Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, hefur lagt fram fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um lagaheimildir Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME).
Í fyrirspurninni, sem er í þremur liðum spyr hún Bjarna í fyrsta lagi hvort hann telji að FME hafi lagaheimildir til að rannsaka embættisfærslu fjármála- og efnahagsráðherra, en hann fer með málefni eftirlitsins. Í öðru lagi vill hún fá að vita hvort eftirlitið hafi einhverjar heimildir til að rannsaka ákvarðanir og ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í þriðja lagi spyr Þorbjörg hvort FME hafi að lögum einhverjar heimildir til að rannsaka starfsemi Bankasýslu ríkisins.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt fyrir viku síðan. Að mati stofnunarinnar voru annmarkar söluferlisins fjölmargir sem lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Þar segir meðal annars að ljóst megi vera að „orðsporðsáhætta við sölu opinberra eigna var vanmetin fyrir söluferlið 22. mars af Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og þingnefndum sem um málið fjölluðu í aðdraganda sölunnar.“ Hægt hefði, að mati Ríkisendurskoðunar, verið hægt að fá hærra verð fyrir eignarhlut ríkisins en ákveðið var að selja á lægra verði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Þá hafi huglægt mat ráðið því hvernig fjárfestar voru flokkaðir, en útboðið var lokað með tilboðsfyrirkomulagi og einungis 207 fengu að kaupa hlut í því, samtals fyrir 52,65 milljarða króna. Söluverðið var 4,1 prósent undir dagslokagengi bréfa í Íslandsbanka.
Ekki tæmandi rannsókn á sölunni
Í skýrslunni kemur fram að stjórnsýsluúttektin sé ekki tæmandi rannsókn á sölunni á Íslandsbanka. Þar er ekki tekin afstaða til þess hvort réttmætt hafi verið að selja hlut ríkisins í bankanum á þeim tíma sem það var gert eða til þeirra 207 aðila sem fengu að kaupa.
Þá er ekki tekin afstaða til þess hvort beita hafi átt annarri söluaðferð né lagt mat á hvort vinnubrögð umsjónaraðila söluferlisins, söluráðgjafa og söluaðila, hafi verið í samræmi við lög og gildandi reglur. Þar með talið er hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum, en fyrir liggur að alls 59 aðilar fengu að kaupa fyrir minna 30 milljónir króna í útboðinu. „Það síðastnefnda sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands,“ segir í skýrslunni en það hefur verið með ákveðna anga sölunnar til rannsóknar.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er meðal annars verið að skoða hlutabréfaviðskipti í aðdraganda útboðsins á tíma þar sem fjárfestar áttu ekki að vita að sala á hlut í Íslandsbanka væri yfirvofandi.
Stjórnarliðar vilja ekki rannsóknarnefnd
Fjölmargir stjórnarandstöðuþingmenn kölluðu í vor eftir því að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir söluferlið, en slík nefnd hefur víðtækari heimildir. Því var hafnað af stjórnarflokkunum en margir þingmenn þeirra sögðu að þeir myndu styðja skipun rannsóknarnefndar ef spurningum væri ósvarað eftir að Ríkisendurskoðun lyki sinni vinnu.
Kröfur um skipun rannsóknarnefndar hafa verið endurteknar eftir birtingu skýrslu Ríkisendurskoðunar, og þá sérstaklega bent á þá fleti sem stofnunin telur sig ekki hafa lagaheimild til að svara. Meðal þess sem rannsóknarnefnd getur gert er að gefa álit sitt á stjórnsýslu ráðherra án þess að meta ábyrgð hans á grundvelli laga um ráðherraábyrgð.
Engin stjórnarþingmaður hefur stutt skipun rannsóknarnefndar eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt og Katrín Jakobsdóttir forrsætisráðherra hefur sagt að hún telji ekki ástæðu til að meta hvort skipa eigi rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir söluferlið fyrr en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um skýrsluna.
Talið er að Fjármálaeftirlitið muni opinbera niðurstöður rannsóknar sinnar á söluferlinu í janúar.