eina sem brotið hefur siðareglur að mati siðanefndar Alþingis en Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hafa einnig brotið fyrrnefndar reglur.