Vinna mun hefjast með utanaðkomandi fagaðilum um að endurskoða öll viðbrögð við kynferðisbrotum og ofbeldi innan KSÍ og hvernig staðið var og verður að stuðningi við þolendur. Faghópur verður settur á laggirnar og heitir stjórn KSÍ því að taka á þessum málum af alvöru og festu og fylgja ráðleggingum faghópsins.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn KSÍ sem hún sendi frá sér rétt í þessu. Hún mun sitja áfram en fyrr í dag greindi Kjarninn frá því að Guðni Bergsson myndi hætta sem formaður sambandsins.
Stjórnin hefur fundað undanfarna daga um þær alvarlegu ásakanir sem beinst hafa að sambandinu að undanförnu um þöggun kynferðisbrota. „Við lítum málið afar alvarlegum augum,“ segir í yfirlýsingunni.
„Þar til annað verður ákveðið munu varaformenn stjórnar sinna verkefnum sem eru á hendi formanns. Allir stjórnarmenn hafa íhugað stöðu sína. Til að tryggja órofna starfsemi sambandsins þá er niðurstaða stjórnar að skynsamlegt sé að hún sitji áfram fram að næsta ársþingi KSÍ sem haldið verður í febrúar á næsta ári en þá verður kosið til stjórnar,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.
Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:
Kæru þolendur, við í stjórn Knattspyrnusambands Íslands trúum ykkur og biðjum ykkur innilega afsökunar. Við vitum að við sem ábyrgðaraðilar höfum brugðist ykkur og við ætlum okkur að gera betur. Stjórnin hefur fundað undanfarna daga um þær alvarlegu ásakanir sem beinst hafa að sambandinu að undanförnu um þöggun kynferðisbrota. Við lítum málið afar alvarlegum augum. Nú þegar hefst vinna með utanaðkomandi fagaðilum um að endurskoða öll viðbrögð við kynferðisbrotum og ofbeldi innan hreyfingarinnar og hvernig staðið var og verður að stuðningi við þolendur. Faghópur verður settur á laggirnar og heitir stjórn KSÍ því að taka á þessum málum af alvöru og festu og fylgja ráðleggingum faghópsins. Við viljum auk þess biðja þolendur eða aðra sem hafa upplýsingar um alvarlegt ofbeldi innan hreyfingarinnar að leita til okkar. Við munum taka vel á móti ykkur, við viljum að málin fari í viðeigandi farveg og viljum tryggja að ábyrgð ofbeldis verði sett á réttan stað, á herðar gerenda en ekki þolenda.
Við ætlum að lagfæra þá hluti sem farið hafa aflaga og skoða frá grunni þá menningu sem við lýði er innan knattspyrnuhreyfingarinnar með það fyrir augum að öll sem að starfi þess koma fái upplifað velferð og öryggi, um leið og hlustað er á þolendur og tillit tekið til þeirra hagsmuna.
Vegna yfirlýsingar sem stjórnin sendi frá sér þann 17. ágúst sl. þar sem brugðist var við ásökunum um ofbeldi leikmanna karlalandsliðsins, er rétt að taka fram að yfirlýsingin byggðist á takmörkuðum upplýsingum sem þá lágu fyrir hjá stjórn, en þar vantaði gögn og frekari upplýsingar, sem hafa komið í ljós á síðari stigum. Við biðjum Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur og aðra sem stóðu í framlínu þess að benda á ofbeldið innan KSÍ afsökunar á yfirlýsingunni sem gerði lítið úr þeirra ásökunum og var laus við alla ábyrgð og einlægni.
Fyrir liggur að formaður stjórnar KSÍ hefur sagt af sér og þannig gengist við ábyrgð á meðferð þeirra mála sem til umfjöllunar hafa verið. Þar til annað verður ákveðið munu varaformenn stjórnar sinna verkefnum sem eru á hendi formanns. Allir stjórnarmenn hafa íhugað stöðu sína. Til að tryggja órofna starfsemi sambandsins þá er niðurstaða stjórnar að skynsamlegt sé að hún sitji áfram fram að næsta ársþingi KSÍ sem haldið verður í febrúar á næsta ári en þá verður kosið til stjórnar.
Við viljum ítreka að almennt starfsfólk KSÍ hefur unnið verk sín af alúð og trúmennsku og ber enga ábyrgð á þeirri atburðarrás sem hefur verið í gangi.
Þessi mikla bylgja sem dunið hefur á síðustu vikur hreyfði við okkur öllum. Sem hluti af stærstu sjálfboðaliðahreyfingu á Íslandiskiptir máli hvað KSÍ segir og gerir. Við höfum aldrei verið jafn meðvituð um þetta eins og núna og munum leita hjálpar samfélagsins til að gera róttækar breytingar, hlúa að þolendum og vera hluti af lausninni. Þetta verkefni mun taka tíma, en við ætlum að hefjast handa strax.
Knattspyrnuhreyfingin er hluti af samfélaginu, og við þurfum öll sem samfélag að gera betur í því að taka utan um þolendur og berjast gegn kynferðisofbeldi.
Stjórn KSÍ: Ásgeir Ásgeirsson, Bjarni Ólafur Birkisson, Björn Friðþjófsson, Borghildur Sigurðardóttir, Gísli Gíslason, Guðjón Bjarni Hálfdánarson, Ingi Sigurðsson, Jakob Skúlason, Jóhann Torfason, Magnús Gylfason, Orri Vignir Hlöðversson, Ragnhildur Skúladóttir, Tómas Þóroddsson, Valgeir Sigurðsson, Þorsteinn Gunnarsson og Þóroddur Hjaltalín.