Evrópa þarf að búa sig undir að hálf milljón dauðsfalla vegna COVID-19 muni eiga sér stað þar til í febrúar. Þetta sagði Hans Kluge, yfirmaður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu, á blaðamannafundi í gær. Hann telur skýringuna á uppsveiflu faraldursins í álfunni þá að of fáir hafi enn verið bólusettir. „Við verðum að breyta nálgun okkar,“ sagði hann, „úr því að bregðast við bylgjum í að koma í veg fyrir að þær eigi sér stað.“
Hlutfall bólusettra er enn mjög misjafnt eftir löndum í Evrópu. Um 80 prósent Spánverja eru t.d. þegar búnir að fá tvær sprautur og því fullbólusettir en í Frakklandi og í Þýskalandi er hlutfallið 66-68 prósent. Það er svo enn lægra í öðrum löndum, m.a. í Austur-Evrópu. Þá eru aðeins 32 prósent Rússa fullbólsettir.
Í dag greindust 37 þúsund ný tilfelli í Þýskalandi og hafa þau aldrei verið fleiri á einum degi. Nýgengi smita er um 170. Heilbrigðisyfirvöld óttast að þessi fjórða bylgja faraldursins í landinu eigi eftir að draga marga til dauða og að álag á sjúkrahúsin verði gríðarlegt. 154 dauðsföll vegna COVID-19 voru skráð síðasta sólarhringinn. Á jafnlöngum tíma fyrir viku voru þau 120. „Ef við grípum ekki til fyrirbyggjandi aðgerða núna þá mun þessi fjórða bylgja valda enn meiri þjáningum,“ hefur BBC eftir Lothar Wieler sem fer fyrir þýsku Smitsjúkdómastofnuninni, RKI. Hann bendir á að þrjár milljónir Þjóðverja eldri en sextíu ára hafi ekki enn verið bólusettar.
Hættuástand í Rússlandi og Úkraínu
Það er hins vegar í Rússlandi þar sem yfirstandandi bylgja er að hafa afdrifaríkustu afleiðingarnar. Dauðsföllum fjölgar hratt og á síðustu sjö dögum hafa yfir 8.100 látist vegna COVID-19. Í Úkraínu er ástandið einnig mjög alvarlegt og þar hafa um 3.800 dauðsföll vegna sjúkdómsins orðið á einni viku. Í báðum þessum ríkjum er bólusetningarhlutfall lágt.
Í Rúmeníu og Ungverjalandi er bylgjan einnig að hafa skelfilegar afleiðingar. Þar hefur fjöldi smita tvöfaldast á nokkrum dögum og á síðasta sólarhring hafa 590 dauðsföll vegna COVID verið skráð í Rúmeníu.
Í Danmörku og Noregi hefur smitum einnig fjölgað hratt. Þau voru yfir 1.500 í dag en um 500 fyrir viku síðan í Noregi.
Tilfellum fjölgað um 55 prósent á fjórðum vikum
Í Hollandi er bylgjan, þrátt fyrir hátt bólusetningarhlutfall þjóðarinnar, að stórauka álag á sjúkrahús. Innlögnum vegna sjúkdómsins fjölgaði um 30 prósent á einni viku. Stjórnvöld ætla að setja grímuskyldu á að nýju sem og fjarlægðarmörk á ýmsum stöðum.
Kluge sagði bylgjuna sem nú er að rísa í mörgum Evrópulöndum einnig eiga rætur í því að stjórnvöld hafi aflétt sóttvarnaaðgerðum. Í sumum ríkjum hafa þær verið afnumdar alfarið.
Á blaðamannafundinum kom fram að tilfellum af COVID-19 hefði fjölgað um 55 prósent í Evrópu á aðeins fjórum vikum „þrátt fyrir að nóg sé til af bóluefni og öðrum verkfærum,“ sagði Maria Van Kerkhove á fundinum sem fer fyrir tæknilegum úrlausnum vegna faraldursins hjá WHO í Evrópu. Læknirinn Mike Ryan segir að það sem Evrópa sé nú að ganga í gegnum sé „viðvörunarskot fyrir heimsbyggðina“.