Teymi taílenskra vísindamanna segist hafa „skotheldar“ sannanir fyrir því að heimilisköttur hafi smitað manneskju af SARS-CoV-2, veirunni sem veldur COVID-19. Þar með eru kettir komnir á lista yfir dýr sem geta borið smit í menn. Á þeim lista eru fyrir hamstrar, minkar og dádýr.
Frá þessu er greint í frétt á vef vísindatímaritsins Nature.
„Við höfum vitað af þessum möguleika í tvö ár,“ segir Angela Bosco-Lauth, sérfræðingur í smitsjúkdómum við við ríkisháskólann Colorado. Hún telur niðurstöður taílensku kollega sinna sannfærandi. Það sem komi á óvart er hversu langan tíma það hafi tekið að fá það staðfest að veiran geti borist frá köttum í fólk. Faraldurinn hafi jú verið gríðarlega mikill.
Nature segir í frétt sinni að rannsóknir sem gerðar voru fyrr í faraldrinum hafi sýnt fram á að kettir geti smitast af kórónuveirunni og geti smitað aðra ketti af henni. En að sanna að þeir geti borið hana í menn var nokkuð flókið að sanna. Og það var í raun tilviljun að þessi smitleið uppgötvaðist.
Í ágúst voru feðgar sem greinst höfðu með veiruna í suðurhluta Taílands settir í einangrun á háskólasjúkrahúsi. Sýni var einnig tekið úr heimilisketti þeirra sem reyndist sýktur. Þegar verið var að taka sýnið úr kettinum hnerraði hann í andlit dýralæknisins. Læknirinn var með grímu fyrir munni og nefi og með hanska á höndum en augu hans voru ekki varin.
Þremur dögum síðar fékk dýralæknirinn hita, nefrennsli og hósta og greindist í kjölfarið með COVID-19. Gerð var ítarleg smitrakning en allt kom fyrir ekki: Enginn sem læknirinn hafði umgengist var sýktur af veirunni. Þar með þótti líklegast að hann hefði smitast af kettinum, útskýrir einn höfunda rannsóknarinnar, Sarunyou Chusri, smitsjúkdómasérfræðingur og læknir við Háskólann í Hat Yai á Taílandi. Raðgreining leiddi svo í ljós að dýralæknirinn var sýktur af nákvæmlega sama afbrigði veirunnar og kötturinn og eigendur hans.
Vísindamenn segja að af þessu þurfi fólk þó ekki að hafa stórar áhyggjur. Líkurnar á því að smitast af sýktum köttum séu afar litlar. Sýnt hefur verið fram á að veirumagn í sýktum köttum sé lítið og að þeir séu fljótir að losa sig við hana. Hins vegar, sé staðfest að köttur sé sýktur af COVID-19 skuli, líkt og þegar um mannfólk er að ræða, fara varlega í umgengni við þá.
Chusri segir að fólk eigi þó alls ekki að yfirgefa dýrin sín séu þau veik heldur auðvitað að hugsa enn betur um þau. Það sé enn mannfólk sem helsta smithættan stafi af.