„Hvernig má það vera að árið 2022 geti dómsmálaráðherra talið að lausnin við afbrotahegðun felist í því að fara í stríð?“ spurði Eva Sjöfn Helgadóttir, varaþingmaður Pírata, á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins.
„Miðað við allt sem vitað er um hegðun er ótrúlegt að því sé haldið fram að það sé einhver lausn fólgin í því að fara í stríð. Stríð leysir engin vandamál, það býr til fleiri ófyrirséð vandamál og magnar núverandi vandamál upp.“
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra boðar stríð gegn skipulagðri glæpastarfsemi með átaki sem lögreglan mun ráðast í fljótlega. Jón greindi frá stríðsyfirlýsingunni í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun. Tilefnið er hnífstunguárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club á fimmtudag þar sem hópur grímuklæddra manna réðst inn á staðinn og stakk tvo menn ítrekað.
Hyggst mæla fyrir frumvarpi um forvirkar rannsóknarheimildir í næstu viku
Frumvarp dómsmálaráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og vopnaburð var afgreitt úr ríkisstjórn á fundi hennar í morgun. Ráðherra segir samstöðu um málið innan ríkisstjórnarinnar og vonast hann til þess að hann geti mælt fyrir frumvarpinu á Alþingi í næstu viku.
Jón segir í samtali við RÚV að með frumvarpinu sé verið að færa heimildir lögregluyfirvalda nær því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. „Skipulögð brotastarfsemi og ógn gagnvart ríkinu eða hryðjuverkastarfsemi hún virðir engin landamæri og krefst mjög náins samstarfs á milli lögregluembætta í ólíkum löndum,“ segir Jón í samtali við RÚV.
Vandinn ekki leystur með að beita meiri hörku
„Stríð gegn skipulagðri brotastarfsemi, stríð gegn fíkniefnum, stríð gegn jaðarsettu fólki. Dómsmálaráðherra lýsir yfir stríði. Stríði á hendur einstaklingum sem kerfið og samfélagið hefur brugðist ítrekað,“ sagði Eva Sjöfn á þingi í dag.
Alvarleg ofbeldisbrot hjá ungu fólki og aukning þeirra verður ekki leyst með auknum vopnaburði og beitingu vopna að mati Evu Sjafnar. „Það leysist ekki með því að beita meiri hörku. Þvert á móti. Það þarf að horfa á stóru myndina og leysa vandann með því að setja miklu meira fjármagn, kraft og vilja inn í velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið svo hægt sé að sinna einstaklingum sem eru hjálparþurfi á réttan hátt.“
Alvarleg ofbeldisbrot unglinga og barna hafa aukist síðastliðinn áratug og segir Eva Sjöfn að greinilega sé eitthvað að í kerfinu. „Við niðurgreiðum ekki sálfræðiþjónustu, við hrekjum sálfræðinga úr heilsugæslunum. Barna- og unglingageðdeild annar ekki neyðinni. Velferðarkerfið er í molum og úrræðaleysið er algjört þegar kemur að ungu fólki með flókinn hegðunar- og geðvanda.“
Dómsmálaráðherra vill hella olíu á eldinn með enn einu stríðinu
Hún segir dómsmálaráðherra vera á rangri leið. „Ríkisstjórnin þarf að horfast í augu við þennan vanda og laga hann strax. Velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið öskrar á aðstoð. En nei segir dómsmálaráðherra og ríkisstjórnin. Þau vilja heldur hella olíu á eldinn og stigmagna vopnavæðingu enn frekar, enn hraðar, með enn einu stríðinu.“
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir stríðsyfirlýsingu dómsmálaráðherra gegn skipulagðri glæpastarfsemi vera stríð gegn fólki sem fær ekki viðunandi aðstoð. Og fyrst að svo virðist vera sem nóg fjármagn sé til hjá dómsmálaráðherra til að fara í stríð gegn fólki þá hljóti að vera til peningur til að hjálpa fólki.
„Ofbeldi verður nefnilega ekki til í tómarúmi. Áföll ganga í erfðir og valda hringrás sem endar ekki nema gripið sé inn í með aðstoð heilbrigðiskerfisins. Ofbeldi getur nefnilega af sér ofbeldi og stríð gegn ofbeldi er ekki svarið, svarið er í heilbrigðiskerfinu hjá heilbrigðisráðherra,“ sagði Halldóra í fyrirspurn sinni til Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra í gær þar sem hún spurði hann hvort hann ætli að tryggja raunverulegt forvarnarstarf þannig að hægt verði að koma í veg fyrir harmleiki framtíðarinnar.
Willum svaraði með því að benda á að þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta í heilsugæslu hafi verið styrkt um allt land.
Eva Sjöfn segir lausnina felast í því að sýna raunverulega mannúð og aðgerðir sem skila raunverulegum árangri. „Aukið ofbeldi og jaðarsetning skilar engum árangri.“