Stefán Eiríksson útvarpsstjóri telur að stjórnendur RÚV hafi „kannski ekki staðið alveg nógu þétt við bakið á“ Helga Seljan og fleiri starfsmönnum fyrirtækisins sem urðu fyrir barðinu á ófrægingarherferð útgerðarfyrirtækisins Samherja. Þetta segir Stefán í viðtali sem birtist á vef Blaðamannafélags Íslands í dag.
Í viðtalinu ræðir útvarpsstjóri um nýjar siðareglur RÚV sem tóku gildi í sumar, en með setningu þeirra var siðanefnd sem starfaði samkvæmt eldri siðareglum ríkisfjölmiðilsins lögð niður.
Umdeilt ákvæði eldri siðareglna, sem fól í sér að starfsfólk sem sinnti umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og tæki ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ.á.m. á samfélagsmiðlum, er hvergi að finna í nýju reglunum.
Útgerðarfyrirtækið Samherji kærði í ágúst árið 2020 alls ellefu starfsmenn RÚV fyrir tjáningu á samfélagsmiðlum, sem í flestum tilfellum var sett fram vegna myndbands þar sem spjótum fyrirtækisins var beint að Helga Seljan. Siðanefndin úrskurðaði Helga einan sekan um brot á reglunum, vegna hluta þeirra ummæla hans á samfélagsmiðlum sem Samherji kærði.
Stefán samsinnir því í viðtalinu að stjórnendur RÚV hefðu mátt standa betur með þeim starfsmönnum sem „lentu í þessum ótrúlegu hremmingum“ fyrir það að hafa verið að sinna sinni vinnu.
„Það held ég að hafi ekki tengst bara þessum siðareglum eða þessu tiltekna máli heldur ýmsu öðru, eins og t.d. aðgengi að og afhendingu á gögnum til þessa aðila, sem misnotaði það efni síðan sem varð til þess að við tókum fyrir það að láta efni af hendi í eigin framleiðslu þessa fyrirtækis á „fréttum“,“ er haft eftir Stefáni í viðtalinu.
Vinnureglur fréttafólks og siðanefnd BÍ
Þrátt fyrir að búið sé að leggja niður siðanefnd RÚV og fjarlægja hið umdeilda ákvæði úr siðareglum miðilsins er það þó ekki svo að engar reglur gildi um tjáningu þeirra starfsmanna sem starfa við fréttir og dagskrárgerð, en vinnureglur RÚV um fréttir og dagskrárefni tengt þeim voru gefnar út endurskoðaðar í desember 2020.
„Þarna er réttilega fjallað um að þeir sem vinna hjá RÚV og eru að sinna fréttum og dagskrárgerð þurfa að gæta að því að það sé hafið yfir allan vafa að þeir séu hlutlægir og óhlutdrægir í sinni umfjöllun og séu ekki að tjá sig opinberlega, hvort heldur sem er á samfélagsmiðlum eða með öðrum hætti, um einhver mál sem viðkomandi er síðan að skrifa um og fjalla um. Um þetta atriði eru allir sammála,“ segir Stefán í viðtalinu.
Þess fyrir utan gilda siðareglur Blaðamannafélags Íslands líka um þau sem starfa við fréttatengda umfjöllun hjá RÚV. „Ég hef engar efasemdir um lögsögu siðanefndar BÍ um það sem snýr að okkar fólki,“ segir Stefán í viðtalinu, sem lesa má í heild sinni á vef Blaðamannafélagsins.