Fundi stjórnar KSÍ hefur verið frestað fram á morgundag, samkvæmt heimildum Kjarnans, en krísufundur stjórnar hófst klukkar tólf í dag.
Atburðarás síðustu daga hefur verið hröð í málum KSÍ þar sem landsliðsmenn í knattspyrnu hafa verið sakaðir um ofbeldi og áreitni undanfarnar vikur.
Svör KSÍ varðandi ásakanir og vitneskju stjórnenda innan sambandsins hafa ekki verið í samræmi við frásagnir þolenda. Kjarninn greindi frá því í dag að miðillinn hefði gert ítrekaðar tilraunir til að fá svör frá KSÍ en fyrirspurnir hefðu gengið á milli upplýsingafulltrúa og stjórnenda án afgerandi svara.
Nýjustu vendingarnar í málinu voru í gær þegar ung kona sem varð fyrir ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu árið 2017 steig fram í fréttum RÚV og greindi frá samskiptum við KSÍ.
Hún furðaði sig á að formaður KSÍ fullyrti að engin tilkynning hefði borist sambandinu um kynferðisbrot leikmanna. Konan sagði að lögmaður á vegum KSÍ hefði boðið henni þagnarskyldusamning sem hún hafnaði. Sjálfur hefði landsliðsmaðurinn gengist við brotinu og greitt miskabætur.
Guðni Bergsson formaður KSÍ hafði tjáð sig í fjölmiðlum í síðustu viku og sagt að engin ofbeldismál hefðu komið á borð KSÍ síðan hann varð formaður. Hann tók við embættinu í febrúar 2017.